Minn kæri vinur sem brást

Ég átti einu sinni kæran vin. Mér þótti ofurvænt um hann enda ekki ástæða til annars. Hvar sem maður kom var dáðst að honum. Fólk flykktist að honum og lagði meira að segja á sig ferðalög til að komast nær honum. Enda var hann (og er reyndar enn) mjög, mjög fallegur. Fólk talaði um hann í fjölmiðlum, dásamaði endalaust í ljóðum, sögum og tónlist. Þessi vinur var töfrandi og í honum bjó kraftur sem erfitt var að útskýra. Hann var líka uppátækjasamur og skapmikill og gat tekið upp á því að hreyta út úr sér eldheitum flaumi sem eins gott var að verða ekki fyrir en svo tók hann líka skapköst þannig að allir hristust í kringum hann. Hann gat líka átt það til að vera afar kaldur og jafnvel hranalegur þannig að fólk vildi helst loka sig af og ekki koma nálægt honum. Fólki fannst það bara skemmtilegt og vildi vita meira hvar sem maður kom. Hvað segirðu þekkirðu hann…vá!!!…Segðu mér meira um hann? Hvernig er að lifa í nábýli við hann? Við viljum vita meira um þennan frábæra félaga sem þú ert svo stolt af!! Þú ert svo heppin að þekkja hann svona vel. Vá.....Húrra!

Ég leit mikið upp til vinar míns og þótti mikið til hans koma. Ekki síst vegna þess hversu sterkur hann var og sjálfstæður. Hann átti engan sinn líka um gjörvalla veröld. Það var líka þessi tryggð við náungann þ.e. að maður hafði á tilfinningunni að hann myndi hugsa vel um mann ef á bjátaði og að hann myndi aldrei láta neitt slæmt koma fyrir. Það var þessi tilfinning að á mann myndi verða hlustað því það er jú það sem traustur vinur gerir ekki satt?

Svo gerðist eitthvað. Vinur minn varð hrokafullur, eigingjarn, gráðugur og frekur. Hann hlustaði ekki á skoðanir annarra og leyfði sér m.a. að fara út í óafturkræfanlegar framkvæmdir í garðinum sínum, sem voru svo skelfilegar að fréttir um þær spurðust út um heiminn og fjöldi manns mótmælti. Hann hlustaði heldur ekki þegar hann var beðinn um að skjóta ekki tignarlegu dýrin í sjónum sem hann ætlaði ekki einu sinni að borða sjálfur, heldur selja. Honum var alveg sama hvað öðrum fannst enda hrokafullur með eindæmum. Hann jú jú vissi svo sem að nóg væri til af þessum mögnuðu dýrum í sjónum og að dýraverndunarsinnar væru kannski einum of stressaðir en hann sá ekki hvað þetta skipti miklu máli fyrir t.d. ferðaiðnaðinn eða verra, var alveg sama og gaf fólkinu sínu langt nef. Við erum líka litla fólkið sem “skilur ekki heildarmyndina“ sagði hann. Við litla fólkið neyddumst til að bíta í vörina og blóta í hljóði því það hlustaði enginn.

Vinur minn lenti líka í slagtogi við aðra sem hugsuðu eins og hann….sem gátu hagnast af því að þekkja hvorn annan og þeir mynduðu klíkur. Hann fór að horfa niður á litla fólkið og það var orðið óþægilegt að vera í kringum hann því hann var alltaf að fá sér allt flottara en nágranninn og montaði sig endalaust í fjölmiðlum. Hann básúnaði það líka svolítið að svona væri eðli hans og hans tími væri nú, þ.e. að aðrir beygðu sig undir hans vald. Vinur minn varð óþekkjanlegur. Hann afmyndaðist af græðgi.

Ég veit að vinur minn er núna brotinn og beygður, blankur og tuskulegur eins og rifinn fáni sem blaktir á eyðieyju. Hann er kominn í meðferð en enginn virðist vita hvað best sé að gera og allir þykjast hafa lausnina. Hann er enn þá niðurlútur og getur enga björg sér veitt, virðist jafnvel vera pínulítið vonlaus. Sagt er að hann nái sér aldrei upp úr skuldunum og að hann skuldi öllum heiminum mjög marga peninga. Ég er líka búin að missa trúna á honum, þessum stóra, sterka og sjálfstæða vini mínum sem lét glepjast af öllu gullinu. Ég horfi á hann úr fjarlægð og vorkenni honum en skammast mín um leið. Nú vil ég ekki lengur að fólk viti að ég þekki vin minn því það hlær að mér og finnur jafnvel til með mér sem er verra.

Vinur minn varð líka latur. Hann hefur síðustu árin látið skaffa sér tækifærin og viljað fá þau upp í hendurnar af ríku vinunum í útlöndum í staðinn fyrir að skapa sjálfur að eigin frumvkæði, eitthvað sem hann var svo þekktur fyrir hérna einu sinni. Hann hefur sett of mörg egg í eina körfu í staðinn fyrir að dreifa þeim. Hann hélt að fá egg myndu borga sig en annað hefur komið í ljós. Vinur minn minnir mig núna dálítið á fólkið í teiknimyndinni Wall-E. Hann vill helst liggja í leti og láta færa sér hlutina á silfurfati, án þess að hugsa og án þess að gagnrýna (enda best fyrir fjöldann að vera sammála ekki satt). Hann er orðinn samdauna skoðunum fárra og getur engan veginn lagt til sjálfstæða eða útpælda skoðun.

Ég veit ekki hvernig hann gat látið þetta gerast og af hverju hann hlustaði ekki. Ég reyndi að skammast en hann virti mig ekki viðlits frekar en aðra sem lögðu eitthvað til málanna. Ég skil ekki baun í neinu..... og það er mjög vont því þá er svo erfitt að horfa fram á veginn og byggja upp tómarúmið. Ég veit að vinur minn er ekki aðal sökudólgurinn því það voru svo margir sem studdu hann til glötunar og ég er eiginlega meira svekkt út í þá. Hann átti samt að sýna meiri dug en þetta og vera sá sem ég hélt hann væri. Hann er það bara ekki, hann er einhver allt annar og það á eftir að taka langan, langan tíma að treysta honum aftur. Hann brást trausti mínu algjörlega. Ég á fleiri vini en þennan eina, sem mér þykir afar vænt um en hann var bara svo mikill hluti af mér og ég hluti af honum. Það er nákvæmlega það sem er svo erfitt og svo svekkjandi.

Þið reyndar þekkið öll vin minn....hann heitir nefnilega Ísland.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
13. maí. 2009

þú áttir sama vin og ég!

þessi kauði er óttalegur tapari en vonum að hann sjái að sér og temji sér einhverja nýja lífshætti

Sólveig S. Finnsdóttir
14. maí. 2009

hann er að lagast, hann verður orðinn oður eftir arið. kv. m