Heilsu-Konfekt?

Eflaust muna margir lesendur eftir Óhollustusamkeppni CafeSigrun. Ég var þar með nokkrar reglur um þær vörur sem ég tók fyrir. Ein af þeim var að þær máttu t.d. ekki vera íslenskar því ég nennti ekki að fá yfir mig alls kyns hótanir eða grenj-bréf frá innlendum aðilum. Ísland er nefnilega of lítið til að maður geti verið að skammast yfir hlutum sem mann virkilega langar til að rífast yfir, nema maður ætli að vera einhver gangandi píslarvottur...sem ég nenni ekki. Ég hef þess vegna látið það eiga sig þegar ég sé hluti sem mér finnst ekki að eigi að selja sem vörur sem tengjast betri lífsstíl eða hollustu því það er ekki mitt að setjast á háan stall og predika. Ég hef þess vegna alveg látið vera að blogga um t.d. næringarduft frá innlendum aðilum sem er auglýst sem megrunarfæði. Hver gerir slíkt nú til dags? Hver fer í megrun? Þetta minnir mig á eitthvað frá 1980 og eitthvað.....svona TAB eitthvað. Það er ekkert sem maður borðar sem er megrandi (nema kannski ísmolar) þó margt geti verið minna fitandi en annað.  Fyrir utan það að fólk sem veit ekki betur, kaupir sér megrunarduft og heldur að það grennist. Það mun ekki gerast. Enn og aftur...hreyfing og hollt mataræði er það sem dugar og megrun á að vera bannorð.

En já..þetta er dæmi um það sem ég ætlaði ekki að blogga um he he og hér er annað: Í verslun einni rakst ég á hillu sem seldi Heilsu konfekt. Það vakti að sjálfsögðu forvitni mína. Utan á pakkanum var yfirskrift eins og Þurrkaðir ávextir, hnetur og möndlur. Hnetur eru hollar og ríkar af ómettuðum fitusýrum (satt) og Í þurrkuðum ávöxtum er mikið af trefjum sem eru mikilvægar í mataræði okkar (líka satt...en það voru bara engir þurrkaðir ávextir í pokanum).

Ég var á hlaupum í gegnum búðina og náði ekki að lesa næringarinnihaldið ítarlega en innihaldslýsingin var um það bil svona: Ristaðar heslihnetur, sykur, kakósmjör, nýmjólkurduft, kókosmassi, bindiefni (E-322).

Undirskriftin undir þessu öllu saman var svo:  Hollar vörur úr náttúrunni.

Sko... Nú er ég fyrsta manneskjan til að samþykkja að hnetur séu hollar enda borða ég ótæpilega af þeim (prótein, vítamín, ómettaðar fitusýrur o.fl.). Kakó er líka hollt í temmilegu magni (andoxunarefni, járn o.fl.).  Dökkt súkkulaði með hrásykri er líka gott svona spari. Hvítur sykur er það hins vegar ekki, ekki heldur E efni og ekki heldur kókosmassi (sem, ef hann inniheldur ekki kaldpressaða eða óherta kókosolíu, er nánast einungis mettuð fita og jafnvel transfita).

Fólk grípur með sér svona poka og dælir innihaldinu í sig því það er búið að setja fullt af hollustuslagorðum á pakkann (sem næstum því virkuðu á mig).

Það sem væri töluvert betra að gera, er að fá sér lúku af hreinum heslihnetum (eða döðlum, aprikósum, rúsínum o.fl.) og saxa lífrænt framleitt, dökkt súkkulaði með hrásykri og maula með. Maður getur meira að segja gert svona konfekt sjálfur heima með hollu súkkulaði. Mér leiðist þegar neytendur eru nánast plataðir. Hafið í huga að ég er ekki að selja neitt í staðinn svo ég græði ekkert á því að þið borðið ekki Heilsu konfekt. Ég hef nákvæmlega engra hagsmuna að gæta með því að vera að röfla. Ég er bara pirruð yfir því þegar venjulegt fólk, í leit að lausnum og hollara líferni, er platað. Lausnirnar eru aldrei svona einfaldar.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigrún Þöll
04. sep. 2009

hehe jú lausnin er einföld :)

Borða allt í hófi og hreyfa sig hihhihi :)

... en ég veit hvað þú meinar samt hehe ...

Lena
04. sep. 2009

allllllveg sammála thér!!! THetta er hrikalegt ad neytendur séu blekktir svona!! Fólk kaupir thetta i godri tru um ad thad se ad gera goda hluti!! Ussss.....

Erna Bryn.
04. sep. 2009

Frábært hjá þér að koma með þessa sögu: og hrista upp í okkur að lesa innihaldslýsingar á því sem við kaupum.Takk ,takk:o))

Lisa Hjalt
06. sep. 2009

Það þarf konu eins og þig til að útrýma fáfræðinni; hvað gerðum við án þín ;-) Ég trúi því varla að ég hafi einu sinni borðað jógúrthúðaðar hnetur og rúsínur í þeirri trú að þetta væri hollusta!

Alma
06. sep. 2009

Svoooo sammála.

Lilja Ben
09. nóv. 2009

Sæl.

Þetta er að sjálfsögðu satt að mörgu leiti.

Ég sjálf kaupi þessa vöru reglulega og kemur þetta í staðinn fyrir hlaup og annan óþverra.

Og finn ég sjálf gríðarlegan mun á sjálfri mér eftir að ég byrjaði að neyta þetta í stað annarra góðgæta.

Sjálf er ég búin að vera í miklu aðhaldi og klárlega er þetta fremst í skápnum hjá mér á Laugardögum :)

Ég er mjög sátt með þessa vöru !

Kveðja,

Lilja