Lífræn innkaup í Kreppunni

Það er beinlínis hlægilegt að ætla að kaupa alla ávexti og allt grænmeti lífrænt ræktað í dag. Ástæðan er fyrst og fremst framboð og verðlag. Ég hef oft ætlað að kaupa ávexti í heilsubúðum en þegar á reynir er það sem boðið er upp á oftar en ekki ónýtt og beinlínis ekki hægt að nota í matargerð nema kannski ef maður er að mauka eitthvað. Það er svo auðvitað fok, fokdýrt (þannig að maður veit ekki hvort að maður á að hlægja eða gráta) og hreinlega ekki þess virði. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að halda því fram að ég lifi einungis á lífrænt ræktuðu/framleiddu fæði eins og ástandið er í þjóðfélaginu í dag því ég væri beinlínis að ljúga. Ég væri að gera lítið úr þeim sem vilja auka við hollustuna en halda að það sé ekki hægt ef maður hefur ekki efni á að vera heilsupinni drekkandi lífrænt ræktað spínat í öll mál (lífrænt ræktað spínat er jú næstum dýrara en gull í kílóaverði). Það er tvennt ólíkt t.d. að borða sælgæti eða borða epli sem er ekki lífrænt ræktað. Eplið er skömminni skárra auðvitað. Kornvörur og svona það sem við borðum mikið af reynum við að kaupa lífrænt en ávextirnir og grænmetið sem er svo miklu, miklu betra fyrir mann að sé án skordýraeiturs o.s.frv. er því miður ekki fáanlegt svo vel sé. Þegar við flytjum aftur til London (á vormánuðum) verður þetta eitt af því fyrsta sem fer ofan í innkaupakörfuna…dásamlegir lífrænt ræktaðir ávextir og dásamlegt grænmeti. Við verðum einnig dugleg að heimsækja bændamarkaðinn sem er í nágrenni við okkur þarna úti.

Hér er listi (af vef WebMD) yfir það grænmeti og þá ávexti sem maður ætti að reyna að kaupa lífrænt ræktað (safna meiru af eitri en aðrir ávextir og annað grænmeti) og svo er listi hérna fyrir neðan af því sem ekki skiptir eins miklu máli að sé lífrænt ræktað (þó það sé auðvitað alltaf kostur). Þessar upplýsingar eru birtar án ábyrgðar og það er örugglega eitthvað sem vantar inn í eða ætti ekki að vera eins og er alltaf í svona upptalningum.

Það sem maður ætti að reyna að kaupa lífrænt ræktað:

  • Ferskjur
  • Epli
  • Paprikur (hafið þið ekki fundið plastbragðið af paprikunum sem seldar eru í lágvöruverðsverslunum hér?)
  • Sellerí
  • Nektarínur
  • Jarðarber
  • Kirsuber
  • Perur
  • Vínber
  • Spínat
  • Blaðsalat (lettuce)
  • Kartöflur
Það sem  skiptir ekki eins miklu máli að sé lífrænt ræktað (en er ekki verra auðvitað):
  • Papaya
  • Spergilkál (brokkolí)
  • Grænkál
  • Bananar
  • Kiwi
  • Grænar, sætar baunir (sweet peas, frosnar)
  • Aspars
  • Mango
  • Ananas
  • Maískorn (frosið)
  • Avocado
  • Laukur
Einnig er bent á hvernig maður á að fara að því að spara í innkaupum á lífrænt framleiddri/ræktaðri matvöru en sá listi á ekki við hér á landi þar sem nánast ekkert af því sem talið er upp er í boði. Einnig er talað um að maður eigi (fyrir utan að kaupa lífrænt ræktaða/framleidda matvöru) að vera umhverfisvænn á annan hátt líka þ.e. t.d. að kaupa matvöru sem er ræktuð í nágrenninu, beint af býli er líka sniðug leið og ef maður tekur með sér umbúðir sjálfur (í stað þess að fá poka hjá seljanda) er maður líka að spara fyrir umhverfið. Það er líka hið besta mál að rækta allt sitt sjálfur auðvitað. Lesið fleiri hugmyndir og ráð á vef WebMD.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Erna Magnúsdóttir
30. des. 2009

Já... svo ber náttúrulega líka að hafa í huga að það að matur sé ekki vottaður sem lífrænt ræktaðir þarf ekki að þýða að hann sé það ekki. Sumir smábændur hafa ekki efni á vottuninni. Þess vegna er gott að kaupa lókal og þekka hvaðan maturinn kemur.... Ísland er til dæmis eina Evrópulandið þar sem hægt er að fá "sustainable" lókal banana!

CafeSigrun.com
30. des. 2009

Góður punktur Erna, takk fyrir innleggið :)

hrundski
30. des. 2009

Muna að skera alltaf þetta græna úr ólífrænum tómat ( þar sem stilkurinn fer inní tómatinn) það dregur í sig skordýraeitrið - eða það myndar poll og lekur svo oní stilkinn og síast svo inn :p

Sigrún
30. des. 2009

Einmitt Hrund...ég las líka einhvers staðar að maður ætti einungis að borða rótargrænmeti lífrænt ræktað því það hreinlega sogi í sig öll eiturefni úr jarðveginum OG blöðin eru sprautuð líka....sel það ekki dýrara en ég keypti það þó :)

Rósa
03. jan. 2010

OJJ. það sem fólk er að gera umhverfi og lífverum bara til að létta sjálfum sér lífið :O

Rósa
03. jan. 2010

það er reyndar ekki hægt að kaupa lífrænar karföflur og jarðaber hér er það ? nema kanski þessi íslensku Flúða. Hvar fást svo ísl. Bananarnir ?

Stína
08. jan. 2010

Kartöflur frá ,,Í skjóli Skyggnis" fást yfir uppskerutímann og ef maður er heppinn býr maður innan færis við grænmeti í áskrift-það eru lífrænar vörur. En það getur verið snúið að nálgast lífrænt ef maður býr úti á landi. Takk fyrir góðan vef, hlakka til að fylgjast með á nýju ári.

Melkorka
12. jan. 2010

Frábært að fá þennan lista. Takk fyrir Sigrún!