London í dag

Jæja, þá erum við komin til London.....eða heim eins og við segjum. Það er dásamlegt að losna við kulda og krepputal í smá tíma og 24 tímar hafa náð að detoxa mann aðeins frá því bulli sem umlykur mann allan daginn heima. London er upp á sitt besta og orðin græn og nokkuð hlý (miðað við rokrassgatið Ísland að minnsta kosti). Íbúðin okkar er reglulega fín og á besta stað með útsýni yfir fallegan garð. Við erum því eins og blóm í eggi. Hér er það sem á daginn okkar dreif í dag:

 • Vöknuðum við sól og sumaryl og horfðum úr íbúðinni okkar yfir garðinn fallega sem er beint fyrir framan hana. Allt að sjálfsögðu löngu orðið grænt og í blóma.
 • Röltum í gegnum Piccadilly Circus og í ræktina. Ég þurfti ekki hitapoka undir rassinn á leiðina í ræktina, né ullarteppi yfir mig og ekki heldur dúnúlpu.
 • Fórum heim og fengum okkur lífrænt framleitt muesli (sem kostaði um 400 kr fyrir 1 kíló). Uppáhalds muesliið okkar og án efa besta muesli í heimi.
 • Lífrænt ræktaða eplið sem ég fékk mér stuttu seinna var ekki síðra.
 • Göngutúr á Farmer‘s Market (alvöru bændamarkaður) á Marylebone High Street. Algjörlega stórfenglegar, lífrænt framleiddar/ræktaðar vörur beint frá bændum. Brauð, grænmeti, ávextir, kjöt, sultur, ostar....allt á góðu verði og allt „in season“. Það er alltaf gaman á bændamarkaðinum (alla sunnudaga)
 • Uppáhalds eldhúsbúðin mín heimsótt....gordjus.
 • Dreypt á góðum kaffibollum og skrautlegt mannlífið skoðað... hér er fólk með grænt hár, bleikt hár, í mislitum sokkum, í kúrekafötum, með skraut í andliti....þeim sem finnst London grámygluleg hafa gleymt að horfa á mannlífið.
 • Vínber keypt í matvörubúðinni okkar (sem við versluðum alltaf í). Var búin að gleyma hvernig vínber „eiga“ að bragðast. Unaðsleg..og ekkert þeirra var skemmt eða mjúkt.
 • Næst-uppáhalds heilsubúðin mín heimsótt og ég labbaði brosandi út að eyrum um alla búð. Hér þarf maður ekki að skammast sín fyrir að versla (svona upp á verðlagið að gera). Uppáhalds heilsubúðin mín (Whole Foods Market) er í 10 sekúndna göngufjarlægð frá íbúðinni og hún verður heimsótt mjög, mjög fljótlega.
 • Fór í apótek og sá að sjampó sem kostar 819 kr í Lyfju, kostar rúmlega 2 pund sem er samt helmingi lægri upphæð en fyrir sama sjampó á Íslandi. Skammaðist mín fyrir að búa á Íslandi og láta bjóða mér þetta.
 • Góðir vinir heimsóttir og kvöldmatur borðaður á uppáhalds tyrkneska veitingastaðnum okkar, Gallipoli. Staðurinn er svo vinsæll að hann er á 3 stöðum í sömu götunni...við fórum á Gallipoli Again (staðurinn heitir það). Borðaði mig pakksadda af frábærum, heimatilbúnum, tyrkneskum mat á innan við 1000 krónur.
 • Matvörubúðin heimsótt og keypt inn fyrir morgundaginn. Sá að nýkreistur appelsínusafi (sá besti í heimi að okkar mati) kostar innan við 300 krónur, heill lítri).

Á morgun er það svo alvara lífsins en við þurfum að vinna á morgun (enda ekki í fríi allan tímann sem við erum hér), við eigum þó kvöldin og helgarnar lausar sem við munum nýta vel. Það sem við ætlum m.a. að gera er að fara í uppáhalds bókabúðina mína, listasöfn, skoða einhverja nýja veitingastaði (og heimsækja uppáhaldsstaði), fara á Borough matarmarkaðinn (uppáhalds markaðurinn minn), Jóhannes þarf örugglega að þræða útivistarbúðir sem og tölvubúðir o.fl., o.fl.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elisabet
04. maí. 2009

awwwh dásamlegt. velkomin heim...

Lisa Hjalt
05. maí. 2009

síðasti ræðumaður sagði akkúrat það sem ég ætlaði að segja

Elva
05. maí. 2009

Usss, ég held þú sért að ljúga þessu öllu Sigrún mín! (Wishful thinking)

Sólveig S. Finnsdóttir
05. maí. 2009

njótið dvalarinnar.

kv mamma

laufey
06. maí. 2009

vá, yndislegt! mér blöskrar einmitt verðlagningin hér og okrið. Mér finnst t.d. skuggalegt hvað "himnesk hollusta" vörurnar hafa hækkað ótrúlega, meira en tvöfaldast í verði í bónus!

Jóhanna S. Hannesdóttir
07. maí. 2009

Velkomin heim :-)

Hilma
07. maí. 2009

Kæra Sigrún, Ég hef lesið síðuna þína í þó nokkurn tíma og m.a. orðið þess vísari að þið eruð mikið kaffiáhugafólk - eða amk maðurinn þinn. Mig langaði að gerast svo djörf að leita ráða hjá ykkur varðandi kaup á sæmilegri kaffivél fyrir heimilisnotkun með greip, gufustút og svo kvörn. Ég er búin að fara út um allt hér í Rvk. Getið þið mælt með e-u sérstöku merki?

Vil helst ekki fara mikið yfir 90.000. Te og kaffi er með sætar, litlar vélar en ég óttast að þær nái ekki nógu miklum þrýstingi. Það er svona aðaláhyggjuefnið.

Sigrún
07. maí. 2009

Sæl Hilma :) Ég ætla að senda póstinn áfram á Jóhannes...hann er kaffinördinn á heimilinu og getur örugglega hjálpað þér áleiðis :)

Kv.

Sigrún

Hilma
07. maí. 2009

Yndislegt- takk. Væri frábært ef hann gæti kommentað eitthvað á þetta.