60 cm bati

Ég hef ekki skrifað um hnéð lengi...enda svo sem ekki margir sem nenna að lesa endalausar sjúkra- og vorkenna-mér-sögur. Það er alveg öruggt að það eru margir verr staddir en ég og því óþarfi að grenja í hvert skipti sem ég blogga. Það er þó ágætt fyrir mig að punkta hjá mér hvar ég er stödd í þessu öllu saman, eins konar yfirlit fyrir mig. Oftar en ekki hef ég flett upp í bloggfærslum til að sjá dagsetningar aðgerða og fleira. Það eru sem sagt 3 ár frá fyrstu aðgerðinni í London (8. desember) og í tilefni þess var ég að rifja þetta upp.

Batinn hefur verið mjög hægur, mun hægari en ég nokkru sinni hefði getað ímyndað mér. Ég fór sem sé í fyrri aðgerðina 15. maí (speglun og aðgerð) og seinni aðgerðina 2. júlí (laga samgróninga) og það eru þá rúmlega 6 mánuðir síðan sú fyrri var framkvæmd. Áverkarnir inni í hnénu eftir fyrri aðgerðina voru að mér skilst álíka og eftir hnjáliðaskipti. Það eru þeir sem er enn að plaga mig þ.e. þeir áverkar sem urðu við aðgerðina sem var ansi harkaleg (að sögn læknisins)...eða „aggresív“. Ég heimsótti lækninn minn síðast 2. september síðastliðinn og hann var nokkuð ánægður með framvindu, eiginlega himinlifandi því honum leist sannarlega ekki á blikuna þegar hann þurfti fyrst að tappa af tugum millilítrum af blóði úr hnénu þarna í byrjun, fá fréttir af mér á slysó og svo að lokum fá mig til sín þannig að ég gat ekki beygt hnéð neitt (sem kallaði á aðra aðgerð).

Hann horfði á mig og sagði...."Sigrún....MANSTU hvernig þú varst?" (og ég man). Ég gat ekki beygt hnéð neitt og haltraði eins og gæs. Síðan þá hefur öll mín einbeiting farið í að styrkja vöðvana í kringum hnéð svo þeir séu nógu sterkir til að styrkja það og styðja. Og ég finn mikinn mun, maður minn. Það tekur bara svo óskaplega langan tíma að bæta við vöðvum sem hafa verið að rýrna í 3 ár. Vöðvarnir í hinu hnénu eru stórir (miðað við mína stærð...ég kenni fimleikum um) og það hefur haldist þannig á kostnað vinstra hnés en þar hafa vöðvarnir rýrnað það mikið að það munar um 1cm á ummáli. Þetta gengur óskaplega hægt og þess á milli hef ég verið hjá sjúkraþjálfara sem hamast við að losa spennu sem ég mynda jafnóðum með því að reyna að taka á. Þetta er allt samkvæmt fyrirmælum læknis og sjúkraþjálfara svo ég er að gera allt rétt.

Það sem hins vegar er að trufla mig er sársaukinn við að fara upp og niður stiga. Það er enn þá sárt og ég haltra við það. Ég get heldur ekki lyft fætinum beint upp. Ég sagði við lækninn minn góða að ef ég gæti mælt bata á mælistiku væri mér að batna um 1 mm á mánuði. Hann horfði áhyggjufullur á mig og spurði um kvarðann..."Kílómetri eða metri?". Honum var létt þegar ég sagði metri og spurði mig hvar ég væri stödd á stikunni. "Svona í 60 sentimetrum" sagði ég. Stundum fer ég til baka nokkra millimetra (eins og þegar ég tek 12 klukkutíma tarnir í eldhúsinu eins og síðustu helgi) en fer svo aðeins áfram.  Það sem truflar líka er sin sem smellur í en ef hún hættir því ekki þarf að sprauta í sinina til að slaka á henni. Læknirinn er ekki viss um hvers vegna hún lætur svona en á meðan mér er ekki illt, þarf ekki að gera neitt. Það sem sagt smellur frá mjöðm og alveg niður í hné sem er svolítið pirrandi en ekki sársaukafullt. Kannski get ég næsta sumar farið á hestbak eða í göngur en ég ætla ekki að lofa sjálfri mér neinu. Hnéð má ekki enn þá hanga í lausu lofti (get ekki lyft fætinum beint upp t.d. frá stól) eða vera óstutt og hreyfast óreglulega eða fá á sig „högg“ (eins og á hestbaki) og ég er hrædd um að ég myndi svindla og nota hægri fót meira en vinstri ef ég færi að labba. Það má alls ekki. Ég finn líka að kuldi leggst alveg hroðalega illa í mig, ég stífna upp og mér verður illt við minnstu hreyfingu sem gerir bæði göngur og það að fara á hestbak erfitt (nema yfir hásumar og í góðum fötum). Sem segir mér að líklega er einhver slitgigt að byrja því sama ástand er í kjálkanum. Það segir mér líka að ég þurfi nauðsynlega að komast til heitra landa...t.d. Afríku he he...Ætli sé hægt að skrifa upp á þannig lyfseðil fyrir mann? Vildi óska þess. En ég ætla ekki að grenja yfir þessu eða kvarta...svo lítilvægt.... því ég get unnið, hreyft mig, borðað (svona flest a.m.k.) og stússað í eldhúsinu. Meira get ég varla beðið um.

Ég verð bara að segja að við á Íslandi eigum örugglega bestu sjúkraþjálfara heims. Ég var hjá sjúkraþjálfurum í London en þeir komu ekki í hálfkvisti við þekkingu og færni þeirra íslensku. Eða það er mín reynsla. Læknar eru frábærlega klárir í sínu fagi yfirleitt og auðvitað en eins og ég hef upplifað þá er lítill bati ef sjúkraþjálfarann vantar, sérstaklega eftir aðgerðir. Ef ég hefði ekki verið dugleg í sjúkraþjálfuninni væri ég líklega komin í aðra aðgerð eða rúmliggjandi.

Það besta? Ég hef gert þetta ALLT án verkjalyfja. Ég hætti að taka þau inn á 10. degi eftir fyrri aðgerð og 11. degi eftir seinni aðgerð þrátt fyrir að ég ætti 2ja mánaða skammt í bæði skipti. Ég hætti að taka þau inn eftir að ég var farin að kasta upp í sólarhring og endaði með magasár. Þá sagði ég hingað og ekki lengra, fékk mér myntute, beit á jaxlinn og bölvaði og ragnaði í gegnum þetta. Nú er bara að fylla heilan metra af bata..!!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

gestur
10. des. 2008

Bara segja "þú ert ótrúleg" þú hefur hörkuna úr föðurætt !!!!!

Kv. M.

Elisabet
11. des. 2008

Hmm ætli það væri tekið gilt ef ég skrifaði upp á svona seðil fyrir þig "verður að vera í Afríku næstu 6 mánuðina eða svo" ??? Bara spyr... er sko alveg til..

Kraftakveðjur til þín frá mér sem á að vera lærandi. 1 to go :-))

Lisa Hjalt
11. des. 2008

Happy 60!

Gætirðu þá látið þennan lækni skrifa upp á það líka ég eigi að koma með?!! Alveg til í 6 mánuði eins og Elísabet stingur upp á hér að ofan ;)

Sigrún
11. des. 2008

Líst vel á að fá fylgd samkvæmt læknisráði stelpur he he.

gestur
11. des. 2008

það er skrifað upp að fara til Spánar fyrir exemsjuklinga það var allavega.

Spurning með þig. Kv. M.