Ódýra uppskrift vikunnar #8: Sveppasúpa

Sveppasúpa

Sveppasúpa

Hollustueiginleikar: Sveppir eru meiriháttar. Þeir eru ódýrir, fitusnauðir, hitaeiningasnauðir og innihalda heilan helling af vítamínum, steinefnum og snefilefnum. Sveppir innihalda töluvert magn af Selenium sem hjálpar (í samvinnu við E vítamín) til við að nýta andoxunarefni fyrir líkamann. Talið er að sveppir hafi töluverð áhrif á að hindra myndun krabbameinsfruma í ristli, draga úr áhrifum gigtar, asthma o.fl. Einnig innihalda sveppir kopar (sem hjálpar hjartanu) og potassium (einn bolli af sveppum inniheldur meira af potassium en bananar) en potassium lækkar háan blóðþrýsting og hjálpar til við að sporna gegn heilablóðföllum. Svo eru sveppir járnríkir í þokkabót.

Sveppir eru því í raun algjör undrafæða og við ættum að borða þá í öll mál þ.e. svo lengi sem þeir eru ekki smjörsteiktir en slíkt er auðvitað algjör óþarfi. Það er nóg að setja smá skvettu af vatni á heita pönnu og hita sveppina þannig því sveppir eru 80-90%% vatn og gefa því frá sér vökva á pönnunni sem þeir steikjast í. Þessi súpa er ein af mínum uppáhaldssúpum því ég er bæði hrifin af sveppum og súpum svo þetta er að mínu viti afskaplega góð blanda. Ekki spillir fyrir að súpan er hræódýr (maður getur sleppt þurrkuðu sveppunum og gert hana enn þá ódýrari).  Það eru nokkrir notendur CafeSigrun sem hafa gert þessa súpu á jólunum  sem hljóta að vera góð meðmæli (og enginn sem hefur sakað mig um að hafa skemmt jólin!) Súpan er glúteinlaus og auðvelt er að gera hana mjólkurlausa.

Fyrir 4

Innihald:

  • 2 stk litlir laukar, mjög fínt saxaðir
  • 250 gr sveppir, saxaðir
  • 25 stk þurrkaðir sveppir. Má sleppa en súpan verður svo miklu, miklu betri ef maður notar þá
  • 800 ml grænmetissoð (vatn + 1-2 stórir gerlausir grænmetisteningar t.d. frá Rapunzel). Ef ekki eru notaðir þurrkaðir sveppir notið þá 1 lítra af vatni.
  • 1/2 dl (magrasti sem til er) matreiðslurjómi (eða hafrarjómi)
  • 1 dl undanrenna eða léttmjólk
  • 2 msk kartöflumjöl (ef þið þolið glútein má nota spelti)
  • 1/4 tsk múskat
  • 1 msk kókosfeiti
  • Salt (Himalaya eða sjávarsalt) og svartur pipar

Aðferð:

  1. Steikið laukinn í smá kókosfeiti á lágum hita í 10-15 mínútur.
  2. Bætið sveppunum út á pönnuna ásamt smávegis af vatni og hitið áfram í 5 mínútur eða þangað til sveppirnir fara að linast.
  3. Stráið kartöflumjölinu yfir og hrærið vel í.
  4. Setjið þurrkuðu sveppina ef þeir eru notaðir í skál með 2 dl sjóðandi vatni í 20 mínútur.
  5. Bætið grænmetissoðinu út í súpuna og sjóðið hana á lágum hita í u.þ.b. 20 mínútur.
  6. Hellið vatninu og þurrkuðu sveppunum út í súpuna.
  7. Bætið að lokum rjóma, mjólk og múskati út í.
  8. Bragðið súpuna til með salti og pipar.
  • Við áttum smá súpu í afgang einhvern tímann og ég bætti soðnum hrísgrjónum og frosnum, grænum baunum útí. Það var bara hin prýðilegasta súpa og örugglega allt í lagi að bæta t.d. blómkáli, spergilkáli, gulrótum og fleiru út í. Upplagt til að drýgja grænmetisafgangana í ísskápnum!!
  • Það er einnig mjög gott að nota maískorn til helminga við sveppina
  • Berið fram með góðu, grófu brauði.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Gamli sveppur
28. des. 2008

Sæl Sigrún,

Svo meltir maður svo lítið af sveppunum að þeir virka sem trefjar á meltinguna. Sælkera-hægðameðal. Með kveðjum frá gömlum svepp.

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur

CafeSigrun.com
28. des. 2008

Góður punktur Guðríður :) Takk fyrir innleggið!!

Ragnheiður
31. des. 2008

Sæl Sigrún.

Vil byrja á að þakka fyrir frábæra síðu, hefuð hjálpað mér mikið við eldamennskuna!

En mig langaði að spyrja þig, hvar kaupirðu helst svona góða þurrkaða sveppi í Reykjavík?

Sigrún
31. des. 2008

Hæ Ragnheiður og takk :)

Ég kaupi þá t.d. í Hagkaupum! Þeir fást í glærum plastdósum (með ljósbrúnu járnloki) og eru yfirleitt seldir hjá fersku sveppunum. Það er t.d. hægt að fá Shitaki, Porcini, Oyster og fleiri sveppi. Örugglega hægt að finna þá í Nóatúni líka eða ég get ekki ímyndað mér annað. Ég á alltaf dós til að bjarga mér í neyð ef mig vantar sveppi (finnst sveppir úr dós vondir).