Ódýra uppskrift vikunnar #5: Grjónagrautur

Grjónagrautur

Grjónagrautur

Hollustueiginleikar: Í sumum heimshlutum þýðir það "að borða" einfaldlega "að borða hrísgrjón". Sem sýnir mikilvægi þessarar látlausu en mikilvægu fæðu. Það er gott að hafa í huga að hýðishrísgrjón (Brown rice) eru töluvert hollari en þau hvítu og til dæmis hverfa 67% af B3 vítamíni, 80% af B1 og 90% af B6 vítamíni, 50% af manganese, 50% af fosfór og 60% af járninu ásamt trefjunum og nauðsynlegu fitusýrunum úr grjónunum við það að hreinsa þau og gera hvít. Þess vegna eru hvít hrísgrjón oft vítamínbætt með þessum ofangreindum vítamínum og snefil/steinefnum sem auðvitað er ekki það sama og að fá þau úr fæðunni. Snefilefnið manganese hjálpar til við að nýta orku úr próteinum og kolvetnum og aðstoðar við samsetningu á fitusýrum sem skipta máli t.d. fyrir taugakerfið sem og fyrir framleiðslu á góða kólesterólinu. Manganese er einnig mikilvægur hluti af andoxunarensímum sem kallast superoxide dismutase. Þeir sem eiga á hættu að fá ristilkrabbamein ættu að borða hýðishrísgrjón vegna trefjanna. Einnig skipta hýðishrísgrjón máli fyrir fólk sem er með of háan blóðþrýsting sem og konur á breytingaskeiðinu sem hafa of hátt kólesteról í blóðinu…Brún grjón og annað heilt korn á einnig að minnka hættuna á sykursýki II……og þið hélduð að grjónagrautur væri bara grjónagrautur!!!!!! Fyrir utan grjónin fáum við kalk og prótein úr mjólkinni (hvort sem við notum möndlumjólk, sojamjólk eða venjulega mjólk) svo allt í allt er grjónó hin besta fæða fyrir okkur.

Grjónagrautur er afar ódýr fæða en um leið seðjandi og hitar manni alveg í gegn ef manni er kalt. Grjónagrautur er líka eiginlega það eina sem ég bið Jóhannes um að elda því hann er mun klárari í að búa hann til en ég…Við hins vegar heyjum stríð í eldhúsinu þegar grauturinn er alveg við það að verða tilbúinn því ég vil SJÓÐA mjólkina með grjónagrautnum og hann vill setja RÚSÍNUR út í (oj…þó mér þyki þær annars góðar) og svo vill hann setja kalda mjólk út á (aftur oj)….svo við þurfum alltaf að gera tvær útgáfur af grjónagrautnum svona í lokin. Það er allt í lagi og við náum að borða matinn án þess að kála hvoru öðru he he.

Afgang af grjónagraut má svo nota í t.d. lummur og margt fleira gómsætt.

Fyrir 2

Innihald:

  • 1 bolli hýðishrísgrjón. Athugið að ef ykkur líkar ekki áferðin á hýðishrísgrjónum getið þið keypt Brown River Rice grjón sem eru mitt á milli hvítra og hýðishrísgrjóna í áferð
  • 1 bolli vatn
  • 1/2 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 3 bollar mjólk (hægt er að nota léttmjólk en nýmjólk er yfirleitt notuð). Einnig má nota möndlumjólk eða haframjólk.
  • 2 lúkur rúsínur (ég nota þær aldrei eins og áður hefur komið fram. Amen)
  • 1 tsk rapadura hrásykur
  • 1/2-1 tsk kanill

Aðferð:

  1. Hellið grjónunum í pott.
  2. Hellið vatninu yfir og saltið.
  3. Hafið lokið á pottinum.
  4. Látið sjóða þangað til allt vatn er gufað upp (í um 20 mínútur).
  5. Hellið mjólkinni út í og látið malla með lokinu á í um 40 mínútur eða þangað til grauturinn hefur þykknað mikið.
  6. Hér eru rúsínurnar settar út í (fyrir þá sem eru kreisí og nota rúsínur í grjónagraut) og þær mýktar í svona 5 mínútur.
  7. Setjið aðeins meiri mjólk og svo fer eftir því hvað þið viljið hafa grautinn þykkan hversu lengi þið látið hann malla. Mér finnst best að hafa vel fljótandi af heitri mjólk yfir grautinn en það er smekksatriði. Ég helli sem sagt um 1 dl af mjólk yfir grautinn rétt áður en hann er borinn fram og læt nánast sjóða en Jóhannes vill hann hnausþykkann og hann setur kalda mjólk út á (það er ekki hægt að breyta karlmönnum með sumt...það er alveg víst).
  8. Blandið rapadura hrásykrinum og kanilnum saman og setjið út á ef þið viljið.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Fanney Dóra
10. des. 2008

Aldrei hef ég smakkað grjónagraut úr hýðishrísgrjónum! Ætla að testa þetta í kvöld, enda þau grjón muuuuun bragðbetri en útþynntu hvítu grjónin! :D Takk, enn og aftur!

Fanney Dóra
11. des. 2008

Ókei... það verður ekki aftur snúið! Grauturinn heppnaðist gríðarlega vel og mér fannst hann mun betri en sá hefðbundni! Snilld! :)

Sigrún
11. des. 2008

Frábært Fanney Dóra og ég er alveg sammála, finnst hann betri svona :) Takk fyrir að láta vita :)

laufey
17. des. 2008

Sammála, síðan ég var krakki hef ég alltaf fengið grófan grjónagraut (helst með rúsínum!) og mér finnst hann margfalt betri en hinn.. vil hann alveg mjúksoðinn og með kaldri mjólk... og lifrarpylsu ;)