One Pot Wonder

Útilegunúðlur
Það hefur tvisvar sinnum komið fyrir á ævinni að ég hef misskilið sjálfa mig alveg svaðalega (kannski hefur það gerst oftar en ég veit þá ekki um það)..... Þetta eru svona andartök sem maður rifjar upp aftur og aftur í forundran. Annað skiptið var þegar ég var í framhaldsskóla og var að skila af mér verkefni. Verkefnið átti að vera um bók sem við lásum. Við áttum að túlka söguna út frá okkur sjálfum. Ég á mjög auðvelt að með að lifa mig inn í frásagnir fólks, sérstaklega í bókum. Þetta tímabil rennur þó svolítið í móðu hjá mér því ég var mjög upptekin. Ég átti hesthús (með yngri bróður mínum) sem ég rak sjálf og hesta sem kostaði mikið, átti bíl, var í vinnu, líkamsrækt, í skóla sem ég borgaði sjálf og auðvitað á fullu í hestunum. Sumir dagar byrjuðu 4 á morgnana í vinnu og enduðu á miðnætti með heimalærdómi. Ég þarf víst ekki að taka fram hversu þreytt ég var og er held ég enn því þetta var allt of mikið.

Ég er mjög samviskusöm og af því að einu sinni var ég alltaf með slæmt mígreni hef ég alltaf haft "mígrenisfyrirvara" á öllu sem ég geri. Ef ég á að skila af mér verkefni á miðvikudegi, klára ég það á þriðjudegi og á einn dag til vara. Með mikið breyttu mataræði, hreyfingu og reglulegum svefni hvarf mígrenið en ég hef samt alltaf fyrirvarann á enn þann dag í dag enda er bara um góð vinnubrögð að ræða. Ég skila aldrei neinu af mér á síðustu stundu nema ef eitthvað alvarlegt kemur upp á. Það átti einmitt við um þetta verkefni sem ég gerði. Það gekk allt á afturfótunum þessa viku sem ég var að skila af mér verkefninu, einhver hestanna var veikur, mikið af prófum, þreyta og vöðvabólga og mígreni að gera út af við mig o.s.frv. Ég settist kvöldið áður en ég átti að skila verkefninu og byrjaði. Ég mundi bókina vel og fannst hún góð. Ég lokaði augunum og hugsaði augnablik um þær aðstæður sem söguhetjurnar voru í. Ég skrifaði sleitulaust í nokkra klukkutíma og fór svo að sofa. Ég las ekki einu sinni verkefnið yfir og ákvað að hér eftir myndi ég setja mér viku "mígrenisfyrirvara".... (sem reyndar var of erfitt í framkvæmd). Mér fannst frammistaðan ekki góð því ég lagði akkúrat ekkert á mig.

Daginn eftir átti ég að lesa upp fyrir framan bekkinn það sem ég hafði skrifað. Af því að ég er sérlega ófélagslynd þekkti ég ekki neinn í bekknum voðalega mikið. Enda átti ég ekki mínútu aflögu fyrir félagslíf. Ég fór því upp fyrir framan bekkinn með semingi og var með hálflokuð augun vegna þreytu og úrill eins og alltaf á morgnana (hefur ekki breyst). Ég byrjaði að lesa og las í a.m.k. 20 mínútur. Eftir lesturinn var dauðaþögn og allir voru að horfa á mig. ALLIR og án þess að segja eitt orð. Ég gleymi því aldrei að ég heyrði mjúkt strokleður detta í gólfið frammi á gangi. Ég vissi að þetta var strokleður því ég þekkti hljóðið vel. SJITT hugsaði ég...Djöfull hef ég klúðrað þessu....og ég varð vandræðaleg. En viðbrögð kennarans voru akkúrat á hinn veginn og eftir smá stund braust fram mikið lófaklapp.....ég settist furðu lostin við borðið mitt og skildi ekki neitt í neinu...höfðu þau ekki hlustað á fyrirlesturinn? Hvað var ég a misskilja hérna? Voru þau að gera grín að mér? Einkunnin sagði mér síðar að svo var ekki. Það sem kennarinn hafði skrifað á verkefnablaðið var eitthvað sem ég á eftir að geyma til æviloka. Ein af furðulegustu upplifunum ævi minnar. Ég hef aldrei átt erfitt með að skrifa og skrifa yfirleitt of mikið en of lítið (eins og þið hafið eflaust tekið eftir) þó magn sé ekki sama og gæði he he en þetta kom mér samt algjörlega á óvart.

Seinna skiptið var nú kannski ekki svona ýkt. Það var fyrr í vetur að Jóhannes sendi mér slóð að uppskriftasamkeppni fyrir útivistarfólk. Ég átti uppskriftir sem ég hef oft notað á fjöllum tilbúnar á vefnum mínum svo ég ákvað að henda þeim inn í keppnina...einmitt með hálfum hug því Jóhannes sagði að í öllum keppnum á þessari síðu væri gríðarleg þátttaka. Ég var búin að steingleyma að hafa tekið þátt. Síðasta sunnudag var ég að skoða tölvupóst í símanum mínum...einmitt á fjöllum og sá þá að ég var vinningshafi í Alpkit One Pot Wonder samkeppninni....Áskorunin fólst í því að elda 3 rétti með einum potti...(ekki alla í einu auðvitað) sem er nú ekki mikið mál enda hef ég oft gert það sjálf í gönguferðum á fjöllum. Þeir sem þekkja mig vita að ég snerti aldrei keyptan útilegumat því hann er í flestum tilvikum ekki mikið hollari en pakkningarnar utan af honum.... Í þessa samkeppni þurfti ég að skila forrétti, aðalrétti og eftirrétti. Ég varð auðvitað voðalega glöð að vinna...alltaf gaman að vinna eitthvað og fá viðurkenningu fyrir vinnu sína og svo hlýt ég líka pottasett fyrir útivist að launum. Á myndunum sjást þessir gaurar vera að elda matinn minn á fjöllum sem er ferlega fyndið.

Viðbrögðin hafa samt verið ótrúlega fyndin því þau komu flest frá karlmönnum sem þóttu þetta alveg stórkostlegt afrek (bæði innlendir og erlendir vinir mínir sem hafa ekki endilega mikið velt fyrir sér matargerð áður og finnst matur bara vera bensín). Fyndnust fannst mér samt viðbrögð eiginmannsins en Jóhannes var að springa úr monti (og er enn)....fannst þetta virkilega kúl og alveg stórkostlegt. Þetta "kúl" er alveg að fara fram hjá mér en fyrir þá sem þekkja þessa vefsíðu segja að hún sé svona vefsíða fyrir útivistarnörda nr. 1,2 og 3. Ég hef sjálf aldrei fyrr skoðað hana. Þar sem Jóhannes er útivistarnörd og er eiginlega með áráttu finnst honum þessi verðlaun eins og að fá óskarsverðlaunin..eða Nóbelsverðlaunin (liggur við)....Jóhannes skoðar allt um það sem er að gerast í bransanum, veit upp á hár hvað allir bakpokar frá öllum merkjum heita, hvaða eiginleikar hver einasti regnjakki hefur frá öllum merkjum, hvaða skór fengu hæstu einkunn í prófunum, hvaða pottur er léttastur en samt bestur....o.s.frv....Það er fátt sem hann veit ekki um útivist og þá aðallega græjur og er eins og gangandi uppflettirit. Þannig er það með marga í kringum hann.

Matur skiptir yfirleitt miklu máli á ferðalögum og þó ekki sé um að ræða veislu þá þurfa allir næringu. Eftir að hópur með Jóhannesi kom niður af Kilimanjaro eitt sinn spurði ég þau hvernig hefði verið "...Stórkostlegur matur" sögðu þau hvert á fætur öðru..."Ok.....en hvernig var útsýnið.. og að standa á hæsta frístandandi fjalli í heimi?" "Æðislegt...en maturinn var frábær" svöruðu þau og ég var orðlaus. Innfæddir kokkar eru ótrúlega snjallir við að galdra fram góðar veislur úr engu og hetja ferðarinnar var kokkurinn Joseph!

Þetta var nú langur inngangur að því að segja að ég vann uppskriftasamkeppni...mér dettur helst í hug að þeir hjá Alpkit hafi vorkennt Íslendingi og ákveðið að pottasett kæmi sér vel í örbirgðinni sem hér á að ríkja. Jóhannes er hins vegar sannfærður um hæfileika mína á fjöllum og hann svo sem hefur fengið að smakka á öllum uppskriftunum og fullyrðir að ég sé vel að sigrinum komin. 100 voru í undanúrslitum og á að gefa út uppskriftabók skilst mér. Ég er bara ánægð með að vera "kúl" í augum Jóhannesar sem nú kallar mig "Sigrúnu One Pot Wonder Woman".

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
19. nóv. 2008

Til lukku :)

Hljómar svolítið eins og Sjóðríkur Seiðkarl hehe

gestur
19. nóv. 2008

Til hamingju, kannski hefur þu eldamennskuna frða mömmu þinni !!

KV. M

Oddný
19. nóv. 2008

þú ert kúl! til hamingju:)

Lisa Hjalt
20. nóv. 2008

Ég var búin að senda stolt-kveðjur en eftir þennan lestur þá vil ég fá að vita hvað þessi kennari skrifaði á blaðið!

Sigrún
20. nóv. 2008

Æi Lísa ég er búin að monta mig of mikið...fólk fer að fá ógeð he he...

Elisabet
20. nóv. 2008

Ji en gaman, Til lukku með þetta. Ekkert smá skemmtileg færsla...

Jóhanna
22. nóv. 2008

Flott hjá þér. Til hamingju :-)

Alma María
01. des. 2008

Glæslilegur árangur Sigrún. Til hamingju. Ég iða í skinninu eftir að byrja að baka þessar hollustujólakökur. Dóttir mín suðar og suðar um piparkökur svo það verður afrek ef mér tekst að gera þær hollar.

Sigrún
01. des. 2008

Takk Alma mín

Þú gætir prófað þessar: http://cafesigrun.com/uppskriftir/?ufl=2#uppskrift_433

Ef þú ætlar að gera piparkökukarla þarftu að sleppa vínsteinslyftiduftinu (nota bökunarsóda í staðinn) og baka á 180°C í 10 mínútur.

Smári
07. des. 2008

Sæl Siss, ég held að sigur í samkeppninni sé nú heldur minna en að fá WONDER WOMEN titil, buin að vera draumur þinn frá 4 ára í Canada!!! kv Brói