Hoppplaaaaaa

bouzouki leikari
Jæja...langt um liðið síðan síðast...

Ég hef eiginlega ekki skrifað neitt, bara af tillitsemi við ykkur lesendur góðir. Ég veit að það er óþolandi að hlusta aftur og aftur á sömu tugguna (Reykjavík vs. London)...svo er ég ekki viss um að þið fyrirgæfuð mér fyrir að vera aðeins sólbrennd á nefinu síðan á laugardag eftir að hafa eytt deginum í sólinni í Notting Hill....borðandi dísæt vínber af matarmarkaðinum. Eða fyrir það að ég hafi farið í Whole Foods Market á Kensington High Street (stærsta matvöruverslun Evrópu sem er jafnframt paradís...þ.e. heilsubúð líka).....keypt gordjus matvöru sem við borðuðum svo í sólinni í Hyde Park í dag, undir trjánum...í golunni. Ég get hreinlega ekki skrifað um svoleiðis hluti þegar ég veit af slyddu og kreppufréttum heima á Íslandi...svona er ég nú góð inn við beinið he he. Eiginlega erum við að stinga hausnum í sandinn í nokkrar vikur en ég get sagt ykkur að það er þess virði...algjörlega hverrar dýrrar krónu virði. Við lítum nánast á þessa ferð (sem er bæði vinna og frí) líka sem sálræna meðferð...sem hún svo sannarlega er :)

Við gerðum annars eitthvað í gær sem við höfum aldrei gert áður hér í London...fórum á grískan veitingastað...og ekki einhvern prumpu túrista-veitingastað á Oxford Street eða álíka...ó nei. Þannig er mál með vexti að við eigum góða gríska/ástralska vini hér í London. María var að vinna með Jóhannesi í Disney á sínum tíma og þau urðu svona góðir vinir, hafa haldið vináttunni alveg síðan. María rekur kaffihús í London sem við heimsækjum gjarnan og hún á meðal annars þessa vinsælu uppskriftu á vefnum. Pete er svo maðurinn hennar og hann hefur síðustu ár verið að að læra á hljóðfæri sem heitir bouzouki og þið kannist eflaust við úr t.d. Grikkjanum Zorba...er svolítið eins og gítar með hálfkúlulaga gítarkassa. Pete hefur oft talað um tónleika sem kennarinn hans heldur á grískum veitingastað úti í rassgati og þau buðu okkur með í gær (hann var búinn að hlakka mikið til að fara með okkur) og við erum alltaf til í að prófa eitthvað nýtt. Þessi staður heitir Apollo og er í Finsbury Park í norður London. Kvöldið byrjaði nú ekki vel. Lestarstöðin var lokuð vegna framkvæmda, við þurftum því að labba á næstu stöð sem var 15 mínútna labb. Áður en ég held áfram er ágætt að hafa í huga að við vorum búin að fara í ræktina um morguninn sem og labba heim til Maríu og Pete sem tók 20 mínútur eða svo. Við stukkum svo upp í tubeið (neðanjarðarlestina) og héldum af stað en það vildi ekki betur til en svo að við fórum út á vitlausum stað (Pete hélt að það væri rétt stöð en María var viss um að svo væri ekki....sem segir okkur að það borgar sig alltaf að hlusta á eiginkonuna he he). Við löbbuðum af stað...og löbbuðum, og löbbuðum og löbbuðum. Við gáfumst svo upp og hentumst upp í strætó sem keyrði um 100 metra áður en að endastöðinni var náð. Við þurftum því að halda áfram gangandi (aftur).  Maður getur ekki alltaf treyst á strætóana ef maður þekkir ekki hverfið sem maður er í og oft þarf maður að bíða lengi þannig að við höfðum ákveðið að ganga bara...sem var ekki svo skynsamlegt. Eftir um rúmlega klukkutíma labb komumst við loks á leiðarenda. Klukkutíma rösklegur gangur er eins og frá miðbæ Reykjavíkur og alla leið út á Seltjarnarnes. Til að þið áttið ykkur á vegalengdinni þá byrjuðum við að labba hjá húsi nr. 798 en þurftum að komast á hús númer 134a og inn í það komu svo gatnamót og alls kyns garðar og vesen. Fyrir þá sem ekki þekkja nágrenni Seven Sisters/Finsbury Park þá er þetta svona staður sem ósjálfrátt fær mann til að halda fastar um pyngjuna sína og labba hraðar...sem var ástæðan fyrir því að við gengum mjög rösklega. Klukkan var orðin 22.30 og fólkið sem vill ekki endilega láta sjá sig í björtu var farið að týnast út, fólk sem ég hefði ekki viljað mæta ein. Í rauninni minnti hverfið mig og Jóhannes mjög á miðbæ Nairobi um kvöld. Nú erum við vön ýmsum hverfum í London og ýmsu fólki auðvitað en mér leist ekkert á blikuna!!

Veitingastaðurinn sjálfur lét afskaplega lítið yfir sér og minnti frekar á félagsheimili (með litlu dansgólfi) en þá veitingastaði sem ég er vön að sækja (grænmetisstaðir og staðir sem gera út á lífrænt o.fl.). Þetta var eiginlega andstæðan við svona organic heilsustað og það sást líka alveg á kúnnahópnum. Við vorum mætt upp úr 22.30 og það var nánast of snemmt fyrir kvöldmat því það er víst siður Grikkja að byrja ekki að borða kvöldmat fyrr en á miðnætti eða svo (svo segir María). Við Jóhannes erum bæði þannig að okkur finnst óþægilegt að borða kvöldmat mikið seinna en kl 19 og borðum hann yfirleitt mun fyrr. Þetta var því nær því að vera snemmbúinn morgunverður en kvöldmatur fyrir okkur. Ég er mjög hrifin af Miðjarðarhafsmat (aðallega tyrkneskum) og yfirleitt finn ég strax eitthvað sem ég get borðað af matseðli, sérstaklega í London þar sem nokkuð stórt hlutfall inniheldur grænmetisætur. Ég get alltaf valið úr ýmsum réttum en var hins vegar í mestu basli aldrei þessu vant því meginhluti matseðilsins var lambakjöt. Við vorum sem betur fer með Grikkjum sem gátu beðið um eitthvað gott að borða fyrir okkur sem vildum ekki kjöt...á grísku. Ég tek fram að þetta var staður sem við hefðum aldrei, aldrei, aldrei farið á nema af því við vorum með einhverjum öðrum og vorum komin til að hlusta á bouzouki tónleika.

Í stuttu máli má segja að hljóðhimnurnar hafi verið við það að springa, mjög fljótlega upp úr klukkan 23. Karlar og konur dönsuðu gríska dansa fram á rauða nótt og karlar buðu körlum upp í dans og konunum líka og konur buðu konum upp í dans...og körlum líka...svo lengi sem eitthvað hreyfðist var því boðið upp í dans. Á hverju föstudags- og laugardagskvöldi eru bouzouki tónleikar með grískum söngvum og það er uppbókað 3 mánuði fram í tímann. Það er nánast vonlaust að fá borð með stuttu millibili nema maður sé inn undir. Oftar en ekki er partý til um 5 að morgni og aldrei hætt seinna en 3. Þetta "crowd" var stórkostlegt. Það er ekki fjarri lagi að segja að fatnaðurinn hafi minnt mikið á Dynasti tímabilið...eða Bold and the Beautiful. Pallíettur, krullað hár, axlapúðar, hnésíð pils, dinglandi eyrnalokkar, hrikaleg augnmálning með glimmeraugnskuggum og eldbleikum varalit ásamt túperuðu hári.

Allir þekktu alla og dönsuðu gríska dansa af mikilli innlifun með hjálp áfengis auðvitað (og miklu af því), söngvararnir dönsuðu með gestum staðarins á dansgólfinu með hljóðnemann í hendi eða voru klesstir út í horni á meðan dansgleðin tók öll völd og þeir komust ekki fyrir á gólfinu. Langstærsti hluti fólksins var grískur og þið getið alveg ímyndað ykkur My Big Fat Greek Wedding bíómyndina..þannig var fjörið. Ég er að reyna að sjá fólk á Íslandi dansa þjóðlega dansa við þjóðlega tóna....en er ekki alveg að sjá það gerast. Þarna voru það líka miðaldra og gráhærðir karlarnir sem dilluðu mjöðmum með hendur upp í loft, smellandi fingrum...sumir með eyrnalokk í öðru eyranu (virðist vera eitthvað grískt fyrirbæri). Það var borðað allt kvöldið. Við höfðum sem betur fer eytt um 3000 hitaeiningum á því að ganga (eða svona hér um bil) og vorum því orðin nokkuð svöng. Það er ekki skrítið að Grikkir borði alla nóttina miðað við þá orkueyðslu sem fer í að dansa gríska dansa!

Það var virkilega gaman að hlusta á hljóðfæraleikarann (enda í heimsklassa) en ég var afskaplega fegin að komast heim (með minicab alveg heim að dyrum) og við skriðum upp í rúm hálfheyrnarlaus, búin að ganga upp að hnjám, búin að glotta yfir fólkinu en líka búin að upplifa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Fyrir þá sem hafa áhuga þá heitir staðurinn Apollo eins og áður segir og er hjá Finsbury Park lestarstöðinni á 134a Seven Sisters Road...Mætið bara seint því fjörið byrjar ekki fyrr en á miðnætti í fyrsta lagi...

Myndin hér að ofan er tekin rétt eftir að við vorum sest inn á staðinn og undir lokin sást ekki í hljóðfæraleikarana því stappan á dansgólfinu var svo mikil. Það er alveg víst að Grikkir kunna að skemmta sér!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Birna frænka.
11. maí. 2009

Þessi lýsing minnir mig á gott þorrablót í Lundarreykjardalnum :)

Sólveig S. Finnsdóttir
11. maí. 2009

hæ þarna hefði ég þurft að vera

er sammála BIrnu frænk.

kv. mamma