Sjálfsagt

Þykir okkur...

  • Að skrúfa frá krananum á morgnana til að láta vatnið kólna til drykkjar.
  • Að hækka á ofnunum aðeins meira þegar okkur er kalt.
  • Að opna samt glugga til að fá ferskt loft inn (þó að við séum nýbúin að hækka á ofnunum).
  • Að hita vatnið aðeins meira í sturtunni þegar okkur er kalt.
  • Að hita bílinn aðeins áður en keyrt er af stað.
  • Að velja besta verð á eldsneyti sem birt er reglulega í blöðum og í vefmiðlum.
  • Að bera saman verð og gæði matvæla og velja það besta/ódýrasta.
  • Að velja jólamat eftir smekk, tiktúrum og jólahefðum fjölskyldumeðlima.
  • Að strjúka um magann og dæsa eftir hlaðborð en borða samt aðeins meira.
  • Að velja föt í búðum eftir lit, efni, áferð, skrauti og stynja þungan yfir skorti á réttri stærð.
  • Að velja skó eftir hælastærð, tálögun, nafni og stynja þungan yfir skorti á réttum lit.
  • Að pakka gjöfum í fallega litaðan pappír með glansandi og krullaðan skrautborða sem eru rifnir af á 1.25 sekúndum að kvöldi 24. desember.
  • Að velja okkur heimilislækni eftir ábendingum eða meðmælum annarra og kvarta aðeins þegar hann getur ekki hitt okkur samdægurs.
  • Að hafa kost á öllum lyfjum, alltaf og kvarta undan of háu lyfjaverði við apótekarann.
  • Að tala opinskátt um það á prenti sem miður fer í þjóðfélaginu  (heill hellingur) og endurtaka svo allt á bloggsíðum, bíða eftir kommentum og rífast aðeins meira, jafnvel í sjónvarpi, sama daginn.
  • Að á okkur sé hlustað og að þeir sem stjórna landinu hlusti á allt sem við segjum, þó að við köstum í þá skyri og eggjum.

Það sem mér  (og vonandi öðrum) finnst ekki sjálfsagt  er að fólk þurfi enn þá, næstum árið 2009 að búa við aðstæður eins og nú eru í Congo og Zimbabwe (og fleiri stöðum)..... Stuðningur þarf ekki alltaf að vera í formi ölmusu. Ég keypti t.d. bráðskemmtilega uppskriftabók frá Congo um daginn og hvet ykkur til að gera það líka. Einnig má t.d. á vef BBC lesa um ástandið þar sem og í Zimbabwe, þar má senda fréttir til annarra, skilja eftir athugasemdir o.fl. Oft skiptir mestu máli að vera meðvitaður og það kostar ekki mikla peninga. Það versta sem maður gerir er að vera alveg sama. Ég veit líka að ástandið hér á landi er ekki það besta...en það er örugglega verra annars staðar og búið að vera í tugi ára.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigga
13. des. 2008

Þetta er góður punktur hjá þér, fær mann til að hugsa út fyrir sinn ramma. Horfði á mynd um daginn sem heitir: Hotel Ruanda (byggð á sönnum atburðum) og hún snart mig mjög. Þar kom einmitt berlega í ljós að vesturlandaþjóðunum var alveg sama um ástandið sem ríkti þar í kringum árið 2000. Ferðamönnum var bjargað en innfæddir fengu litla sem enga aðstoð og urðu annaðhvort drepnir á hrottalegan hátt eða hröktust á milli flóttamannabúða, búin að missa sína nánustu eða orðið viðskila við þau á flóttanum. Enn þann dag í dag eru milljónir sem vita ekkert um afdrif fjölskyldna sinna. Það sama má segja um ástandið í Kongó.

Sigrún
13. des. 2008

Það er akkúrat málið Sigga. Og veistu hvað...við vorum í Rwanda á þessu ári og heimsóttum m.a. Hótel Rwanda (sko staðinn þar sem þetta allt gerðist) núna í febrúar á þessu ári. við fengum okkur hádegismat á staðnum og eiginlega ekkert okkar var með hugann við matinn. Að vera á þessum stað var hreint út sagt ótrúleg upplifun og eitthvað sem maður gleymir aldrei. Einnig heimsóttum við minningarsafnið í Kigali, um þjóðarmorðin og við vorum öll með tárin í augunum. Fólkið þarna er svo yndislegt og það er svo ótrúlegt að hugsa um hvað er stutt síðan að þetta allt gerðist.

Lisa Hjalt
13. des. 2008

Takk fyrir góða áminningu.

Sonur minn býður núna spenntur eftir „rjómaköku“ sem er jú pecankaka á okkar tungumáli. Það eru forréttindi að hafa eina slíka í ísskápnum og geta fengið sér í kaffinu á eftir.

Sigrún
13. des. 2008

Já satt segirðu Lísa...það eru sko forréttindi að eiga "rjómaköku" í ísskápnum. Reyndar eru cashewhnetur og bananar ódýrt hráefni í Afríku...eigum við ekki bara að fara í heilsu-og innkaupaferð þangað???? :)

Lisa Hjalt
13. des. 2008

eftir kreppu, alveg pottþétt!

Elisabet
14. des. 2008

ég er til,,, eða kannski komið þið bara að heimsækja mig næsta sumar nanananna