Mary Poppins róninn

Það er alveg hreint magnað hvað maður getur haft mikla fordóma gagnvart öðrum. Samt tel ég mig ekki fordómafulla manneskju.  Fyrir nokkrum dögum síðan var ég úti á gangi með litla Skrípið. Hún var í lítilli kerru. Það var þungt yfir og dropar voru farnir að detta úr lofti. Ég var á leið heim og gekk rösklega með fram stórri umferðargötu (sem húsið stendur við). Á móti mér gekk maður með innkaupapoka. Það var bundið fyrir pokann og hann hélt í hnútinn og mér sýndist hann ganga hægt og aðeins riða. Karlinn var með regnhlíf og var svolítið fram yfir síðasta söludag. Þegar ég bruna fram hjá honum, benti hann á mig og sagði "Heyrðu....þú þarft regnhlíf svo að hann verði nú ekki votur greyið" (ok það er önnur saga...Afkvæmið er EKKI strákur...hvað er eiginlega að Bretum? (og reyndar Kenyabúum líka)). „Þetta er allt í lagi“ sagði ég..."ég bý hérna í húsinu" og benti upp. "Hmmm ertu nú viss....það er alveg að koma hellidemba". "Já já" sagði ég. "Viltu ekki fá regnhlífina mína, þú mátt fá hana....ég get orðið mér út um nýja?". "Nei nei það er nú óþarfi" sagði ég og sneri mér við til að draga kerruna upp. Karlinn kemur tindilfættur og lyftir undir kerruna. "Þakka þér fyrir" sagði ég. Karlinn brosti og veifaði framan í Afkvæmið. "Ég á því miður ekkert smálegt til að gefa þér" sagði ég. "Ha?" sagði karlinn og starði á mig . "Ég á engan smápening, því miður en ef þú býður get ég náð í einhverjar krónur sem ég á uppi". Maðurinn var steinhissa á svipinn og þegar ég fór að horfa aðeins betur sá ég að karlinn var enginn róni. Hann var í svo til óslitnum skóm, í flauelisbuxum (ekki einn einasti róni er í flauelisbuxum), með tandurhreinar neglur (rónar eru alltaf með sorgarrendur), pokinn (sem ég hélt að innihéldi hans veraldlegu verðmæti) var ruslapoki sem hann var með á leið í ruslatunnuna (3 skrefum frá okkur) og regnhlífin hans var nýleg og karlinn notaði hana fyrir göngustaf því hann var aðeins farinn að tina. Karlinn var bara að vera sætur í sér og hjálplegur.....en ég afskrifaði hann áður, á um 3 sekúndum og var búin að dæma hann sem gamla fyllibyttu. Lexía dagsins var: Stundum borgar sig að pússa aðeins "fordómagleraugun".
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
12. maí. 2010

OMG ... ég fæ alveg meðvirkniverk niður í tær!