Kreppublogg

Ég er búin að byrja 100 sinnum á bloggi en er voðalega andlaus...ég lofaði nefnilega sjálfri mér að blogga ekki um fjármál né ástandið í þjóðfélaginu. Komst svo að því að það er voða lítið annað sem fólk talar um. Það væri því asnalegt t.d. að blogga bara um banana og blóm á meðan allir hafa áhyggjur af peningum. Svo þetta verður kreppublogg.

Ég ætla að taka svo djúpt í árina að þegar þessu öllu linnir og Ísland marar ekki lengur í hálfu kafi, þá öðlast þjóðin skilning á öðrum gildum en ríktu á þessum góðærisárum. Við vorum nefnilega, sem þjóð orðin svolítið firrt. Við erum að fá að kenna á því eftir að þeir sem ráða hér á landi fengu að leika lausum hala....með þessum afleiðingum. Ég geri mér ekki enn þá grein fyrir hverjum er um að kenna en líklega eru hér margir sem koma við sögu. Ég er virkilega ósátt við að búa í landi þar sem laun fólks lækka en aðföng eins og matur og nauðsynjar hækka. Það er eitthvað VERULEGA mikið að í svoleiðis þjóðfélagi. Við erum eins og litlir maurar sem verið er að trampa á....áfram höldum við samt og þrælum fyrir yfirmaurana.

Við Jóhannes tókum reyndar ekki að neinu leyti þátt í þessu brjálæði sem var í gangi og erum því ekki að súpa seyðið núna....Ég er ekki að meina fólk sem er að missa vinnuna...því það getur engu ráðið um aðstæður þegar svo er. Ég er að meina þetta með að kaupa stærra sjónvarp, dýrari bíl, flottari sófa, stærra húsnæði o.s.frv.  Þegar maður "þarf" það ekki. "Þörf" er svo aftur eitthvað sem er erfitt að skilgreina fyrir hvern og einn enda svolítið huglægt.

Þegar við fluttum heim frá London fyrir 1,5 ári síðan fór ég fljótlega að dauðskammast mín fyrir að "endurfjármagna ekki eitthvað". Það voru allir að því og allir að spyrja okkur hvenær við ætluðum að "endurfjármagna"....t.d. gætum við tekið baðherbergið okkar í gegn. Hmmm...við skoðuðum málið og söfnuðum fyrir nýjum sturtuhaus og blöndunartækjum frá Húsasmiðjunni, máluðum klefann, keyptum sturtuhengi og létum það duga. Það skal duga þangað til við höfum safnað fyrir nýju baðherbergi. Sófinn okkar er líka ljótur og gamall (höfum átt hann síðan við keyptum fyrstu íbúðina okkar og keyptum hann þá notaðan)...Ég ætla ekki að segja ykkur hversu oft við höfum afsakað ljóta sófann okkar. Valið stendur nefnilega alltaf á milli þess að leggja fyrir ferðalagi, baðherbergi eða nýjum sófa. Ferðalagið verður alltaf ofan á....Þegar ég sit í ljóta sófanum skoða ég gjarnan myndir úr síðustu ferð (Rwanda, Uganda, Kenya og Tanzanía, Górillur, flúðasigling, safarí). Ég stend þ.a.l. yfirleitt alsæl upp úr sófanum.

Við gætum alveg átt stærra húsnæði en þurfum ekki. Við gætum átt flottari sófa en þurfum ekki. Við gætum átt sjónvarp en þurfum ekki. Við gætum hent öllu út úr baðherberginu en þurfum ekki. Þurfum það ekkert meira núna en fyrir 1,5 ári síðan þegar við vorum hvað mest púkó yfir að vera ekki með ble ble sturtuhaus frá einhverju ble ble merki. Fólki er þó í sjálfsvald sett hvort það eyðir peningum í þetta dót og allt í besta lagi ef það telur sig þurfa og hefur efni á því, hið besta mál. Það er hins vegar nóg fyrir okkur að komi heitt vatn úr okkar ómerkilega sturtuhaus.

Það sem ég skil hins vegar alls, alls ekki er þessi ofboðslega keyrsla, þensla og þessi asi sem hefur verið á öllu síðustu árin. Raðhús, einbýlishús og blokkir í öllum móum, stærsta leikfangabúð Evrópu, stærsta byggingavörufyrirtæki Evrópu...þurftum við þetta? Ég les líka í fjölmiðlum að nú megi ekki vinna yfirvinnu, fólk eigi að fara heim á skikkanlegum tíma, og að EKKI MEGI VINNA LENGUR Á NÓTTUNNI við nýja tónlistarhúsið við höfnina. Really? Þurfti virkilega að vinna á nóttunni? Ég sé Dani t.d. samþykkja svoleiðis brjálæði. Er ekki betra að sleppa yfirvinnunni...kaupa minna sjónvarp og eyða tíma heima? Urðum við eitthvað verulega firrt á síðustu árum? Svo sem jafn mikil firra eins og að standa í biðröð fyrir utan nýja verslunarmiðstöð þegar allir eru á kúpunni... Og for the record þá er ég innilega sammála Björku varðandi virkjanamál o.fl. Nú er komið gott og við eigum að einblína á það verðmætasta sem við eigum, náttúruna og frumkvöðla. Það er margt hægt að gera í staðinn fyrir álver.

Ég hef líka megnustu andúð á greiðslukortum þ.e. kreditkortum. Ég verð alltaf jafn fúl ef ég er neydd til að nota þau. Erlendis getur maður notað debetkortið sitt eins og kreditkort þ.e. sett t.d. mánaðarlegar greiðslur á kortið. Það mun ég sannarlega gera þegar ég get. Ég hef einu sinni á ævinni keypt eitthvað á visa raðgreiðslur. Ég á hlutinn enn þá og þykir reyndar mjög vænt um hann. Þegar ég hef tækifæri til mun ég leggja kortinu og aldrei framar nota það. Það er nefnilega innprentað í mig að ef mann langi í eitthvað, verði maður að safna sér fyrir því...ok, erfitt með húsnæði og svoleiðis stóra hluti en ég er að meina minni hluti.

Ég spái því sem sé að fólk (fjölskyldur) eigi eftir að föndra meira, fara oftar saman í göngutúra, hjólatúra, bíltúra, spila saman, hitta fjölskyldu og vini oftar en það gerði. Minni yfirvinna þýðir nefnilega minni tími og oft minni peningar en skemmtilegustu hlutirnir kosta ekki alltaf mikið.

Ég fór í Hagkaup í Kringlunni í hádeginu og taldi 13 jeppa á bílastæði neðri hæðar þ.m.t. 10 nýja Land Cruisera (5 mikið upphækkaða), 2 nýja Range Rovera og 1 Hummer...kreppa? Eða er ég eitthvað að misskilja allt saman?

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Alma María
31. okt. 2008

Heyr heyr. Ekki hægt annað en að vera sammála þér.

Annað. Ég fékk póst í dag sem hafði verið klipptur út úr blogginu þínu og sent sem fjöldapóstur. Einhver sem hefur verið hrifin af blogginu þínu um ímyndaða samtalið við afríkustrákinn þinn og sent það áfram. Ég var líka svo hrifin svo ég setti um daginn link úr mínu bloggi á þessa færslu þína.

Kær kveðja, Alma

CafeSigrun.com
31. okt. 2008

Ég er svo aldeilis hissa...er að heyra af þessari blessuðu færslu um víðan völl....gaman að því :)

Elisabet
02. nóv. 2008

Þegar ég keypti íbúðina mína í Borgarnesi fyrir rúmum þremur árum þá átti fólk ekki til orð yfir því að ég ætlaði ekki að gera hana "upp". Valið mitt stóð einmitt líka á milli þess að pissa í fallegra klósett eða fara til Hong Kong ein jólin, eiga fallegri eldhusinnréttingu (NB elda aldrei) eða fara til Kenya.............. þurfti aldrei að hugsa mig tvisvar um !!!!

Allar mínar ferðir um heiminn hafa sko verið þessi virði,,, þúsundfalt

Sigga
02. nóv. 2008

Tek undir með þér, ég held að margir hafi týnt sér í einkaneyslunni, það hefur verið svo auðvelt hingað til að fá neyslulán í bönkunum og sá hugsunarháttur að eiga fyrir hlutunum sem mann langar til að eignast hefur ekki átt upp á pallborðið undanfarin ár. Vonandi breytist það núna og vonandi fer fólk að hugsa um það sem raunverulega skiptir máli í þessu þjóðfélagi.

Jóhanna
03. nóv. 2008

Gott blogg. Mjög gott blogg :-)