Ódýra uppskrift vikunnar #10: Tómatsúpa frá Zanzibar

Tómatsúpa frá Zanzibar

Tómatsúpa frá Zanzibar

Hollustueiginleikar: Laukur hefur  ýmsa góða eiginleika eins og að innihalda helling af andoxunarefnum og B6 vítamínum (sérstaklega hvítlaukurinn), C vítamín, trefjar o.fl. Tómatar (og kartöflur) eru afar ríkir af C vítamínum sem og andoxunarefnum svo við erum nokkuð örugg með að fá ekki kvef á næstunni ef við borðum þessa súpu!!!! Öll þessi andoxunarefni þýða reyndar að við erum að gera okkar besta í að hindra myndum ýmissa krabbameinsfruma! Súpan er létt, trefjarík, vítamínrík, seðjandi og hræódýr. Mjög mikilvægt er að nota bestu fáanlega tómata.

Upprunaleg uppskrift kemur úr bók sem heitir Swahili Kitchen (sem Jóhannes gaf mér þegar hann kom frá Afríku eftir prílið á Mt. Kenya 2006) en ég bætti hvítlauk og kartöflum í uppskriftina. Við höfum reyndar margoft fengið tómasúpur í Afríku og þær eru alltaf góðar enda eru tómatarnir yfirleitt dökkrauðir og sætir (vegna allrar sólarinnar).

Alltaf þegar ég fletti bókinni verður mér hugsað til Jóhannesar á Mt. Kenya. Á meðan Jóhannes var á leiðinni upp fjallið lá ég í rúminu heima í London í það skiptið með eina alverstu flensu sem ég hef fengið á ævinni. Ég gat ekki hreyft mig ég var SVO lasin, með háan hita, beinverki, höfuðverk og gat varla andað vegna kvefs og hálsbólgu. Nema hvað....ég lá í rúminu að vorkenna mér út í eitt (enginn að hjúkra mér) nema hvað Jóhannes var með SÖMU flensuna að labba upp á HÆSTA FJALL KENYA....og fór alla leið á toppinn!! Ég vorkenndi honum auðvitað hræðilega (en vorkenndi mér í laumi fyrir að hann gat ekki verið heima að vorkenna mér he he).

Tómatarnir og helmingurinn af lauknum eru grillaðir í ofninum og þeir verða algert nammi þannig. Athugið að það tekur um 40-50 mínútur að grilla þá svo gefið ykkur góðan tíma. Súpan hentar vel fyrir þá sem hafa glúteinóþol.

Jæja..þetta var síðasta ódýra uppskrift vikunnar :) Vonandi hafið þið fengið hugmyndir að ódýrum og góðum mat þessar síðustu 10 vikur. Tómatsúpa frá Zanzibar Fyrir 3-4

  • 500 gr þroskaðir tómatar
  • 4 meðalstórir laukar, saxaðir fínt
  • 2 stórir hvítlauksgeirar, kramdir
  • 160 gr kartöflur
  • 1,5 kúfuð matskeið af tómatpuree (tómatmauk)
  • 500 ml vatn
  • 1 gerlaus grænmetisteningur. Má vera meira af vatni ef þið viljið hafa tómatsúpuna þynnri en gætuð þurft að bæta grænmetisteningi við
  • 1 msk kókosfeiti
  • 1 tsk þurrkað basil
  • Pipar
  • Salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð:

  1. Hellið sjóðandi heitu vatni yfir tómatana og látið standa í skál í 1 mínútu.
  2. Afhýðið tómatana.
  3. Skerið tómatana í báta og setjið í eldfast mót (strjúkið smá kókosfeiti í eldhúspappír yfir eldfasta mótið).
  4. Skerið tvo af laukunum fjórum í báta og raðið í eldfasta mótið.
  5. Hitið ofarlega í ofninum við 220°C í um 40-50 mínútur eða þangað til brúnirnar á tómötunum og laukunum eru orðnar dökkar og jafnvel svartar.
  6. Saxið hina laukana tvo ásamt hvítlauknum og steikið í kókosfeiti (og vatni ef þarf)  í potti þangað til þeir verða mjúkir.
  7. Skerið kartöflurnar í bita og setjið í pottinn ásamt smá og vatni og tómatpuree.
  8. Bætið grænmetissoðinu (vatninu og grænmetisteningnum) út í og látið kartöflurnar sjóða í um 20 mínútur.
  9. Þegar þetta er orðið tilbúið, látið þá kólna aðeins.
  10. Setjið í matvinnsluvél og maukið.
  11. Takið nú eldfasta mótið úr ofninum, kælið aðeins og færið innihaldið yfir í matvinnsluvélina
  12. Maukið meira ef þið viljið hafa súpuna vel blandaða en minna ef þið viljið hafa bita í henni.
  13. Berið fram með nýbökuðu brauði og t.d. soðnum eggjum (ég nota bara hvítuna).
  • Súpan sjálf er frábær grunnur fyrir góða grænmetissúpu. Ef þið viljið hafa meira grænmeti í henni (t.d. púrrulauk, gulrætur, sveppi, gular baunir o.s.frv.) léttsteikið þá grænmetið og látið malla í súpunni þangað til grænmetið er orðið meyrt.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Rósa
13. jan. 2009

ætla endilega að prófa þessa :D

En hvað er fleira á myndinni ??

þetta lítur svo girnilega út ,hafraklattar eða svoleiðis ...?

Sigrún
15. jan. 2009

Hæ Rósa

Á myndinni eru soðin egg (ég nota reyndar bara hvítuna) og Ólífubrauðbollur með pestó og parmesan sem er að finna hér á vefnum. :)

Rósa
17. jan. 2009

takktakk.

Linda
11. okt. 2009

Sæl Sigrún!

Mig langar mikið að prófa þessa súpu en ég þoli illa lauk. Get ég sett minna magn af honum eða notað eitthvað annað í staðinn án þess að skerða gæði súpunnar.