Hollt í hádeginu...eða hvað?

yfirlit yfir óholl salöt

Ég rakst á þessa umfjöllun í Daily Mail í morgun. Umræðuefnið er sem sé salöt og hversu „holl" sum þeirra eru. Það er trú flestra sem kaupa sér tilbúið salat að þau séu holl. Það er vegna þess að enginn segir þeim annað og fólk er gjarnt á að lesa ekki sjálft innihaldslýsingar (eitthvað sem á að mínu mati að vera kennt í grunnskólum). Flestir tengja Big Mac hamborgara á McDonalds við óhollustu (ætla ég rétt að vona) en fæstir tengja couscous salat eða pastasalat við óhollustu. Reyndin er sem sagt sú að tilbúin salöt í mörgum af helstu verslunum Bretlands innihalda meira af fitu (bæði heildarfitu og mettðri fitu), salti, sykri og hitaeiningum en hamborgarinn. Við erum að sjálfsögðu ekki að tala um ferskt grænmeti og salatblöð eingöngu með léttri jógúrtsósu og kannski hnetum (svona eins og þið finnið t.d. á vefnum mínum). Í f lestum af þessum salötum var majones, rjómi, feitur ostur og ýmislegt fleira.

Svona sem dæmi.

Í einum Big Mac hamborgara eru 24 gr af fitu (þar af 10 gr mettuð fita), 490 hitaeiningar og 2.1 gr salt. Þó skal tekið fram að máltíðin vegur 216 grömm.

Í rækjusalati frá Smedleys (sem er 300 grömm) eru 66.3 gr af fitu (þar af 5.4 gr mettuð fita), 855 hitaeiningar og 2.0 gr af salti (sjokkerandi!!!).

Annað dæmi er Pasta og tómatasalat með kjúklingi frá Marks & Spencer (hljómar nokkuð saklaust).  Salatið er 380 grömm en í því eru 46 gr af fitu (þar af 4.9 gr mettuð fita), 760 hitaeiningar og 2.4 gr af salti.

Ég skil ekki hvernig er hægt að útbúa pasta og tómatsalat með kjúklingi sem inniheldur 46 gr af fitu og 760 hitaeiningar!!!!

Salöt sem seld eru á samlokustöðum eru litlu skárri og það á við bæði Bretland og Ísland en báðar þjóðir hafa yndi af majonesi. Ég segi enn og aftur....gefum okkur tíma til að útbúa nesti heima hjá okkur til að taka með. Ef fólk hefur tíma til að horfa á sjónvarpið, hefur það tíma til að útbúa hollt og gott nesti. Með skipulögðum innkaupum er lítið mál að plana vikuna svolítið fram í tímann og ef maður gerir góðan skammt af kvöldmat, er auðvelt að taka afgang með í nestið daginn eftir. Maður sparar hellings pening og auðvitað óþarfa kíló!

Eitt að lokum...ég er EKKI að mæla með að fólk kaupi sér Big Mac í staðinn fyrir óholl salöt...bara svo það sé hafið yfir allan vafa...best er að sneiða hjá báðu og velja þriðja kostinn....þann holla.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It