Við teipum þetta bara

[caption id="attachment_1577" align="aligncenter" width="300" caption="Teipbuxur"]Teipbuxur[/caption]

Það væri synd að segja að vandvirknin væri að drepa Breta. Að minnsta kosti þegar kemur að skammtímaleiguhúsnæði. Við erum í ágætis húsnæði reyndar, svo sem ekki mikið hægt að kvarta yfir því, er á 4ðu hæð með minnstu lyftu í heimi (það komast bara 2 fyrir í henni í einu). Það er líka frekar kalt í íbúðini miðað við að hún er svona ofarlega og það er t.d. gat og kaldur blástur undir gluggasyllunni í herberginu og enginn að pæla í því að loka gatinu þó það kosti lifur og lungu að kynda húsin. Gluggatjöldin ná heldur ekki niður og orkueyðslan því mikil þar. Hlutir sem maður myndi augljóslega laga ef maður byggi lengur en í mánuð á staðnum en er alveg sama um ef allir reikningar eru innifaldir. Íbúðin er snyrtileg og hrein, nema hvað í íbúðinni er allt sem hefði þurft að laga almennilega, teipað (límt). Gólflistarnir eru teipaðir niður með glæru teipi. Hluti af gereftum er teipaður fastur. Einn stóllinn er teipaður saman. Skaft á hníf hefur fengið sömu meðferð. Það glittir í teip á sturtuhenginu. Harmonikkuhurðin inn í eldhús er teipuð aftur. Í dag kom viðgerðarmaður vegna þvottavélarinnar sem lak. Hann dró fram teipið „við teipum þetta bara“. Hann hefur greinilega séð efasemdarsvipinn á mér því hann sagði „engar áhyggjur, þetta er extra sterkt teip, hannað fyrir vatn“. Ég glotti. Mér er alveg sama þó þvottavélin leki, bara ef hún dugar þennan mánuð. Ég er bara glöð að ég þurfti ekki að kalla til lækni í neyð...hann hefði líklega mætt með UHU....eða glært teip.

Eins og áður sagði erum við á afar góðum stað, svona miðað við uppáhalds, uppáhalds heilsubúðina mína. Mér fannst heldur ekki leiðinlegt að fara inn í matvöruverslunina hérna í hverfinu því inn í henni er Starbucks {Hrund....þú finnur ekki svoleiðis í Bónus þarna fyrir austan ;] Ég rölti því með innkaupin heim (meðal annars kíló af lífrænt ræktuðum gulrótum á 99p eða um 200 krónur á núverandi gengi) og drekk latte í leiðinni. Það finnst mér allt í lagi. Ég get ekki sagt að ég sakni þess að versla í matinn heima, í Bónus, Krónunni eða hvað þessar búðir heita allar. Það var fátt sem ég hataði meira og af jafn mikilli dýpt og búðarferðirnar. Ég nánast táraðist í hvert skipti sem ég eyddi peningunum mínum. Ég áttaði mig líka á því þegar ég skoðaði Delicious í dag (eitt af uppáhalds matarblöðunum mínum), að tilboðin sem eru í gangi, eiga núna við mig. Ég fékk póst áðan frá Japan Centre (ein af uppáhalds búðunum mínum í London) að tilboðið á sushi hráefni, gæti ég nýtt mér. Ég get farið að skoða alla spennandi veitingastaðina, allt spennandi hráefnið, allar nýju matarbúðirnar. Ég bý nefnilega á staðnum og þarf ekki lengur að láta mig dreyma. Það er eins og ég hafi farið í leiser aðgerð á augunum og sjái loksins skýrt aftur. Þokan fyrir augunum er farin. Þó að allt sé teipað saman í Bretlandi klikka gæði á hráefni og matvöruverslunum ekki.

En núna er ég grasekkja. Fyrsta daginn hans Jóhannesar í vinnunni var hann sendur til Budapest. Þetta verður langur fyrsti dagur í vinnunni því hann verður fram á föstudag. Við mæðgurnar erum því einar heima en það er allt í lagi því ég hef Starbucks, uppáhalds heilsubúðina mína, uppáhalds matarblaðið mitt og fullt af lífrænt ræktuðu grænmeti og ávöxtum til að japla á. Ég ætla ekki að fara í heilsubúðina á morgun því starfsfólkið er farið að kannast við mig. Einn kinkaði kolli til mín í gær. Sem mér fannst fyndið því þetta er jú stærsta heilsubúð Evrópu. Það sama er upp á teningnum með Jóhannes þegar við förum í útivistarbúðir hér í London.

Við erum óðum að koma okkur fyrir þó við séum í skammtímahúsnæði. Búin að eignast mína fyrstu matreiðslubók (húrra!!!!). Moroccan and the Foods of North Africa. Hún var gjöf frá Jóhannesi svo hún telst ekki með...ekkert frekar en nestisboxin sem ég keypti um daginn sem eru svo venjuleg að þau teljast ekki með í nestisboxainnkaupum.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
06. maí. 2010

Sigrún þó grrrr ég fór í Krónuna á Selfossi .... ekkert starbucks þar...... og bara gamlar paprikur frá Spáni. Í Raynes park er massa stórt Tesco með huggó starbucks inni og opið allan sólarhringinn.... ;)

Og passaðu að Jóhannes pannti sér ekki Porkölt eða borið fram einhvernveginn þannig.... en það er mesta ógeð sem ég hef smakkað í Búdapest..... grísagarnir í brúnni sósu með grænum baunum !

Lisa Hjalt
06. maí. 2010

ég á líka þessa bók sem Jóhannes gaf þér en mig vantar algjörlega svona teipbuxur ;-)

Sigrún
06. maí. 2010

Jóhannes pantar sér örugglega ekki neitt ógeð í Budapest, get lofað þér því (hann er strax farinn að sakna hollustumatarins um leið og hann stígur fæti út fyrir húsið og hlakkar alltaf til að koma heim aftur í hollustuna) :)

Lísa þetta er málið....við kaupum okkur svona buxur (eða búum þær til?).

Melkorka
07. maí. 2010

Sigrún, þú ert góður penni! Vona að þú notir þann hæfileika meira (þú veist hvað ég meina). Það er SVO gaman að lesa það sem þú skrifar. Ok, hætt að bögga þig í bili.

Alma María
07. maí. 2010

Gott að heyra að þú sért farin að sjá skýrt. Velkomin heim til London. Hlakka til að lesa bloggin þaðan.

Kær kveðja úr 12 stiga hita, logni og þoku í Reykjavík (svona London veður)

Sigrún
07. maí. 2010

Melkorka ég veit hvað þú meinar....það er enginn sem kemur jafn oft upp í hugann og þú (jú kannski þú Lísa) þegar ég er að velta þessu fyrir mér.....þetta er allt á 5 ára planinu ;) Lofa.

Alma...takk fyrir kveðjuna, það er gott að vera komin 'heim' :)

Jóhanna S. Hannesdóttir
09. maí. 2010

Hahahaha... fyndin þessi teip-árátta í Bretum! :-D