Svolítið síðbúinn annáll fyrir 2008

Ég var að rifja upp í ræktinni um daginn hvað ég (og við) hefði gert merkilegt á árinu sem leið, 2008. Við fyrstu upprifjun mundi ég ekki eftir neinu merkilegu. Þetta rennur svolítið saman í eitt hjá manni ekki satt. Ég tók saman það helsta svona eins og ég hef gert undanfarin ár en gerði það reyndar heldur seinna en venja er..það ætti ekki að koma að sök :) Það kom sem sagt í ljós að við gerðum þó nokkuð :)

Í janúar fluttum við inn ástralska skemmtikraftinn Pam Ann. Þetta var algjört brjálæði, mikið stress, mikið álag en ógó skemmtilegt enda er Caroline sjálf ferlega skemmtileg og við áttum með henni 2 kvöldstundir í rólegu spjalli ásamt því að fá að sjá hana á sviði. Eitthvað sem okkur myndi langa til að gera aftur en er ekki séns eins og staðan er í dag.

Í febrúar og mars vorum við í Uganda, Rwanda, Kenya og Tanzaníu. Stoppin í Kenya og Tanzaníu voru reyndar stutt, vorum þar á eigin vegum, ferðuðumst meðal annars upp í fjöllin í Tanzaníu sem var magnað. Kenya var enn þá í sárum eftir óeirðir vegna kosninganna í lok árs 2007 svo fáir ferðamenn voru á ferðinni en þeim mun skemmtilegra að vera þar! Rwanda situr hins vegar svo fast í kollinum á okkur að það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki til górillanna sem við heimsóttum, landsins, fólksins og alls þess sem við upplifðum þar. Heimsókn á Hotel Rwanda (þar sem raunverulegu atburðirnir gerðust) líður okkur aldrei úr minni, né heimsókn á minningarsafnið í Kigali þar sem við stóðum hjá fjöldagröf 250.000 manna. Uganda var líka ógleymanleg og falleg en auðvitað allt öðruvísi en Rwanda að hluta vegna sögunnar en líka vegna gríðarlega fallegs landslags. Í Uganda kynntumst við námsmanninum E.  sem varð víðfrægur hér á Íslandi vegna bloggfærslu sem ég skrifaði. Við styrkjum hann enn þá og hann er að ljúka 3ju önn í hárgreiðslunáminu sínu.

Í febrúar átti ég líka orðaskipti við Emmu Thompson í heilsubúð um magn á sushikaupum :)

Í maí fór ég svo í hnéaðgerð (nr. 2).  Sex vikum seinna endaði ég upp á Landspítala í aðgerð nr. 3 því það voru samgróningar í hnénu og það þurfti að losa það allt upp í hnéaðgerð nr. 3. Ég eyddi 2 mjög svo leiðinlegum nóttum á spítalanum.  Hnéð er ekki enn komið í lag.

Í júní gáfum við út ljósmyndabók á Netinu af ferðum okkar í Afríku. Bókin var ætluð Borgar bróður og Elínu og svo gerðum við nokkur önnur eintök, seldum m.a. tvö.  Við höfum síðan gert bækur í jólagjafir og fleira sem er mjög skemmtilegt.

Í júlí hefðum við átt að vera fara í hestaferð en ekki varð af því vegna hnésins :(

Í ágúst settum við nýjan vef Afríku Ævintýraferða í loftið. Jóhannes kóðaði (forritaði) allan vefinn og ég tók allar myndirnar á honum ásamt því að skrifa megnið af textanum. Þetta var skemmtilegt verkefni en erfitt því ég lá í sófanum allt sumarið vegna hnésins og var að skoða myndir frá Afríku allan daginn. Það er erfitt þegar maður kemst ekki spönn frá rassi.

Í ágúst fór ég einnig af stað með Óhollustusamkeppni CafeSigrun. Keppninni var vel tekið og var æsispennandi á köflum!  Vinningshafi var Jógúrtrúsínur!!

Í ágúst var ég beðin um að vera með vikulegt innslag um heilsumál í einum þekktasta sjónvarpsþætti landsins. Ég var mjög stolt og ánægð með að vera beðin um þetta (enda mikill heiður) en ég afþakkaði. Ég held ég hafi gleymt að segja ykkur frá þessu :)

Í lok september fór ég til London og hélt námskeið fyrir banka þar í landi, einn þann stærsta. Það er sérstaklega fyndið í ljósi þess að við vorum að ræða um (eða aðallega ég) hversu frábærir íslensku bankarnir voru...þetta var um viku áður en allt fór til andskotans. Jóhannes flaug svo út til mín og við áttum náðuga daga heima (eins og við köllum London). Við fundum enn þá betur hvað við söknum London hræðilega mikið og erum ákveðin í því að flytja þangað aftur.

Í september hefðum við átt að vera fara til Uganda og Rwanda í aðra ferð en ekki líklegt að fólk sé að fara á næstunni í exotískar ferðir. Við erum orðin vön því að fara til Afríku 2-3var á ári síðustu árin og við vorkennum okkur mjög mikið að komast ekki ha ha....

Október....need I say more... kreppa... rigning... slydda... myrkur... okur... vöruhækkanir... launalækkanir... matargjafir...verðbólga... ? Erum sem betur fer ekki í hringiðu kreppunnar því við eyðum aldrei um efni fram. Ég er hins vegar ósátt við svo, svo margt í okkar þjóðfélagi.

Nóvember...var örugglega nóvember í ár, fór fram hjá mér?

Desember...Þorláksmessuboð, ljúft jólahald, áramót og flugeldar (sem ég haaaaata).

Svo er ég ekki búin að telja upp fullt af viðtölum í blöðum, greinum o.fl. bæði vegna CafeSigrun og vinnunnar minnar en það var svona inn á milli :)

Hvað ber 2009 í skauti sér? Hef á tilfinningunni að þegar ég rifja upp 2009 verði þetta umræðuefnið..."Gerðum ekkert 2009. Það var rigning og myrkur, bíla- og íbúðalánið hækkaði og við eyddum lunganum úr árinu í að bölva öllu í sand og ösku". Stefnan var að flytja árið 2009 aftur til London en við sjáum til hvernig staðan verður.....við viljum a.m.k. komast héðan sem fyrst :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Melkorka
10. feb. 2009

Gott ár! þ.e. 2008 hjá þér. Ég vona að 2009 verði líka útgáfuár. Ég bíð þolinmóð en spennt.

Elisabet
10. feb. 2009

Skil vel að þér hafi fyrst ekkert hafa gerst þar sem það var engin Afríku ferð.... Ein ferð til London, Þykir það ekki mjög lítið?

En samt sem áður gott og flott ár.. En hittumst nú vonandi í Uganda í sept 2009 :-))

Sigrún
10. feb. 2009

Jú Elísabet við fórum sko 2008 til Rwanda, Uganda, Kenya og Tanzaníu :) Ekki það...hefðum viljum fara oftar og þá í september líka eins og planað var.

Lisa Hjalt
11. feb. 2009

Ertu búin að taka saman hversu oft þú bakaðir og eldaðir á árinu???

Bara hugmynd.

CafeSigrun.com
11. feb. 2009

Uss nei Lísa....held að það væri ekki svo sniðugt...he he :)

Elisabet
11. feb. 2009

Æ já vá alveg rétt, ferðin sem ég missti af á meðan ég var á Jamaica,, ji maður verður alveg ruglaður í þessu :-))