Bloggið

Jólin koma

Ok jólin eru ekki alveg komin en það eru samt bara 6 mánuðir til jóla! Ekki alveg viðeigandi kannski að vera að hugsa um jólin í 30 stiga hita en vá hvað ég hlakka til að drekka Eggnog Latte hjá Starbucks. Mmmmmmmmm það er besti drykkur í heimi. Svo er reyndar æðislegt að sjá jólaljósin í London, þeir eru duglegir að skreyta verslunargöturnar. Þeir skreyta reyndar allt of snemma, liggur við að það sé miður september þegar þeir hengja fyrstu seríurnar upp en það er ægilega fallegt í desember þegar ljósin mega njóta sín.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Jibbí, fundi frestað

Mikið varð ég glöð. Fundinum þar sem ég átti að halda fyrirlestur (og gat því alls ekki sleppt að mæta á) var frestað. Það voru miklar hamingjufréttir því það er um 30 stiga hiti og ég var ekkert að hlakka til þess að fara í lestina og svitna til helvítis. Hefðum þurft að labba smá smöl í lestina svo ég var búin að kvíða fyrir alveg helling. Fór í ræktina í morgun og tímdi ekki að verða sveitt og ógeðsleg, það er nóg að maður geri það í ræktinni. Þau báru fyrir sig veikindum hjá Verðbréfamiðlun London (London Stock Exchange). Ég held að þau hafi hreinlega bara bráðnað, eins og svo margir í London þessa dagana. Ég ætla að setjast út í garðinn góða, undir tré og drekka Diet Sprite eða eitthvað álíka svalandi.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Svo fegin

Ég er SVO fegin að ég þarf ekki að fara í lest heim. Í staðinn get ég labbað heim í góða veðrinu og þó að göngutúrinn sé ekki langur, bara um 7 mínútur eða svo þá er hann nóg til að teygja aðeins úr sér eftir langa setu. Það er um 28 stiga hiti núna og það eru allir sem vinna með mér kvíðnir fyrir svitabaðinu í lestunum sem bíður þeirra enda er það ekkert grín. Það er búin að vera svona mini hitabylgja í um 1 viku og spáð aðeins áfram. Hitinn á að vera 28 stig á morgun og fram á föstudag og ég er ekki að hlakka til, ég þarf að fara á 2 fundi úti í bæ á morgun og fimmtudag.

Lestarnar eru ekki hannaðar með hita né loftræstingu í huga og það er vel greinilegt þegar maður notar þær í miklum hita. Ég man eftir því þegar ég þurfti að nota lestarnar á hverjum degi. Ég kveið því svoo mikið. Líka þegar hitinn er svona mikill þá fara lestarteinarnir að bogna. Ekki bogna þannig að það sjáist heldur bogna þeir pínulítið þannig að rafmagnið nær ekki alla leið. Þá stoppa þær og hitinn í vögnunum verður algerlega óbærilegur, það er þó skárra þegar þær eru á ferðinni. Nei í hitabylgjum þá fara þær hægar (reyndar ef rignir, ef eru laufblöð á teinunum, ef er of mikill vindur o.s.frv. þá klikka þær, það má ekkert út af bera enda 50 ára gamall tækjabúnaður sem er verið að nota). Ég man eftir því að hafa verið í lest í 35 stiga hita og innandyra hefur sennilega verið svona 45 stiga hiti og það eru engar ýkjur. Það líður yfir marga í svona hita og mann langar helst bara að hoppa út um gluggann. Ef við gefum okkur að ein manneskja gefi álíka mikinn varma og ein 60 watta ljósapera (hefur verið sýnt fram á að það er um það bil sá varmi sem við gefum frá okkur í kyrrstöðu) þá eru um 100 ljósaperur í einum troðfullum vagni og þær eru fljótar að segja til sín í miklum hita.

Annars vita þeir alveg af vandamálinu þessir sem ráða yfir lestunum, vandamálið er bara fjárskortur og einnig það að enginn hefur getið komið með lausn sem hefur virkað fyrir loftræstikerfi neðanjarðalestanna. Vandinn er ekki sá að blása kalda loftinu inn heldur að koma heita loftinu út aftur því það kemst ekki út um göngin. Það er sem sagt engin undankomuleið fyrir heitt loft og þeir sem nota lestarnar grillast því bara, eða sjóða eða steikjast. Þeir hafa heitið 100.000 pundum (um 13 milljónir) í verðlaun fyrir þann sem getur hannað kerfi sem virkar. Nú er bara að setjast að teikniborðinu sko. Held að Smári bróðir hafi verið kominn með hugmynd :) Áfram Smári.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Íslatte

Jæja ég lifði daginn af, og líka fundinn. Við þurftum að fara með lest, þrjú úr vinnunni í höfuðstöðvar Times dagblaðsins í London. Það var alveg skaplegt í lestinni enda fáir á ferð á hádegi. Við tókum svo leigubíl frá Tower Hill lestarstöðinni til Times, sem betur fer, hefði dáið í sólinni. Það voru loftkældar skrifstofur og allt í góðu þar. Nema á fundinum voru 10 karlmenn (þar af 7 af þeim í dökkbláum buxum og blárri skyrtu he he, samt var þetta ekki einkennisbúningur. Svona eru Bretar bara litríkir, eða þannig. Það var samt einn með vefjahött). Það var ekki boðið upp á neitt, hvorki vott né þurrt og við vorum aðframkomin úr þorsta og hungri þegar við sluppum út. Við tókum svo leigubíl til baka á lestarstöðina, aftur, sem betur fer, hefði bráðnað á leiðinni enda hitinn að verða óbærilegur og lítið um skugga. Nema hvað við fórum svo í lestina og það var önnur saga þar. Hitinn var svo hrikalegur að við vorum öll orðin máttlaus úr hita og vanlíðan. Það hjálpaði ekki að lesa í blaðinu sem ég var með að hitinn í lestunum getur farið í 48°C (í sumum lestunum) og það er aðeins einn staður heitari þessa dagana en það er í Hanoi í Víetnam. Einmitt. Svona að meðaltali þá er um 36°C hiti í vögnunum og það er heitara en Miami víst. Díses, maður verður ekki einu sinni brúnn á að vera í lestunum, manni verður bara heitt.

Þeim finnst annars mjög fyndið hvað ég þoli illa hitann hér og halda að ég sé gerð úr ís, og muni bráðna. Ég er alltaf í skugga, fer alltaf undir tré í görðunum, er alltaf með sólgleraugu. Enda er ég eins og næpa.

Ég endaði á því að fara í garðinn sem er hérna rétt hjá með ískalt Diet Sprite, undir trénu auðvitað, í skugganum. Það var voða yndislegt. Svo trítlaði ég á Starbucks og fékk mér Íslatte (koffeinlaust auðvitað) og er núna með það hjá mér á skrifborðinu. Mmmmmmm.

Annar fundur á morgun, spáð allt að 30 stiga hita :(

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Járnskortur

Var að lesa að þeir sem þjást af járnskorti geta orðið óeðlilega sólginir í ákveðnar matartegundir, t.d. vanilluís, frostpinna og lakkrís. Það er því alveg ljóst að Jóhannes þjáist af járnskorti. Ætla samt ekki að segja honum þetta því hann verður ægilega glaður yfir því að fá góða og gilda ástæðu til að borða vanilluís. Ef hann mætti ráða myndi hann sennilega borða cheerios og vanilluís í öll mál. Nokkurn veginn það sem hann gerir ef ég er að heiman. Meiri pjakkurinn sko. Æi hann fer svo sem 5 sinnum í viku í ræktina en samt, einum og mikið af því góða sko hí hí.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ein í kotinu

Jæja þá er ég orðin ein eftir í kotinu í bili. Jóhannes er í Ungverjalandi núna. Flýgur til Póllands í kvöld, Oslóar annað kvöld og Prag á fimmtudaginn.

Smári og fjölskylda fóru út á völl áðan, fara í loftið í kvöld. Við gerðum margt skemmtilegt. Við fórum til dæmis á U2 tónleika :) svo löbbuðum við út um alla London (svona miðjusvæðið allavega eins og Covent Garden, Soho og Carnaby Street), fengum okkur jógúrtís á Muffinskis, fórum á Rainforest Cafe, fórum nokkrum sinnum á Starbucks, þau fóru á Lion King söngleikinn sem þau voru mjög hrifin af, við fórum líka í nokkrar búðir, fórum líka í pikknikk í Regents Park.

Það hefði verið hægt að gera miklu meira en það er ekkert auðvelt að hreyfa sig í London þegar hitinn er orðinn rúm 30 stig. Þá á maður bara að sitja undir tré með eitthvað kalt að drekka. Það verður líka að geyma eitthvað þangað til næst t.d. eins og Hjólið, Sight seeing, Vaxmyndasafnið og svona.

Ég sé þau svo aftur í næstu viku, erum að fara heim í frí. Ætlum þá að fara Laugaveginn með Borgari bróður og konunni hans. Getum ekki beðið við hlökkum svo til!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

U2 er BESTA hljómsveit í heimi

Jæja þá eru tónleikarnir búnir. Þetta voru magnaðir tónleikar. Ekki eins sérstakir auðvitað og tónleikarnir í Slane Castle, Írlandi 2001 (enda mjög, mjög sérstakir U2 tónleikar eins og ég hef áður skrifað um og eru taldir með bestu U2 tónleikum frá upphafi, og ekki bara af mér heldur U2 fræðingum og gagnrýnendum) en magnaðir engu að síður. U2 er líka besta hljómsveit í heimi. Það er ekkert vafamál þar á ferð. Bara svo það sé alveg á hreinu.

Við lögðum af stað að heiman (sko í London), ég, Jóhannes, Smári bróðir og Anna Stína konan hans í rúmlega 30 stiga hita. Við vorum mest hrædd um að lestarteinarnir myndu bráðna eins og gerist nokkuð oft (ok bráðna kannski ekki en beyglast illa í svona hita) og að við myndum verða strand á leiðinni og missa af tónleikunum. Hefði leigt þyrlu til að komast á áfangastað. Við tókum lestina til Richmond þar sem við tókum strætó út að leikvanginum. Hitinn í strætó hefur verið svona 40-45 stig og allir að bráðna. Það lak af öllum svitinn enda hitinn nánast óbærilegur. Við komumst svo loksins, í föstu formi (tæplega þó, vorum eiginlega fljótandi) og við okkur blasti risa, risa leikvangur (notaður fyrir Rugby svona yfirleitt) og tekur um 70 þúsund manns. Við vorum öll svo uppþornuð eitthvað (ég var samt búin að drekka tæplega 3 lítra af vatni það sem af var dags) að okkur langaði öll í salt, flögur, nachos, franskar, bara eitthvað með salti í. Við Jóhannes fundum samt ekkert með salti í. Svona saltþörf grípur okkur afar, afar sjaldan bara svo ég taki það fram en hitinn var bara svo mikill og við búin að svitna til helvítis.

Lagalistinn var mjög góður, mjög flott blanda af gömlu og nýju, ekkert lag sem ég saknaði nema kannski Mysterious Ways sem er eitt af uppáhalds U2 lögunum mínum (fyrir utan reyndar svona 30 önnur lög eða 40, eða 50, eða 60). Þeir tóku meðal annars With or Without You sem er óvenjulegt að þeir taki á tónleikum (tóku reyndar í Slane Castle 2001) og það er alltaf magnað, sama hvar maður heyrir það.

Þeir keyrðu hratt í gegn og stemmningin var rosaleg. Svo mikil að þakið fyrir ofan okkur dúaði undan fólkinu sem var fyrir ofan. Við erum að tala um stál og steypu og mér stóð ekki á sama á tímabili. Já svo valdi Bono píu úr fjöldanum fremst og dró hana upp á svið. Bono faðmaði hana og kjassaði og vangaði við hana hálft lagið. Stelpugreyið var í hálfgerðu losti. Spáið í hvað hún er heppin með umræðuefni í partíum næstu 60 árin eða svo! Aumingja sú sem var fyrir aftan hana eða við hliðina á henni. Spáið í höfnuninni. Mesta höfnun EVER. Hefði ekki lifað það af. Kannski eins gott að ég var bara uppi einhvers staðar. Hefði ekki afborið það ef einhver pía hefði verið dregin fram fyrir mig. Hefði grenjað.

Setti hérna inn 2 myndir (tók þær reyndar ekki sjálf)

Magnaðir U2 menn.

Frábærir tónleikar. U2 menn í stuði.

En já hér kemur lagalistinn.

Lagalistinn frá 19. júní Twickenham

 • Vertigo
 • All Because Of You
 • The Electric Co (+ Bullet With Butterfly Wings/I Can See For Miles)
 • Elevation (+ smá bútur af Hot in Herre, enda var HEITT)
 • New Years Day
 • Beautiful Day
 • I Still Haven't Found
 • Who's Gonna Ride Your Wild Horses (var víst ekki á upprunalega Vertigo lagalistanum en var alveg hrikalega flott)
 • City Of Blinding Light
 • Miracle Drug
 • Sometimes You Can't Make It On Your Own (bara, bara, bara brilliant)
 • Love And Peace Or Else
 • Sunday Bloody Sunday
 • Bullet The Blue SKy (ásamt bútum úr Please, When Johnny Comes Marching Home, The Hands That Built America. Mjög flottur taktur í laginu, virkilega þétt)
 • Running To Stand Still (ásamt afmælissöng handa Aung San Suu Kyi mannréttindabaráttukonu sem varð 60 í gær + bútur úr Walk On (lag sem var upprunalega samið handa henni)
 • Pride
 • Where The Streets Have No Name
 • One (Bono tileinkaði Bob Geldof þetta lag ef ég hef ekki rangt fyrir mér)

Uppklapp

 • Zoo Station
 • The Fly
 • With Or Without You
 • Yahweh
 • Vertigo

U2 er BESTA hljómsveit í heimi!!!!

P.s. Ívar og Erling, ég vona að þið hafið skemmt ykkur vel :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Air bjútifúl og vinkona mín Erin O'Connor

Jæja langt síðan ég hef skrifað síðast enda búin að vera dáldið mikið bissí.

Ég er sem sagt lent í London. Ferðin hingað gekk vel eins og venjulega en ég var samt að drepast úr hræðslu. Vitið þið afhverju?? Jú sko, vélin var full af FYRIRSÆTUM og það voru sko fyrirsætur af öllum gerðum, ein var austurlensk, ein var svört, ein var mjög blönduð greinilega og svo var nokkrar alveg rosalega amerískar. Ég fékk meira að segja staðfestingu á þessu þegar ég las Dagblaðið sem ég keypti mér á flugvellinum því þar voru myndir af þeim í blaðinu. Þetta voru sem sagt fyrirsætur sem höfðu verið að sýna á stóru tískusýningunni síðastliðinn föstudag heima á Íslandi. Þetta var sem sagt Air bjútifúl og eins og þið vitið er ég ekkert rosalega hrifin af fallegum farþegum eftir að verið að horfa á Lost þættina sko. (Afhverju er annars fólkið á eyðieyjunni ennþá með glansandi hár? Svo hlýtur að vera sléttujárn á eyjunni, trúi ekki öðru, miðað við hversu slétt hárið á sumum konunum er). Ég var sem sagt viss um að vélin myndi hrapa því farþegarnir voru alveg fullkomnir til að gera Hollywood mynd eftir. Já ég veit að ég er klikk.

Allavega. Ég lendi heilu og höldnu á Heathrow og allt gekk vel nema þegar ég var að koma að vegabréfseftirlitinu þá uppgötva ég mér til mikillar skelfingar að ég er ekki með passann og hann var ekki á þeim stað sem hann átti að vera í bakpokanum. Það var svona milljón manns í kös og ég var búin að vera í biðröð í svona 10 mínútur. Hún var nú ekki beint sú hjálplegasta konan sem ég talaði við. Hún gargaði á mig að ég yrði að fara aftur í flugvélina og ná í passann. Svo gargaði hún NÆSTI, þar með var ég afgreidd. Ég bara vonaði innilega að passinn væri þar. Ég þurfti sem sagt að fara með fylgd aftur að vélinni og þar fannst passinn. Líklega hefur hann dottið úr töskunni minni þegar ég var að ná í bókina mína í hólfið framan á. Ég er alltaf svo passasöm svo þetta var alveg glatað.

Já svo fór ég til baka, í gegnum vegabréfseftirlitið og fór beint í að ná í töskurnar mínar. Þar voru flestir farnir, og allar mjónufyrirsæturnar voru á bak og burt nema ein sem ég tók nú ekki mikið eftir þó hún væri við hliðina á mér. Hún var reyndar svona 200 grömm að þyngd og svona 3 metrar á hæð. Hún var dökkhærð með stutt hár. Hún var að beygja sig yfir töskukerruna sína og var greinilega að bíða eftir töskunum sínum. Okkur leiddist greinilega báðum. Það var þá sem hún sneri sér að mér og spurði „Ertu frá Íslandi“? Ég var nú ekkert í allt of góðu skapi og var nú ekki að fara á kjaftatörn við ókunnuga (ekki það að ég hafi gaman af því yfirleitt) en ég játti því með svona „Ummmhmmmm“. Hún var sem sagt ekkert SMÁvegis hrifin af landi og þjóð og sérstaklega vatninu (sennilega eina næringin hennar svo sem). Ég var í þungum þönkum enn þá að pirrast yfir passanum mínum þegar hún sagði „I love your hair colour, it's gorgeous“. Ég fór að hugsa til baka, ég vaknaði um morguninn, fór í sturtu, ég á ekki hárbursta, nennti ekki að blása hárið né slétta það svo það fór í hnút með spennum, ég var orðin öll úfin eftir flugferðina og hlaupin þar beint á eftir, í svitabaði. Ég ákvað því að trúa ekki konunni og ég horfði framan í hana og ætlaði að fara opna munninn þegar ég sagði „Thank you very much“. Það eina sem mér datt í hug að segja svo var „I think you are a great model“. Ég fattaði sem sagt sekúndubroti áður hver þetta var. Þetta var Erin O'Connor, eitt frægasta súpermódel Breta. Hún var búin að rétta úr sér (útskýrði gott útsýni hennar yfir kollinn á mér) og ég náði henni svona upp að hnjám. Ég hætti við að biðja hana um mynd af okkur saman, hefði verið pínlegt. Ég var svo hissa að ég vissi ekkert hvað ég átti að segja. Hvað segir maður? Átti ég að láta hana fá nafnspjaldið mitt? Símanúmerið hjá Auði klippikonu (verð að muna að segja henni þetta), bjóða henni gistingu á Íslandi? Ég hef aldrei verið góð í að tala við ókunnuga, hvað þá frægt fólk svo ég greip töskuna mína og sagði bara „Sjáumst vonandi aftur“. Svona eins og maður gerir við fræga fólkið sko.

Svo að þið hafið hugmynd um hver Erin O'Connor er, þá er hún talin það módel sem hvað mestu áhrif hefur haft á tískuheiminn og allir hönnuðir keppast við að láta hana ganga í fötunum sínum því hún er jú gangandi hrífuskaft. Hún er svo mikil sleggja að þú veist ekki hvort snýr fram og hvort snýr aftur á henni. Hún hefur líka leikið í þáttum og bíómyndum.

Erin O\'connor, Kate Moss, Elle McPherson, Naomi Campell og Nelson Mandela Ég setti hérna mynd af Erin O'Connor (með Kate Moss, Elle McPherson, Naomi Campell og Nelson Mandela) fyrir þá sem vita ekki hver hún er. Ok hefði verið meira kúl ef þetta hefði verið Kate Moss eða Naomi Campbell en mér fannst þetta samt voða gaman, sérstaklega þetta með hárið því hvað hefur hún séð mikið af hári í gegnum tíðina? Æi held henni hafi nú bara leiðst sko he he :)

Jæja annars fer að líða að heimsókn Smára, Önnu Stínu og co. Jibbíííí. Vona að veðurspáin haldi sér (ólíklegt) 24-27 stiga hiti og sól.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Strætóhræðsla

Finnst alltaf jafn fyndið að ég sé flughrædd þar sem ég er eflaust í mun meiri lífshættu í strætó en í flugvél. Ég tek yfirleitt strætó heim til Smára og Önnu Stínu á meðan ég er að vinna á Íslandi (leið 140 frá Hverfisgötu og inn í Fjörð). Nú hvá eflaust einhverjir við. SIGRÚN? Í STRÆTÓ? Ég hef nefnilega verið haldin strætófordómum síðan ég var svona 15 ára, viðurkenni það alveg. Hélt að strætó væri bara fyrir skrýtið fólk og aldraða. Þetta hafa reyndar bara verið íslenskir fordómar því ég er alsæl með strætókerfið í London. Maður þarf nánast aldrei að bíða eftir strætó og allir nota strætó (meira að segja fór Victoria Beckham einu sinni með Brooklyn í strætó til að sýna honum hvernig það væri. En að sjálfsögðu með 4 öryggisverði...sem fylltu nánast strætóinn hvort eð er vegna stærðar sinnar.... svo það endaði eiginlega á einkaferð). En sem sagt þá nota ég ekki strætó á Íslandi ef ég kemst hjá því. Mér finnst bara glatað að bíða eftir strætó. Það fyrsta sem ég hugsa alltaf þegar ég sé fólk í strætóskýli er A) Þetta er nú meiri bjáninn að vera ekki á bíl B) Ætli sé eitthvað að þessu fólki, svona í alvörunni? C) Loooooooooooseeeeeeeersssss. Svo keyri ég framhjá bara og alsæl með að vera á bíl. Nema á undanförnum vikum hef ég sennilega flokkast undir C hópinn. Málið er sko að mér finnst hugmyndin með almenningssamgöngum sniðug, minni mengun, færri bílar og allt það. Mér finnst líka gaman að sitja í strætó og þurfa ekki að hugsa neitt, geta hlustað á tónlist, horft út um gluggann (vera með sólgleraugu svo enginn þekki mann reyndar). Það finnst mér allt í lagi. En fólkið sem er með manni í strætó er oft svo skrýtið að mér verður pínu flökurt. Eins og maðurinn með brilliantínið sem strauk sér svona tuttugu sinnum um hárið á mínútu og þefaði af puttunum eða sleikti þá eftir hvert skipti. Ég meika bara ekki svona. Eða konan sem er með störu og starir í svona 15 mínútur á sömu manneskjuna.

Það er annars smá munur á strætóbílstjórum hér og í London. Þeir eru sennilega undir mun meira álagi þar en á litla Íslandi. Þeir allavega segja "fuck" og "fuck you" "you fucking shit" og "bollocks" og annað misfallegt í svona annari hverri beygju sem þeir taka. Þeir eru líka mjög duglegir að nota löngutöng. Vei þeim sem svínar fyrir þá eða bremsar snögglega. Þá er þeim að mæta. Þeir fara jafnvel út úr strætóunum og upp að næsta fólksbíl og lemja á glugga og bölva, hrækja og hóta að drepa mömmur þeirra. Til dæmis. Farþegar á Íslandi eru líka rólegri. Þeir hóta ekki að drepa strætómanninn ef hann bremsar snögglega. Það bölvar enginn ef strætóinn snarhemlar þannig að allt dótið manns hendist út á gólf og sólgleraugun lendi í hárinu á næstu manneskju fyrir framan mig (kom fyrir mig um daginn). Það gerist ansi oft í íslensku strætóunum að þeir hemla (ætli bremsurnar hreinlega séu bilaðar) þannig að fólk þarf að ríghalda sér, gamla fólkið hangir á bláþræði (í bókstaflegri merkingu) og er sennilega að biðja til guðs um að komast heilu og höldnu heim til sín. Það er oft með lokuð augun í strætóferðunum. Íslenskur strætóbílstjóri myndi sennilega geta keyrt í svona 15 mínútur í London áður en honum væri hótað lífláti. Breskir strætóbílstjórar keyra yfirleitt afskaplega varlega af stað og nauðhemla aldrei. ALDREI nema eitthvað mikið komi til. Ég var að lesa um daginn að íslenskir vagnstjórar hafi fengið verðlaun fyrir akstur í einhverri keppni. My ass. Jú eflaust eru til tillitsamir bílstjórar (veit að Maggi "afi" er það) en díses, ég er að spá í að vera bara strætóhrædd í staðinn fyrir að vera flughrædd.

Svo er voða næs að horfa á sjónvarp og svona í bresku strætóunum. Reyndar höfum við lent í hópslagsmálum þar sem einn endaði á því að kveikja í hinum og sátum einu sinni fyrir framan konu sem var að stunda viðskipti ef svo má að orði komast. Var að fara með viðskiptavininn heim. Það versta samt er að sitja nálægt hópi unglingsstúlkna, sérstaklega svartra. Þær eru kolóðar og hávaðinn í þeim er skerandi. Það er líka algengt að heyra svona 6-7 tungumál töluð í einum strætó. Það er ekkert fjör í íslenskum strætó, allir sitja og bíta í varirnar þó að strætóbílstjórar séu að murka úr farþegum lífið með brjálæðislegum glannaakstri og nauðhemlunum. Þarf að endurskoða flughræðsluna eitthvað.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ekki á eyðieyju

Ok ég lifði flugferðina af, svitnaði ekkert mikið í lófunum heldur. Ég er sem sagt ekki á eyðieyju einhvers staðar, er bara fyrir framan tölvuskjáinn hérna á Íslandi.

Annars finnst okkur Lost dálítið fyndnir þættir. Sko það fyrsta sem við bæði hugsuðum (og Jóhannes sagði), „Hey vá þetta flugfélag er greinilega svona Air bjútifúl“. Já það er aldeilis munur að hafa svona fallegt fólk í flugvélinni. Það eru allir með slétta húð, allir með beinar og hvítar tennur og flestir kæmust alveg á samning við umboðsskrifstofu fyrirsæta. Það er reyndar einn sem er ekkert svaka mikið bjútí en hann á greinilega að vera forsvarsmaður „hinna ófríðu“ og framleiðendur hafa hugsað með sér að það væri nóg að hafa einn rosa ljótan í þáttunum, hinir gætu þá verið svaka prittí.

Já en flugferðin mín fór ekki á neitt hættustig í gær. Ekki nema þegar maturinn kom því ég var orðin svo svöng og ég varð svo brjáluð þegar ég fékk ANDSKOTANS kjúklings-/svínaógeðið eina ferðina enn að ég hefði alveg getað hugsað mér að lemja flugstjórann eða flugfreyjuna (veit að það er samt ekki þeim að kenna sko). Ég er 5 sinnum búin að fá sama ógeðið að borða. Ég veit ekki enn þá alveg hvort þetta sé kjúklingur eða svínakjöt eða hvað því þetta er steikt upp úr raspi og lítur út eins og fremri hlutinn á appelsínugulum inniskó. Þetta lítur bara óeðlilega út, það er ekkert flóknara. Ég borðaði þetta að sjálfsögðu ekki þannig að það var bara vatn og brauð fyrir mig í kvöldmatinn. Ég tek nesti næst, ekki spurning (ætti svo sem að vera farin að læra á þetta).

Það er reyndar eitt sem hræðir mig svolítið í flugvélum og það er ef að ferðin er með blönduðum kynþáttum og ólíku fólk! Þá finnst mér ég vera stödd í sjónvarpsþætti eins og Lost eða í bíómynd því að í Hollywood þá er alltaf passað upp á að allt sé jafnt og dreifingin góð. Í Lost er til dæmis einn svertingi, einn asíubúi, einn af afrískum uppruna, margir hvítir, einn feitur, ein ófrísk, einn gamall, ein sem hefur dularfullan bakgrunn, einn sem er gæi, einn læknir og er góði gæinn, einn tónlistarmaður. Eiiiiiiiiiiiinum of góð blanda í einni flugvél. Þess vegna líður mér yfirleitt vel í Flugleiðavélum, það eru allir eins og ekkert líklegt að verði gerð bíómynd (og þar af leiðandi minni líkur á að flugvélin hrapi. Ekki gleyma því að ég er flughrædd, rökin eru ekki alveg 100% hjá mér he he).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It