Að líða dökkblátt

Ég verð að viðurkenna að ég er orðin mjög ringluð og algjörlega mettuð af fréttaflutningi, það mikið að allt er komið í einn hrærigraut. Ég fór að velta þessu fyrir mér í samhengi við liti. Ég hugsa mjög mikið í litum, enda myndlistarmenntuð. Samkvæmt sjónfræðingi í London er ég með PV sjón (Perfect Vision) og samkvæmt honum sé ég fleiri liti en aðrir vegna þess að sjón mín er betri en í 99% fólks. Sem ég er þakklát fyrir (enda er sjónin ekki á lánum þó hún eigi eflaust eftir að rýrna í gæðum með árunum...hún hverfur a.m.k. ekki í verðbólgu).

Þegar Jóhannes sér blátt greini ég a.m.k. svona 4-5 liti til viðbótar. Þetta er endalaus uppspretta karps á milli okkar því þegar ég bið hann um að rétta mér t.d. grænbláa bollann, sér hann bara bláan bolla og þvertekur fyrir að hann sé annað en blátt. Eitt sinn var ég stödd í heimahúsi þar sem húsráðandi sagðist hafa málað vegginn hvítan. Ég benti honum á að veggurinn hlyti að vera rauður undir þar sem birtan úr suðri sem er hlýrri en birta úr norðanglugga drægi fram rauða litinn og það væri jú vor....hann horfði lengi, lengi, lengi á mig og sagði svo "....ertu svona einhverf?". Ég gerði einu sinni þau mistök að biðja Jóhannes um að velja lit á vegg...liturinn átti að vera ljós-brún-gulur með hvítum undirtón. Ég reyndi þetta í gegnum síma og var með nákvæman lit í huga....Hann sagði á móti "...meinarðu svona hvítt?".. "Nei...(og endurtók litabeiðnina)"..."Meinarðu svona ljósgult?"...o.sfrv. þangað til ég gafst upp.  Jóhannes er svona týpískur karlmaður (frummaður) sem sér eiginlega bara frumlitina og nokkrar milli-útgáfur af þeim. Ekki það...það skiptir mig litlu máli þannig séð hvaða litir eru á veggjum en finnst ágætt að þeir séu í ljósari kantinum.

Mér líður oft "í litum"...mér líður t.d. mjög dökkblátt þessa dagana (svona eins og þegar blár litur verður of mettaður og dökkur þannig að hann verður ekki lengur spennandi og með ekki neinni dýpt). Mér líður þannig. Ég er ekki að meina svona blú (leið) heldur meira svona eins og gegnsósa. Mig langar til að setja smá grænt í bláa litinn, lýsa hann, skella jafnvel smávegis af gulu og jafnvel brúnum tón til að fá hann fallegan...lýsa hann með hvítu og setja smá klípu af ryðrauðum þannig að úr verði jafnvel sæblár sem mér finnst afar fallegur litur. Ég er mest hrædd um að mér eigi eftir að líða dökkbrúnt eftir nokkrar vikur eða jafnvel svart.

En já ringluð er ég vegna þess að ég veit ekki lengur hver stjórnar hverjum, hver ræður hverju, hver er að lána hverjum, hverjir eru að fara á hausinn og hvernig þetta endar. Einn góður punktur frá bróður mínum Borgari var þetta sinnuleysi gagnvart viðskiptavinum. Það er 0% endurgjöf til viðskiptavina. Hann hefur verið í viðskiptum við Landsbankann síðan hann man eftir sér. Ég líka. Ég er meira að segja með tveggja stafa reikningsnúmer í aðalbanka Landsbankans, Austurstræti. Síðasta laugardag sagði Elín svilkona mér að hún hefði séð útlendinga standa fyrir framan Landsbankann þar sem þeir voru að biðja vini sína um að taka mynd af sér með bankann í baksýn, flissandi.

Borgar nefndi að bankinn hefði ekki á NEINUM tímapunkti sent tölvupóst, bréf eða flutt formlegt ávarp til viðskiptavina sinna. Hann, eins og aðrir fengu að vita um málið daginn eftir að þetta gerðist. Þetta er auðvitað engin framkoma við trausta viðskiptavini. Hvað þá að glopra peningum þeirra eða ævisparnaði. Ég get ímyndað mér að almannatengslafulltrúi bankans hafi ákveðið að loka fyrir öll samskipti út á við þar sem nákvæmlega ekkert af því sem sagt hefur verið, hefur staðist. Á meðan bíðum við, þessi hrædda og týnda og jafnvel hataða þjóð og bíðum eftir "einhverju"...fáir vita samt hverju. Ég er bálreið yfir því að bílalánið mitt hafi hækkað umtalsvert síðan við keyptum bílinn (og nei ekki Range Rover he he). Það er samt enginn hjá bankanum sem segir mér hvers vegna staðan sé svona slæm, við hverju megi búast, hvaða áhrif þetta hafi til langs tíma, skamms tíma og hvaða ráðgjöf er í boði. Það væri almenn kurteisi en ég efast um að fólk viti nokkuð í sinn haus hvort eð er...og þar stendur hnífurinn í kúnni. Ekki einu sinni ráðamenn þjóðarinnar vita nokkuð í sinn haus. Mér líður dökkblátt á skipi sem er að sökkva. Það auðveldasta væri að blandast við blámann í hafinu en það þýðir ekkert að vola. Það eru tækifæri alls staðar eins og Hjalli félagi okkar bendir svo hyggilega á. Tækifæri til að blómstra og finna möguleika til framtíðar. Það er til svo ofboðslega mikið af hæfileikaríku og greindu fólki sem nú fær tíma til að sinna hugðarefnum og áhugamálum og úr verður eitthvað spennandi. Það þarf bara að finna fallega liti og blanda eitthvað úr þeim......

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elisabet
22. okt. 2008

Þú ert svo fyndin,, og hmm greinilega pínu einhverf líka..ha ha ha ha ha

gunnhildur
28. okt. 2008

sæl aftur ,

þegar ég las um bláa litinn þinn - dattu mér í hug bókin eftir daniel tammet , born on a blue day ? ..hefurðu lesið hana ? .kom til íslans fyrir nokkrum árum , einhverfur með ótrúlega hæfileika ...

Sigrún
28. okt. 2008

Já þegar þú nefnir það man ég eftir að hafa lesið um bókina fyrir nokkrum árum síðan...ætlaði alltaf að kaupa hana úti í London en fann hana ekki. Langar mjög að lesa hana...best að fara inn á Amazon og láta sig dreyma (allavega hægt að setja á óskalistann) :)

Jóhanna
29. okt. 2008

Þú getur ekki trúað því hvað ég var glöð að lesa þetta með litina! Ég sé einmitt alltaf fleiri litli en aðrir... og það er langt síðan ég fór að halda að ég kynni bara ekki litina! Haha :-D Ég hef bara aldrei heyrt um þetta áður og er því MJÖG létt að heyra þetta :-)

En ein spurning, alveg þessu óviðkomandi... og kannski smá kjánaleg spurning. En er vaselín óhollt? Æ þú veist, eru einhver efni í því sem geta skaða líkamann? Veit að það er ekkert paraben í því eða neitt svoleiðis, enda bara hreint efni. En veit í raun ekkert um vaselínið *roðn*

Nota vaselínið alltaf sem varasalva og svo sem handaáburð áður en ég ferð að sofa (virkar rosa vel!).

Kveðja,

Jóhanna

Sigrún
29. okt. 2008

Hæ Jóhanna

Ég veit svo sem ekki mikið um Vaseline en veit þó að þeir sem forðast 'ónáttúruleg' efni nota ekki Vaseline því petroleum jelly er búið til af efnafræðingum :) Það veldur þó aldrei ofnæmi eða neinu slíku....er bara ekki náttúrulegt (sama með glycol, isopropyl, benzene og paraffin).

Náttúrulegar snyrtivörur og alls kyns remidíur (ef maður kemst í þær) eru alltaf bestar.

Jóhanna
30. okt. 2008

Ahhh ég skil! Takk fyrir þetta :-D