Innantóm hollusta

Takk fyrir öll kommentin við síðustu færslu....þau glöddu mig mikið.

Ég fór að velta því fyrir mér um daginn hvort hægt væri að lögvernda heitið "hollusta"? Ég er nefnilega orðin endalaust þreytt á auglýsingum um hollustu. Hver einasti matsölustaður sem opnar í dag auglýsir að boðið sé upp á holla og góða rétti. Aldrei kemur fram í hverju hollustan felst og það gerir mig brjálaða. Fyrir fólk sem veit ekki betur er þetta beinlínis hættulegt heilsunni, fyrir okkur sem vitum í hverju hollusta felst svona almennt er þetta óþolandi pirrandi.

Það er líka misjafnt hvað fólk skilgreinir sem hollt. Fyrir þann sem borðar cocoa puffs í morgunmat, drekkur kók yfir daginn og borðar snakk og skyndibita, er rjómaostur "hollur". Rómaostur er samt ekki rass í bala hollur því hann inniheldur mikið af mettaðri fitu. Hann er samt ekki djúpsteiktur Camembert sem þessi tiltekni einstaklingur myndi fá sér sem spari (mjög óhollt). Aftur er rjómaosturinn orðinn "hollur". Hollusta er nefnilega alveg gríðarlega afstæð ef hún er ekki skilgreind og niðurnjörvuð. Þess vegna er óþolandi þegar frjálslega er farið með orðið hollusta og merkingu þess. Þetta er ástæðan fyrir því að margir halda að gulrótarkaka á kaffihúsum sé "hollari" heldur en t.d. einhver önnur kaka því hún inniheldur gulrætur. Venjuleg gulrótarkaka inniheldur líka smjör, olíu, flórsykur, rjómaost, sykur og hvítt hveiti. Sem dæmi. Það er fátt hollt við gulrótarköku því þeim fáu heilsueflandi eiginleikum sem hún hefur (t.d. trefjar og A vítamín) er nánast útrýmt af óhollustunni. Í stríði á milli gulrótar og allrar óhollustunnar, myndi gulrótin sem sé ekki standa uppi sem sigurvegari. Sama má segja um þessa orkuklatta, hafrakökur og hvað þetta allt heitir sem boðið er upp á á kaffihúsum. Púðursykur er ALDREI hollur, aldrei, aldrei. Skoðið innihaldið vel næst. Fremst í upptalningunni er yfirleitt smjör, því næst er oft púðursykur, hveiti o.s.frv.

Vandamálið er líka að fólk veit ekki betur (hversu oft hef ég verið að tala um þetta) og það þarf að gæta þess að leiða það ekki í villu. Alveg eins og rafvirki má ekki auglýsa fagleg vinnubrögð (og svindla svo) má (að mínu mati) ekki auglýsa hollan og góðan mat nema ef hægt er að tryggja að maturinn SÉ hollur. Sem dæmi:

  • Kjúklingur er ekki sjálfkrafa hollur þó hann sé ekki rautt kjöt
  • Skyrkökur eru ekki sjálfkrafa hollar þó í þeim sé skyr
  • Gulrótarkökur eru ekki sjálfkrafa hollar þó í þeim séu gulrætur
  • Ostakökur eru ekki sjálfkrafa hollar þó í þeim sé ostur
  • JarðarberjaBoozt (skyrþeytingur) er ekki sjálfkrafa hollur þó í honum séu jarðarber
  • Veitingastaður verður ekki sjálfkrafa að „hollum og góðum“ stað þó hann bjóði upp á eina köku í "hollari kantinum"
  • Það verður ekki neitt sjálfkrafa hollt þó að það innihaldi púðursykur eða haframjöl.

Ég sá auglýsingu frá nýjum veitingastað sem var að opna og hann auglýsir "hollan og góðan mat". Ég kíkti á matseðilinn. Það var hvergi minnst á í hverju hollustan fælist. Spurningar sem vöknuðu strax hjá mér voru t.d.:

  • Er notað spelti í bakstri?
  • Er maturinn óvenju trefjaríkur?
  • Er notað jógúrt í staðinn fyrir majones í sósur?
  • Er notuð kókosolía við steikingu?
  • Er maturinn lítið brasaður og ekki djúpsteiktur?
  • Er ekki notaður unninn matur (t.d. álegg í samlokur, kex í kökubotna)?
  • Er enginn hvítur sykur í kökunum?
  • Eru engin E-efni notuð?
  • Er ekkert MSG notað?
  • Er rjómi ekki notaður í súpur?
  • og hundrað aðrar spurningar

Þið sjáið hvert ég er að fara. Það sýður í mér blóðið þegar staðir auglýsa "hollan" mat en segja svo ekki í hverju hollustan felst. Þetta á að standa skýrum stöfum. Mér finnst að það eigi að vera svona hollustulögregla (nei ég hef ekki áhuga á starfinu he he)...frá heilbrigðisyfirvöldum sem færi á alla þessa staði og gæfi þeim hollustueinkunn. Þeir mættu svo einungis auglýsa "hollan mat í flokki D" eða álíka. Það er algjörlega ótækt að fólk fari í góðri trú (það nenna fáir að pæla alvarlega í þessu svo það þarf að auka á leti þeirra sem ekki nenna...sem er allt í lagi) og hlammi í sig vefju með kjúklingi. Í einni svona vefju getur t.d. verið þetta:

  • Vefja úr hvítu hveiti og sykri og mettaðri fitu + transfitusýrum (með alls kyns E-efnum til að gera hana mjúka
  • Kjúklingur steiktur upp úr ólífuolíu (sem er ekki góð til steikingar og umbreytist í óholla fitu við að hitna)
  • Sósa úr 36% sýrðum rjóma og/eða majonesi (mettuð fita og alls kyns E-efni í majonesi)
  • Ostur 36% feitur (mettuð fita)
  • Krydd með E-efnum
  • O.fl....
Og þetta hefði verið hollustuútgáfan af vefju (mínus unna kjötáleggið allt saman).

Hér er eitt heimaverkefni: Næst þegar einhver staður auglýsir hollan og góðan mat, hringið þá í viðkomandi stað og spyrjið þó ekki sé nema 1-2 spurninganna sem ég setti fram hérna að ofan. Ég get lofað ykkur að það verður fátt um svör....eða "við reynum eftir fremsta megni bla bla..." Það er ekki nóg (eða það er skoðun mín).

Mér finnst að setja ætti einhver "hollustulög"....veit að þetta er ekki helsta vandamálið sem stendur fyrir þjóðinni í dag..en þetta fer bara svooooo í taugarnar á mér.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Bogga
08. jan. 2010

þarna er ég sko allveg sammála ég þoli ekki þetta drasl í búðunum sem er merkt HOLLT.....og er svo bara hvítur sykur og annað ógeð í:(

Takk fyrir frábæra síðu og skemmtilegt blogg:) Bogga í Keflavík

Gunnhildur
08. jan. 2010

Mikið er ég sammála þessu. Það er sífellt verið að blekkja neytendann með orðinu hollt eða heilsu. T.d. heilsukonfekt sem er selt í öllum búðum. Þetta eru t.d. súkkulaðihúðaðar döðlur. Það eina sem er hollt í þessu eru döðlurnar. Súkkulaðið er eins og þú veist náttúrulega stútfullt af mettaðri fitu og annarri óhollustu. Ég tel að vandamálið sé ónæg fræðsla.

Á síðasta ári tók ég mig til og breytti mataræðinu algjörlega. Það var mjög margt sem ég hafði ekki hugmynd um. T.d. að 100 gr af eggjahvítu inniheldur 45 hitaeiningar á meðan 100 gr af eggjarauðu inniheldur 360 hitaeiningar og hækkar slæma kólesterólið gríðarlega...

Íslendingar eru latir og nenna ekki að læra næringarfræði. Þess vegna markaðssetja veitingastaðir sig sem holla og það gerir enginn athugasemd við það þó að holli rétturinn sé með afbrigðum óhollur...

Lisa Hjalt
09. jan. 2010

Líst vel á hollustulög og er alveg viss um að forsetinn þarf ekkert að senda slíkt í þjóðaratkvæðagreiðslu ;-)

sigga
16. jan. 2010

þetta er góður pistill hjá þér og ég er mikið sammála þér um að það vanti meiri fræðslu um hollustu.

Nú tel ég mig nokkuð vel upplýsta um hollustu matvæla, en ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki þetta með ólífuolíuna, hélt meira að segja að hún væri ein fárra sem umbreytast ekki í transfitusýru við steikingu. Getur þú kannski upplýst mig um hvaða olíu er best að nota?

Sigrún
17. jan. 2010

Ég nota kókosolíu í allt sem ég þarf að hita enda hefur hún 'high smoking point'. Olíur með hátt hlutfall af nauðsynlegum fitusýrum (hörfræolía, graskersfræjar og valhnetuolíur) ætti t.d. aldrei að nota við steikingu (en eru mjög góðar í allt sem er kalt t.d. á salöt). Sumir vilja meina að ófíulía, möndluolía, sesamolía og heslihnetuolía séu ok við vægan hita en ég kýs að nota kókosolíu og vera örugg. Hún er góð í bakstur, við steikingu og eiginlega bara í allt. Hún er það fín að hana má nota sem húðkrem, smyrsl á sár o.fl. (hún á að vera sótthreinsandi en ég veit ekki hvort að vísindalegar rannsóknir styðji þær upplýsingar).

Vona að þetta hafi hjálpað

sigga
18. jan. 2010

takk fyrir upplýsingarnar, ég ætla að prófa kókosolíuna, gefur örugglega gott bragð af matnum líka.

Lilja
19. jan. 2010

En hvaða veitingastöðum geturu mælt með sem eru hollir í raun og veru?

CafeSigrun.com
20. jan. 2010

Lilja: Hér á höfuðborgarsvæðinu myndi ég helst mæla með Grænum kosti og Á næstu grösum. Hef heyrt að Gló sé góður líka en hef ekki sannreynt. Það eru eflaust fleiri góðir staðir líka en ég treysti þessum tveimur og finnst alltaf gott að borða þar (og nei ég þekki ekki til né fæ ég þóknun fyrir að mæla með þeim :)).

Lilja
20. jan. 2010

Takk fyrir :)

Lena
21. sep. 2011

Hvar kaupi ég góða kókosolíu. Ég er í þeim sporum núna að ég þaf að breyta mataræði mínu og líferni. Ég er ekki of feit heldur veiktist ég. Ég er að lesa síðuna þína fram og tilbaka. Takk fyrir frábæra síðu annars :-)

sigrun
21. sep. 2011

Sæl Lena

Þú getur keypt góða kókosolíu í öllum heilsubúðum. Passaðu bara að hún sé kaldpressuð (cold pressed) og lífrænt framleidd.

Einnig geturðu notað repjuolíu (rapeseed oil) í eldamennsku, hún er mjög góð.