Marylebone fólkið

Fitzrovia í London er okkar hverfi. Það er álíka miðsvæðis og t.d. Þingholtin í Reykjavík. Gott hverfi og er mitt á milli Bloomsbury og Marylebone sem eru bæði voðalega fín hverfi. Fitzrovia er svolítið gleymt svæði þ.e. af því að fyrrnefndu hverfi eru svo rosalega flott (Madonna og fleiri eiga t.d. hús í Marylebone) að hverfið gleymist. Það er mjög nálægt West End (leikhúshverfinu) og maður er 10 mínútur að labba í næsta leikhús. Okkur hefur allavega alltaf liðið vel í Fitzrovia. Það er samt dýrðlega fyndið hvað allt breytist þegar maður gengur í u.þ.b. 15 mínútur í suðurátt…þ.e. í átt að Marylebone. Þar gengur maður m.a. þvert á Harley Street sem er aðalstaðurinn fyrir andlitslyftingar og fleira. Við sáum ótal fínar konur með plástra á nefinu og í kringum augun á leið okkar í matvörubúðina (sem er einmitt í Marylebone). Bílarnir voru líka fljótir að breytast úr t.d. Mazda yfir í Bentley, Rolls Royce, BMW, Mercedes Benz, Ferrari, Lambourghini o.fl, o.fl. Meira að segja hef ég sé Bugatti.

Það sem okkur fannst þó alltaf lang fyndnast var fólkið sem gengur (þrammar ekki) Marylebone. Þar eru alls kyns búðir fyrir svona heldur efnameira fólk. Til dæmis er þar White Company sem er eins og gullhúðuð og demantsskreytt IKEA. Þar inni er allt hvítt, ljósblátt, ljósbleikt, ljósbrúnt, úr cashmere, hör og 100% egypskri bómull með alvöru þráðum (thread count). Þvottapoki getur alveg kostað 3000 krónur. Þetta er ein af uppáhaldsbúðunum mínum og ég tími samt ekki að kaupa neitt í henni. Reglulega fer ég þangað inn til að þefa af kertunum sem kosta 5000 krónur og snerta rúmteppin sem kosta hátt í hundrað þúsund á núverandi gengi. Búðin er dýrðleg. Í búðinni eru aldrei konur/foreldrar með organdi börn í eftirdragi, í flíspeysum og með hor. Nei þar inni eru bara konur í mokkasíum og ljósbrúnum bómullarbuxum, með bleikar cashmere peysur á öxlunum, sem ekki eru snjáðar eða þæfðar. Konurnar eru ljóshærðar með rennislétt hár, ljósbrúnan hörundslit eftir síðasta skíðafríið/siglinguna/sólarströndina og neglurnar eru með franskri áferð. Þetta er svona fólk sem fer á skútur og kann að sigla (meðfæddir hæfileikar) en fær aldrei úfið hár. Karlarnir eru líka í mokkasíum, í dökkbláum buxum og bláröndóttum skyrtum, með dökkbláar cashmere peysur á öxlunum, sem ekki eru snjáðar eða þæfðar. Þeir eru allir með dökkt hár og krullur, sem liðast aðeins yfir ennið. Fólkið hlær í lágum tónum (því það er svo siðmenntað). Það hefur alltaf nógan tíma (því barnapíurnar eru heima með börnin) og það talar um að fara í lönsj einhvers staðar í hádeginu. Það kyssir líka út í loftið þegar það heilsast. Fólkið er aldrei með gubbubletti á fötum eða aðra bletti og aldrei skrámur eða brotnar neglur. Ef börnin eru með (sem er sjaldan) má gjarnan finna fjölskyldurnar á Starbucks Marylebone, líklega eina Starbucks með salerni þar sem ekki er gert ráð fyrir eiturlyfjafíklum (alvöru speglar, ekki járnplata og ekkert blátt ljós). Þar er heldur aldrei pissulykt því Marylebonekarlarnir pissa aldrei út fyrir. Marylebonebörn eru alltaf með spékoppa og krullur; drengirnir með dökkar krullur og stúlkurnar með ljósar krullur. Stúlkurnar eru alltaf í hvítum bómullarkjólum og þeir eru alltaf drifhvítir. Það er alltaf sól þegar Marylebonefólkið er úti við og öll börnin eru vel upp alin og þau hlægja lágt. Þau rífast ekki, þau segja Please og Thank you og Pardon og þau sparka ekki í hvort annað, né foreldra sína sem eru ávallt niðursokkin í helgarblöðin (fjármála- og fasteignahlutann).

Mig dauðlangar að búa í Marylebone en þær íbúðir sem við höfum skoðað í Marylebone eru á verði sem myndi þýða að við værum starfandi á gangstéttum borgarinnar…..ekki alveg að gera sig. Ég held samt að ég yrði aldrei gjaldgeng hvort sem er. Ég brýt hluti, ég er alltaf með trilljón bletti á fötunum, er oft tætingsleg um hárið, er oft með brotnar neglur, örugglega með grenjandi, horugt smábarn í eftirdragi þegar þar að kemur (reyndar grenjar sjaldan en alltaf með hor), er stundum í flíspeysu (ekki oft samt og hún er ekki svo ljót), alltaf í snjáðum fötum og snjáðum skóm, missi mat niður á mig….o.fl. Það eina sem ég hef sem passar undir Marylebone staðlana er að ég er hljóðlát og tala í lágum rómi yfirleitt. En ekki af því að ég er siðmenntuð heldur af því að ég er óttaleg mús.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
14. maí. 2010

Sigrún mín...... kíktu í Wimbledon village ...... þar búa sko marylebone konurnar með krullubörnin og svona æðislegar krúttilegar rugldýrarbúðir.

Þegar ég kaupi húsið mitt í Raynes park býð ég þér í heimsókn og við förum með horkrakkana okkar í gönguferð í herfugöllunum og skoðum snobbhill (er í göngufæri frá Raynes park sko ). Díll ?

CafeSigrun.com
14. maí. 2010

Já...líst vel á það.....Þá verður autt pláss í kringum okkur á kaffihúsinu, þegar horbörnin okkar fara á kreik....Við verðum örugglega beðnar um að yfirgefa pleisið :)

Elva
15. maí. 2010

Veistu Sigrún, ég myndi taka Marylebone týpunum með fyrirvara, ég held nefninlega að Marylebone karlarnir séu flestir í kvenmannsnærfötum innanundir cashmere peysunum og frúrnar halda við einkaþjálfarana / garðyrkjumennina / son nágrannans. Börnin krullóttu eru villidýr sem bíta barnfóstrurnar og pína litlu smáhundana á heimilinu. M.ö.o. enginn er svona fullkomin, það er mín kenning allavega, og þá er betra að vera augljóslega dáldið 'gölluð' týpa. En ég væri alveg til í að eiga dáldið af peningunum sem Marylebone fólkið virðist eiga nóg af!

CafeSigrun.com
15. maí. 2010

ELVA...... nú á ég bara eftir að sjá Marylebone karlana fyrir mér í kvenkyns nærbuxum (FOREVER)!!!!!!!! :)

Lisa Hjalt
16. maí. 2010

er einhverjum öðrum en mér farið að finnast þetta Marylebone fólk svolítið kjút? ... heimur án allra bletta og hors, það er bara dásemd!