Foie Gras

Ég hef stundum verið spurð að því hvers vegna ég sé á móti gæsa/andalifrarkæfu eða Foie Gras. Fæstir vita að Foie Gras þýðir "Feit lifur" og hvers vegna verður lifur feit? Jú af því að dýrið borðar of mikið. Hins vegar eru ekki allir sem vita HVERSU mikið dýrið þarf að borða eða meðferðina á bak við dýrin.

Áður en þið verslið dós af Foie Gras í búðinni eða kaupið hana erlendis til að gefa vinum og vandamönnum á Íslandi, skuluð þið ímynda ykkur ef þið fengjuð sem samsvarar 13 kíló af pasta ofan í magann á 2 sekúndum. Fuglunum er haldið í búri, umsjónarmaður heldur um háls þeirra og slanga fer ofan í kokið sem dælir maís með fitu ofan í maga fuglanna. Þeim líður það illa að þeir forðast umsjónarmennina sem troða þá út og reyna að forðast slönguna líka. Fuglarnir verða veikir, fá hita, enda á sýklalyfjum til að halda í þeim líftórunni og þannig stækkar lifrin út í hið óendanlega þangað til fuglinn getur ekki lengur hreyft sig og lifrin er alveg um það bil að springa. Ef fuglarnir yrðu ekki drepnir til að gera úr þeim kæfu myndu þeir drepast úr lifrarbilun mjög fljótt og beinbrot eru tíð því fuglarnir verða svo þungir og beinin geta ekki haldið þeim uppi. Á flestum stöðum í Evrópu er þessi meðferð á dýrunum bönnuð en í löndum eins og Ungverjalandi er þetta leyft. Hvers vegna fólk gerir svona lagað, skil ég ekki, ekkert frekar en að halda dýrum í búrum áður en þau eru notuð í fatnað (minkar, refir) eða mat síðar (kjúklingur, svín o.fl.).

Ég hvet ykkur til að kaupa aldrei Foie Gras og ef þið gerið svo að lofa því að þið takið smá stund í að hugsa um hvernig þið mynduð vilja útskýra þessa kæfu fyrir börnunum, hvernig hún verður til. Hvort þið væruð sátt við þá útskýringu ykkar. Mér finnst að ætti að skylda alla foreldra til að útskýra fyrir börnunum hvaðan matur kemur, svo þau geti tekið afstöðu til matarins, meðferðar á dýrum o.fl. Ég er ekki viss um að börnin myndu samþykkja meðferðina á dýrunum. Ekki það svo sem, mörg börn vita ekki að mjólk kemur úr kúm, hvað þá að Foie Gras  kemur úr fársjúkum fuglum.

Ég veit að þetta er léttvægt miðað við annað sem er að gerast... (þjóðfélagsmál, Gaza svæðið, hungursneyð o.fl.) ég er bara að svara smá fyrirspurn sem ég fékk....

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigrún
15. jan. 2009

úff þetta er svakalegt að lesa. Það er alveg á hreinu að ég mun ekki leggja mér þetta til muns og er fegin að hafa ekki gert það hingað til.

Takk fyrir frábæra síðu Sigrún. Hef lengi fylgst með og prufað nokkrar uppskriftir en aldrei sagt neitt :)

Kv. Sigrún Ásg.

Sólveig Funnsd
15. jan. 2009

ég borða þetta aldrei og mun ekki gera þetta er ógeð hvernig er farið með dyrin.Kv.m

Korinna
15. jan. 2009

hver spyr svona???

CafeSigrun.com
15. jan. 2009

Korinna: Sem betur fer var það áhugamanneskja um velferð dýra sem vildi bara vera viss :)

Davíð Guðmundsson
16. jan. 2009

Sæl Sigrún.

Já þetta eru ekki huggulegar aðferðir sem menn beita til þess að búa til gæsalifrarkæfu. En sem betur fer finna snjallir bændur alltaf leið til þess að vinna með náttúrunni. Foie Gras á mannúðlegan hátt. Skoðið þetta: http://www.ted.com/index.php/talks/dan_barber_s_surprising_foie_gras_par...

Rósa
16. jan. 2009

ég skimaði yfir byrjun færslunnar , en ákvað að ég leggði ekki í að lesa því ég hef séð svona áður og var( og er enþá ) með martraðir yfir þessu , hversu miklir hrottar maðurinn getur verið . þetta er svo siðblint og andstyggilegt . ég næ ekki uppí nefið á mér fyrir vanþóknum og viðbjóði !!!

Rósa
16. jan. 2009

afsakið geðshræringuna, þetta er mér mikið hitamál !! :O

Sigrún
16. jan. 2009

Rósa: Gott að þér (og fleirum) er ekki sama....ef þessi færsla er nóg til að vekja fólk til umhugsunar þá er ég afskaplega glöð. :)

Lisa Hjalt
18. jan. 2009

Alltaf lærir maður eitthvað nýtt!

CafeSigrun.com
29. jan. 2009

Davíð kommentið frá þér fór í spammið og ég sá það ekki fyrr en núna! Takk fyrir þennan tengil, mjög áhugavert!!!

Eini gallinn er að það eru mjög margir sem átta sig ekki á muninum þegar þeir horfa á krukkuna/dósina í búðinni og því þyrfti þetta að vera ansi vel kynnt og merkt og hin aðferðin ætti auðvitað að vera bönnuð fyrst að til er mannúðleg aðferð við þetta.

Takk fyrir að senda mér tengilinn.