Talandi ísskápar 2008

Ég var í klippingu um daginn sem er nú ekki saga til næsta bæjar.  Ég var að fletta blöðum eins og gengur og mér finnst alltaf skemmtilegt að fletta svona húsbúnaðarblöðum. Eitt blaðanna, íslenskt var frá vormánuðum 2008, sem sagt fyrir um ári síðan. Ég gat ekki annað en hlegið með sjálfri mér. Ég man eftir að hafa skoðað þetta sama blað þá og hugsað með mér „fólk þarf að vera verulega vanheilt til að kaupa sér svona....eða eiga svo marga peninga að það er að drukkna“. Það síðarnefnda átti örugglega ekki við mig (veit ekki með það fyrrnefnda..um það má rökræða ha ha). Það virtist sem smekkur fólks hefði bráðnað í allri uppsveiflunni og einhver furðuleg gerviþörf fyrir drasl (helst dýrt drasl með einhverju ble ble nafni) myndaðist, því við áttum jú „nóóóóg af peningum“. Ég veit að smekkur er eitthvað sem er afar huglægt svo ég ætla ekki leggja ofurdóm á hvort að svart og hvítt og króm og þess háttar sé ljótt eða ekki. Það er bara ekki minn smekkur. Mér er líka alveg sama þó blöndunartækin heiti A eða B, svo lengi sem þau skila heitu og köldu vatni og detta ekki í sundur við nokkurra ára notkun. Eins og maður segir ekki svo fallega... „I don‘t give a flying fxxx“. En já...ég var að skoða blaðið og ég man að ég hugsaði á vormánuðum 2008...hver í andsk....þarf risavaxinn ísskáp (svartan auðvitað) með hreyfanlegum sjónvarpsskjá sem talar við þig og segir þér hvað á að vera í matinn? Hver þarf bakaraofn með lyftu (þannig að maður þurfi ekki sjálfur að lyfta bökunarplötunni? Hver þarf risa gufustrauvél sem blæs út skyrturnar í fullri stærð og skilar þeim „meira“ sléttum en með venjulegu straujárni? Hver þarf skál sem heitir eitthvað dúddírú og kostar 40 þúsund krónur (ég á skál undir ávexti sem kostaði um 900 krónur og dugar mér vel. Ég keypti hana í Danmörku og mér þykir vænt um hana. Ég keypti hana því mig virkilega vantaði skál. Hún er nafnlaus).

Nú eru margar uppfinningar og mikið af hönnun í gegnum tíðina með það að markmiði að létta fólki lífið. Sjónvarpsfjarstýring var t.d. fyrst útbúin fyrir fatlaða einstaklinga en hefur nýst öllum vel. Sama má segja með „Easy Grip“ tæki (t.d. dósaoppnarar með stórum og góðum gúmmíhandföngum o.s.frv.). Þetta er hönnun sem hefur markmið og notagildi. Ég get reyndar ímyndað mér að bakaraofn með lyftu geti hjálpað mörgum, t.d. bakveikum. Það sem hins vegar sló mig á vormánuðum 2008 og gerði líka um daginn, var að þetta voru ekki tæki til að létta fólki lífið, heldur til að  sýna nágrannanum hvað maður átti óskaplega marga peninga og hvað maður var kúl að geta fjárfest í svona munaði. Það kom hvergi fram að tækin skiluðu manni „auðveldara“ lífi, fleiri stundum með fjölskyldunni, minni streitu...heldur voru skilaboðin þau að maður væri „flottur“ með svona græju á heimilinu. Mér blöskraði þá og ég fussaði og sveiaði. Ég gerði það líka um daginn en hló með sjálfri mér í leiðinni.

Ég fletti svo nýju blaði sem kom út á vormánuðum 2009. Tækin og tólin sem verið var að kynna voru t.d. eplaskeri, viskustykki, karafla og eitthvað í þeim dúr. Eitthvað sem við plebbarnir gætum hugsanlega keypt. Engir talandi ísskápar, engir risa flatskjáir, engir bökunarofnar með lyftum. Jeminn hvað maður hlýtur að vera mikill plebbi.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It