Lánleysi

Ég hef verið að fylgjast með umræðu um námslán síðustu daga þ.e. að ekki eigi að hækka lánin til námsmanna. Ég er búin að vera að reyna að skilja þessa ákvörðun en það gengur illa. Við höfum reyndar aldrei tekið námslán (sem betur fer) því við höfum alltaf unnið mikið með skóla. Það sem ég skil ekki, er að lánin séu lægri en t.d. atvinnuleysisbætur. Það eru frekar slöpp skilaboð til þeirra sem eiga að byggja upp landið í framtíðnni. Nú veit ég að menntun er ekki allt því það er fullt, fullt af fólki sem ég þekki sem hefur ekki endilega mikla menntun en skilar miklu í skatta til þjóðfélagsins og hefur hærri tekjur en margir þeir sem eru hámenntaðir (og eru þar fyrir utan gáfaðri en margir þeir sem hafa gengið menntaveginn). Það er nú bara þannig að fólk er misjafnt og sumum hentar að ná sér í gráður og mörgum finnst skemmtilegt að vera í skóla á meðan aðrir geta ekki hugsað sér það.

Það er pínulítið eins og stjórnvöld hugsi.. "hey…það eru fávitar sem komu okkur hingað....því ættum við að þurfa á fleira fólki að halda með menntun fyrst hún hefur ekki skilað nokkur neinu (sjáið bara hvar við erum stödd)"? Æi ég veit ekki. Ég man bara hvernig var að vera í skóla og eiga varla fyrir mat (því peningurinn fór í skólagjöld, bækur, húsnæði  o.fl.). Matur var þá hlufallslega töluvert ódýrari en hann er í dag en samt þurfti maður að lifa mjög, mjög spart. Á meðan námslán standa í stað, hækkar allt, sérstaklega matur...hvernig á þetta að ganga upp hjá venjulegu fólki? Frábært að þurfa að taka yfirdráttarlán með sligandi vöxtum...eða þannig. Þetta er ekki skemmtilegur tími til að vera blankur og hann er síst skemmtilegri held ég ef manni er gert erfiðara fyrir með fólki við stjórnvölinn sem er skilningssljótt. Er ekki betra að láta fólk nýta tímann í skóla heldur en að hanga og gera ekki neitt? Menntun gæti skilað einhverju til lengri tíma en atvinnuleysi og bætur gera það varla, hvoru tveggja er þungur baggi á annars bugaðri þjóð. Fyrir utan það, námslán er eins og nafnið gefur til kynna lán en ekki gjöf…ég skil þess vegna ekki dæmið alveg. Námsmenn eiga mína samúð alla.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It