Rislausar bollur

Glúteinlausar vatnsdeigsbollur
Ég gefst upp. Ég skil ekki bollubakstur. Ég eyddi 2 vikum, nánast á hverjum degi í að baka bollur sem mistókust. Ég gerði 1000 tilraunir og fór eflaust með heilt bílhlass af eggjum (sérlega gott í kreppunni eða þannig....og ég nota einungis hamingjusöm egg). Nú er ég hreinlega orðin pirruð. Ég sé uppskrift, eftir uppskrift, eftir uppskrift sem inniheldur a.m.k. helmingi meiri vökva en ég nota, jafnvel minni fitu, meira af eggjum og minna af mjöli (hveiti, spelti whatever) og SAMT verða mínar bollur flatar. Þær eru alveg ágætlega bragðgóðar sko, sem er ástæðan fyrir því að ég birti þær á vefnum mínum því þær eru fínar með sultu o.fl. En þær rísa ekki mikið og ég skil ekki hvers vegna. Hvað í fxxxxxu er ég að gera vitlaust?

Málið er. Ef ég nota allan þennan vökva eins og gefið er upp í venjulegum uppskriftum, leka bollurnar í eina sæng á bökunarplötunni. Svo ég verð að minnka vökvann. Ég minnkaði hann um helming og það var samt ekki nóg. Ég jók við fitumagnið (mjög óvenjulegt að ég geri svo) því í sumum uppskriftum sé ég allt að 10 sinnum meiri fitu en ég nota og það var samt ekki nóg. Ég notaði fleiri egg, færri egg, minna mjöl, meira mjöl, minna vatn, meira vatn. Það skipti ekki rass í bala neinu máli.

Uppskriftin að vatnsdeigsbollunum sem ég birti að lokum er svona eins nálægt því og hægt var að komast en bollurnar rísa samt ekki. HVAÐ er ég að gera vitlaust. Ég meira að segja prófaði að fylgja einni uppskrift í þaula í upphafi, til að prófa mig áfram og fá tilfinninguna fyrir þessu. Það gekk ekki og ég endaði með bolludagspizzu (flatböku). Vökvamagnið var fáránlega mikið miðað við þetta litla mjöl sem gefið var upp.

Ég sigta mjölið, hræri þangað til allt er kekkjalaust, sýð saman vatn og kókosolíu, hræri egg varlega, hræri vel í deiginu eftir að eggið er komið út í o.s.frv., o.s.frv. Er þetta vegna þess að ég nota gróft spelti (það rís í öllum öðrum uppskriftum sem ég geri svo það ætti ekki að skipta öllu....)? Ég hef notað spelti (gróft) í allt sem ég hef bakað síðustu 7 árin og aldrei hefur það brugðist.  Ég meira að segja notaði kartöflumjöl til að fá bollurnar aðeins meðfærilegri (finnst það koma líka betur út bara upp á bragðið að gera)....en nei, í mótþróa liggja þær nánast marflatar. Update: Ég kæli deigið vel áður en eggið fer í það og opna ofninn ekki fyrstu 20 mínúturnar bara svo það komi fram líka.

Hvernig í andsk..... farið þið að því að nota allt þetta vökvamagn (t.d. 2 egg, 2 dl vatn og 170 gr af smjöri) á meðan ég nota minna en helminginn af þessu og þær leka samt? Ég hef prófað með 2 eggjum, 2 dl af vatni (og minna af kókosolíu reyndar) og þær lágu, eins og ég segi, marflatar í einni sæng.

Það merkilegast við þetta er að glúteinlausu vatnsdeigsbollurnar voru bæði betri á bragðið og risu betur en svipað hlutfall var af mjöli, vatni vs. olíu. Myndin hér að ofan er einmitt af þessum glúteinlausu.

Ég biðla til húsmæðra og húsfeðra og annarra. Hver er galdurinn? HVERNIG fær maður bollur eins og maður sér í bakaríum og svoleiðis, þið vitið þessar ljótu, grófu, púffuðu vatnsdeigsbollur? HVERNIG?

Öll ráð eru vel þegin.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

sólveig finnsd.
21. feb. 2009

það er ekki gott að opna ofninn fystu minutur og hafa kannski meiri hita en sagt er til um. kv m

CafeSigrun.com
21. feb. 2009

Baka við 180°C og opna ekki ofninn fyrstu 20 mínúturnar.

Inga Lóa
21. feb. 2009

Passarðu að láta deigið kólna vel áður en þú setur eggin útí?

(ég feilaði alltaf á því) svo er náttúrulega miklu betra að hafa þær glúteinlausar.

Gangi okkur öllum vel við bollubaksturinn ;-)

CafeSigrun.com
21. feb. 2009

Jebb deigið kólnar alveg áður en ég set eggið út í.....

Lisa Hjalt
21. feb. 2009

Er ekki bara málið að vera ekkert að baka bollur? ;-)

CafeSigrun.com
21. feb. 2009

He he....jú myndi líklega ekki gera það nema af því ég fékk fyrirspurn frá notanda vefjarins varðandi uppskrift :)

barbietec
22. feb. 2009

Mamma segir að það megi ALLS EKKI opna opinn fyrstu 12-15 mínúturnar..

mínar vatnsdeigsbollur voru alltaf flatar en þegar ég fór eftir mömmuráði þá hepnnuðust þær :)

125 g smjörlíki

2,5 dl vatn

125 g sigtað hveiti

4 meðalstór egg ALLS EKKI stór/mjög stór

Sjóða saman smjörlíki og vatn, Hræra sáldruðu hveiti öllu í einu út í . taka pott af og láta kólna smá (bara í svona 3-5 mín)

Slá saman eggjum í skál og setja eggin í bolluna smátt og smátt í einu á minnsta hraða með þeytara.

setja rétt fyrir neðan miðju á 200. ALLS EKKI OPNA OFNINN FYRSTU 12-15 MÍN

Gefur 24-28 meðalstórar kökur

30-40 litlar :)

Sigrún
22. feb. 2009

Takk Sigrún fyrir upplýsingarnar...ég reyndar opna ekki ofninn fyrstu 20 mínúturnar svo það er ekki það.

Ég nota aldrei smjör eða smjörlíki sem gerir þetta aðeins flóknara...Ég er búin að prófa allt og ég meina allt, annað (mun auðvitað aldrei prófa með smjörlíki svo ég verð að halda áfram tilraunum)....þessar glúteinlausu heppnuðust þó vel...sem ég skil ekki alveg. Það eina sem ég á eftir að prófa í hinum er fínt spelti, hef alltaf notað gróft.

barbietec
22. feb. 2009

en að prófa eina uppskrift með venjulegu smjörlíki til að útiloka ofninn og þig hehe :)

Sigrún
22. feb. 2009

He he.....mig grunar að þetta sé sambland af skorti á smjörlíki og fleiri þáttum....það þýðir samt ekki að gefast upp :)

barbietec
22. feb. 2009

neiiii, það þýðir ekki :)

borðaru sojamjöl ? en að prófa það ?

Mummi
22. feb. 2009

Ertu nokkuð að baka með blæstri.. Veit það virkar ekki, allt flatt og ónýtt.. bara gamla góða undir/yfir hiti.

Sigrún
22. feb. 2009

Hmmmm blásturslaus ofn og sojamjöl.....þarf að kaupa fleiri egg..... :)

stína
22. feb. 2009

Ég prófaði uppskriftina þína-þurfti að bæta eggjum en setti ekki agave, hef aldrei sett sætt í vatnsdeigsbollur og gróft spelt hef ég notað eingöngu. Ég set eggin alltaf útí heita soppuna og hræri þau í með handþeytara til að fá deigið nógu létt. Þetta virkaði ágætlega. Allir ánægðir hér og taka tvö verður tekin á eftir.

Sigrún
22. feb. 2009

Stína....mjög áhugavert...kannski að ég ætti að sleppa agavesírópinu og prófa að nota meira af eggjum í staðinn.....það gæti virkað....Risu þær ok, notaðirðu kartöflumjöl eða bara gróft spelti?

Inga
23. feb. 2009

Hæ hæ... ég á hér tvær uppskriftir af vatnsdeigsbollum með spelti. Ég er búin að prófa efri uppskriftina og hún kom vel út. Mér datt í hug að það væri e.t.v. eitthvað í þeim sem þú gætir nýtt þér varðandi risvandamálið hehe :) Annars líst mér svo vel á bollurnar þínar að ég ætla að prófa þær á eftir, ég er viss um að þær eru alveg voðalega góðar :)

Vatnsdeigsbollur úr spelti (Inga Kristjáns)

2 dl. vatn

1 ½ matsk. extra virgin ólífuolía

100 gr. fínt (sigtað) spelt

2 stór egg (3 lítil)

Sjóðið saman í potti, vatn og olíu. Takið pottinn af hitanum og hrærið speltinu út í (hrærið kröftuglega). Setjið pottinn aftur yfir hitann og hrærið deigið saman þar til það hefur fengið mjúka áferð. Kælið pottinn með deiginu í (t.d. í vatnsbaði). Hrærið eggin saman og bætið þeim smám saman út í kalt deigið og hrærið á meðan með handþeytara. Hrærið deigið vel eftir að eggjunum hefur verið bætt útí. Hitið ofninn í 200°. Setjið bökunarpappír á plötu, búið til ca 9 bollur úr deiginu og bakið í miðjum ofni. Opnið ekki ofnhurðina fyrstu 20 mín. Bakist í 30 mín. við 200°

Bolludagsbollur - einfaldar og fljótlegar (Solla)

2 dl gróft spelt

2 ½ dl fíntmalað spelt

1 msk vínsteinslyftiduft

½ dl agavesýróp

1 ½ dl heitt vatn

Hrærið þurrefnunum saman í skál, hellið agavesýrópinu útá ásamt vatninu og klárið að blanda deigið. Best er að blanda deigið saman, ekki að hræra það of mikið. Þetta á að minna á hnausþykkan hafragraut. Hitið ofninn í 180°C &; setjið bökunarpappír á ofnskúffu, notið ískúluskeið við að móta bollurnar. Bakið í um 20 mín. Setjið bollurnar inn í viskustykki á meðan þær eru að kólna.

CafeSigrun.com
23. feb. 2009

Sæl Inga og takk fyrir uppskriftirnar. Ég prófaði þessi hlutföll eins og eru í þínum (efri) um daginn og þær urðu marflatar (aftur sama vandamálið með of mikið vatn vs. þurru mjöli). Ég á samt eftir að prófa með fínu spelti.

Hin uppskriftin frá Sollu er eiginlega bara brauðuppskrift :( Hentar vel þeim sem hafa eggjaóþol en eru að öðru leyti eins og brauðbollur.

Takk

S.

laufey
24. feb. 2009

Mamma sagði mér bara að passa að þeyta eggin mjög vel saman við, þá yrði deigið ekki jafn þunnt. Sé að bollurnar hafa loks tekist, hljómar einmitt lyftivænna að hafa fína speltið. ummmmm

stína
24. feb. 2009

Setti helminginn af kartöflumjölinu, bætti grófu spelti í staðinn. Baka vatnsdeig með blæstri á ca 180c- það lyftist samt og verður holt innan. Prófaði gluteinlausu bollurnar líka og bætti eggi í staðinn fyrir agave og fékk fínar bollur. Takk fyrir uppskriftirnar. Kv. Stína