Ugandíski námsmaðurinn útskrifast

Þá er komið að því….

Ugandíski námsmaðurinn (sem varð landsfrægur á svipstundu hérna fyrir nokkrum mánuðum, þegar þess bloggfærsla fór eins og eldur um sinu um samfélagið og endaði meira að segja í munni Bo Halldórs í Íslandi í dag og í viðtali við söngkonu í Mannlífið eða álíka....) fer senn að útskrifast úr snyrtiskólanum í Entebbe, Uganda. Okkur var boðið að vera við útskriftina sem verður haldin 4ða desember en komumst því miður ekki he he. Fátt er svo með öllu illt því í minn stað fer Elísabet vinkona okkar sem er stödd í Uganda þessa dagana. Hún ætlar að vera viðstödd og meira að segja að taka myndir, brilliant. Ég er búin að segja námsmanninum að síðasta greiðslan hafi verið greiðslan sem hann fékk fyrir útskriftarfötunum sínum. Eða ég held hann hafi verið að meina það (enskan hans er ekki allt of sleip). Allavega…. síðan í febrúar 2008 höfum við styrkt þennan unga mann til náms og hefur það verið afar gefandi. Oft á köflum sprenghlægilegt, eins og þegar við erum að fá misgáfulegan tölvupóst með bænasöng okkur til heiðurs. Okkur þykir vænt um þessa pósta þó við séum trúlaus með öllu því þeir bera einungis góðan hug. Mamma námsmannsins er víst dugleg að liggja á bæn fyrir okkur. Heimilisfaðirinn lést nefnilega í stríðinu og nú verður námsmaðurinn fyrirvinna heimilisins sem er stórt. Þegar ég álpaðist inn til þeirra hérna um árið var einmitt öll stórfjölskyldan saman komin. Mér skilst að námsmaðurinn sé búinn að fá starf þ.e. sem hárgreiðslu- og snyrtifræðingur en á eftir að fá það á hreint. Einnig lágum við í hláturskasti í dágóðan tíma um daginn þegar námsmaðurinn sendi okkur mynd af sér um daginn, að greiða ungri konu. Hann var uppstrílaður í bleikum bol, í hvítum jakka, með greiðu í hönd og hárgreiðslumódelið (kona) var á svipinn eins og hann væri að fara að skera hana á háls (þannig eru þeir sem eru óvanir að láta taka af sér myndir mjög oft á svipinn). Hann sendi okkur þessa mynd til að sýna okkur hversu vel á veg hann væri kominn í lífinu og okkur þótti bara vænt um það. Hann er afar, afar montinn af stöðu sinni og segir okkur reglulega hvað vinir hans öfundi hann (ég vildi að ég gæti hjálpað þeim öllum). Það er stórt stökk að vera atvinnulaus og án menntunar, án vonar í raun þar sem innkoman er engin (og ég meina engin, ekki einu sinni 5 krónur.....þarna er heldur engin Fjölskylduhjálp í boði, eða styrkir, eða atvinnuleysisbætur, eða námslán..a.m.k. þegar maður á ekki neitt til að byrja með). Við skulum ekki gleyma því að hann seldi geiturnar sínar til að eiga fyrir hluta af skólagjöldunum þarna í byrjun. Námsmaðurinn á ekki skilríki, ekki einu sinni vegabréf og er í raun ekki til á pappírum. Ég vona að það breytist þegar hann fær vinnu.

Þetta ævintýri hefur svo sem kostað skildinginn en við höfum ekki séð eftir einni krónu. Þetta var ekki peningur sem við töpuðum á braski, eða í hlutabréfum eða vegna hruns. Þetta var einfaldlega aukapeningur sem við áttum og okkur munaði ekki baun í bala um hann, þannig séð.

Ég hlakka hrikalega til að fá myndir og fréttir frá útskriftinni og ég lofa að láta ykkur vita hvernig gengur. Í útskriftargjöf frá okkur fær námsmaðurinn farsíma (gamlan sem við eigum hérna heima) og nokkrar krónur í vasann svona upp í lífið sem framundan er.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lena
04. des. 2009

Vá- thetta er svo fallegt af ykkur. What goes around comes around.

Lisa Hjalt
05. des. 2009

Hann var aldeilis gæfusamur að hafa kynnst ykkur.

Ég hlakka núna mikið til að fá myndir þegar þið farið næst til Afríku og í klippingu hjá stráksa! ;-)

Sólveig S. Finnsdóttir
05. des. 2009

hæ takk fyrir siðast, é hlyt að fá fria klippingu , égv hlakka til að sjá utskriftarmyndirnar sem vubkona þin tók. kv. m.