Jólavaka

Ég var andvaka í nótt…ekki vegna afkvæmisins (skrípið sefur bara á sínu græna) heldur vegna sársauka í kjálkanum. Það er magnað hvað þarf lítið til að maður gleymi sér. Hnéð minnir rækilega á sig hvern dag (því ég stíg í það) en kjálkinn er annað mál. Hann nefnilega er stresssafnari. Hann safnar stressi á meðan ég tek ekki eftir því. Það er búið að vera svakalega mikið að gera í vinnunni (já já ég veit…ég er í fæðingarorlofi..sem ég reyndar kalla "fæðingar-vinnutörn"). Ég kvarta þó ekki yfir því að hafa nóg að gera því annars myndi ég tapa vitinu. Ég VERÐ að hafa næsta verkefni tilbúið um leið og eitt er búið. Annars þrífst ég ekki. Ég er heppin því ég hef CafeSigrun vefinn og á honum er alltaf langur To Do listi (framkvæmdarlisti). Ég hleyp í hann þegar ég er ekki að vinna í venjulegu vinnunni minni. Ég er heppin líka af því ég get unnið heima á meðan afkvæmið sefur. Jóhannes er svo sem alveg eins og ég og jafnvel verri.

Við höfum verið það upptekin í desember að við erum ekki búin að skreyta. Við hreinlega steingleymdum því fram að þessu. Það var ekki fyrr en í morgun (afkvæmið var í 3ja mánaða skoðun) og mér varð litið upp í íbúðina okkar þegar við vorum að leggja bílnum. Fyrir neðan okkur er par og þar er eins og Crayola hafi opnað ljósabúð. Fyrir ofan  (þar sem við búum) er eins og einhver hafi límt svartar krítartöflur í gluggana. Þetta hefur ekkert með “nú eigum við barn og höfum bara ekki tíma“ að gera (léleg afsökun þó freistandi sé að nota hana). Við hefðum nægan tíma ef við værum ekki að vinna svona mikið…í fyrra var ekkert barn og við höfðum jafn mikinn/lítinn tíma. Við erum bara svona. En allavega, planið er sem sé að skreyta um helgina svo að við vitum allavega að það séu að koma jól. Það að þau séu í næstu viku er bara ekki að registera í hausnum á mér. Við eigum reyndar ekki mikið jólaskraut. Við eigum sæta jólakarla sem tengdó saumar, jólatrésteppi í stíl (sem hefur ekki verið notað því við höfum aldrei átt jólatré..nema spýtuna frá Zanzibar), aðventuljós (sem hefði átt að fara upp fyrir tveimur vikum síðan) og nokkur “önnur skraut“ sem eru ekki í stíl við eitt né neitt. Mér er ekki vel við rauða og græna liti svona almennt í híbýlum (en nokkrir hlutir sleppa því þeir eru fallega rauðir á litinn eða hluturinn sjálfur fallegur). Mér líkar hins vegar vel við falleg, einlit ljós, helst þau sem ég þarf ekki að hengja upp hvert ár (og hanga því uppi allt árið). Ljós eru uppáhaldsskrautið mitt, vetur, sumar, vor og haust.

En já, þetta var smá útúrdúr. Kjálkinn er að plaga mig og var sérlega slæmur í nótt enda sat ég lengi við tölvuna í gær og var að skila af mér verkefni til London. Þegar kjálkinn lætur vita af sér leiðir verkurinn um allt höfuðið, inn í eyru og það er alveg sama hvernig maður liggur, það er allt vont. Ég legg hatur á verkjalyf svo ég reyni að bíta á he he jaxlinn sem gerir reyndar bara illt verra. Það er asnalegt að manni sé svona illt en samt lítur maður út fyrir að vera með fullkomlega heilbrigða kjálka. Það er ekkert ör, enginn marblettur, engar ójöfnur, ekki neitt. Eina vísbendingin er á röntgenmyndum en þar sést slitgigt báðum megin (eftir slys fyrir mörgum árum síðan sem ég hef oft minnst á...hestur...spark...kjálkabrot...meðferð við því...kjálkalæknar...sprautur...meiri meðferðir...allt of löng saga).

Að vera með slitgigt í kjálka og vera stressaður er ekki góð blanda því það fyrsta sem maður gerir í stressi er að bíta saman kjálkunum (eða ég geri það)…sit svoleiðis í nokkra tíma að vinna og gleymi mér. Svo kemur að því að ég ætla að fá mér að borða en get varla opnað munninn. Stundum er meira að segja sárt að borða hrískökur því eftir að vera búin að bíta nokkrum sinnum er sársaukinn of mikill. Ég þarf að borða epli í nokkrum skömmtum og ég er löngu hætt að poppa jafn mikið af poppkorni ef við fáum okkur slíkt, ég gefst upp eftir hálfa skál. Stundum get ég ekki borðað mikið og fólk heldur að mér þyki maturinn vondur eða sé svona matgrönn og spyr hvort ég vilji ekki fá mér meira…það er svona eins og að spyrja slasaðan maraþonhlaupara hvort hann vilji ekki hlaupa aðeins meira (heyrðu vinur ég veit að þú þarft að skríða en þú tekur nú 100 metrana í viðbót er það ekki…?).

Þetta gæti svo sem verið verra….vil ekki vera að kvarta of mikið en ef þið fáið mig í mat í kringum hátíðarnar, og ég borða mjög hægt eða get ekki klárað matinn þá vitið þið hvers vegna. Það eina góða við að liggja svona andvaka er að muna eftir jólaskrautinu sem á eftir að fara upp.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

SS
18. des. 2009

Ekki gott að heyra að þú ert með verki.

Skil vel hatur á verkjalyfjum.

Hélt nú að JOE væri alinn þannig upp að jólin koma hvort sem er. Hann er vanur því að jólastress var bannað. Ekki málið hvað er búið að gera og hvað ekki. Fá gott að borða og láta sér líða vel með sínum er aðalatriðið. Frábært að hafa einlitar jólaseríur sem bara eru settar í samband þegar fólk vill (ekki taka niður á milli jóla)

Á fleiri jólakalla ef þið viljið

Jóhannes
18. des. 2009

Jú, það er rétt, jólin koma hvað sem tautar og raular enda erum við ekkert að stressa okkur á þeim, það er þetta með vinnur og aukavinnur sem hefur meiri áhrif, sérstaklega þegar mörg stór verkefni koma öll á sama tíma ;)

Sólveig S. Finnsdóttir
18. des. 2009

þið getið fengið jólaskraut hæér gamaly og notað svo ef vantar seriu er hun lika til jæolin koma alveg þó ekki sé allt tekið í gegn.mamma

.