Konan í silfurlituðu hælunum í Hyde Park

Dagurinn í gær var dásamlegur…24 stiga hiti, sól, Hyde Park og besta heilsubúð í heimi. Lífið verður ekki mikið betra að mínu mati. Við vorum búin að smyrja nesti til að taka með í garðinn og keyptum svo eitt og annað í Whole Foods Market (heilsubúðinni) til að taka með okkur líka. Við vorum því vel nestuð í sólinni og með blöð til að lesa. Hyde Park er gríðarstór garður og svo grænn að það er eins og maður sé staddur í fjallshlíðum Uganda. Hann er líka það stór að þó 30 þúsund manns sé þar fyrir, verður maður ekki var við neinn nema maður vilji það frekar, maður getur sest undir risastórt tré og týnt stað og stund.

Við vorum búin að vera í garðinum í svolítinn tíma þegar við fengum skilaboð frá vinafólki okkar um að þau væru í öðrum enda garðsins og hvort við vildum ekki kíkja. Við trítluðum yfir í hinn endann og plöntuðum okkur við Serpentine vatnið sem er í Hyde Park, nánast alveg við göngustíginn svo við höfðum gott útsýni yfir gangandi vegfarendur. Upp úr klukkan 17 leytið sáum við álengdar eitthvað svakalega glitrandi…eiginlega eins og diskókúlu. Þar var á ferðinni manneskja í glitrandi, 15cm háum silfurlituðum hælum með rauðum botni (sem þýðir auðvitað rándýrir Louboutin hælar). Það er ekki óvenjulegt að sjá fólk á háum hælum í London og þegar ég segi fólk þá meina ég karla og konur. Stundum eru það konur, stundum klæðskiptingar, stundum kynskiptingar og stundum dragdrottningar í fullum skrúða. Maður sér alla flóruna. Það er þó óvenjulegt að sjá slíka hæla í Hyde Park því garðurinn er svo risastór jú og erfitt að ganga langar vegalengdir í slíkum skófatnaði….og þegar manneskjan þokaði sér nær (mjög flink að ganga á skónum) sáum við að hún var með silfurlitaða, glansandi tösku í stíl….hún var líka með fleiri fylgihluti….svona eins og 4 stykki mannfjöll (man mountains) eða lífverði. Þarna…af öllu fólki í heiminum…í göngutúr…um 2 metra frá okkur var Beyonce (söngkonan). Hún var með heilan her af fólki á eftir sér sem hafði greinilega áttað sig á hver þetta var! Ég tók engar myndir því mér finnst svolítið plebbalegt að taka myndir af frægu fólki en við göptum þó öll eins og gullfiskar.

Við erum líka búin að sjá minniháttar seleb eins og Bill Nighy (tvisvar), John Cleese, langa og mjóa leikarann (Olly) úr Office o.fl. en það verður erfitt að toppa Beyonce. Við komum líklega aldrei til með að komast jafn nálægt Beyonce eins og þetta…2 metrar er nokkuð gott!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig S. Finnsdóttir
25. maí. 2009

hæ sumir eru heppnari en aðrir.

kv. M.

Lisa Hjalt
25. maí. 2009

Elskan mín, þú sendir bara Beyonce eitthvað af þessu góðgæti upp á hótelherbergi og þú verður orðinn einkakokkur eftir nokkra klukkutíma!