Komin til Íslands

Jæja þá erum við komin aftur á Klakann. London var dásemd eins og alltaf og gaman að eyða nokkrum dögum "heima". Veðrið lék við okkur, 88 þúsund manna U2 tónleikarnir voru frábærir og við borðuðum ótæpilega af lífrænum ávöxtum sem voru svo góðir að í sumum tilfellum var ég viss um að þeir hefðu verið sprautaðir með sykri, svo sætir og góðir voru þeir. Já og þeir voru á góðu verði líka.  Svo prófuðum við eitthvað nýtt eins og að borða á pöbb Gordon Ramseys í Maida Vale. Pöbbinn var mjög fallegur og maturinn fínn. Ég reyndar get alveg grenjað yfir því að borga tæp 9 pund (um 2000 krónur í dag) fyrir lítinn disk af salati sem maður getur vel gert sjálfur en maður verður líka að vera opinn fyrir einhverju nýju ekki satt?

Já á meðan ég man....ég er búin að fylla 5000 "vina" kvótann á Facebook síðunni en það má enn þá gerast "fan" á CafeSigrun (ótakmarkaður fjöldi sem getur orðið "fans" undir Pages). Þar birti ég sömu uppskriftir og á hinum staðnum svo þið missið ekki af neinu. Ef þið ætluðuð að gerast "vinur" en gátuð ekki, getið þið bara orðið "fan" í staðinn.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It