Af pasta og blankheitum

Það var árið 2001 og við Jóhannes vorum að flytja út fyrir landsteinana í mastersnám, blaut á bak við eyrun. Við vorum búin að selja íbúðirnar okkar (áttum tvær litlar íbúðir þá), setja peninginn inn á bók og búin að pakka kössum í gám. Þetta var að okkur fannst, stórt skref. Við vorum að flytja til London og við vissum akkúrat ekkert í okkar haus. Við höfðum oft komið til London en það er ekki það sama að búa í borginni eða heimsækja hana sem ferðamaður. Við vorum skíthrædd um að eiga ekki krónu. Sú hræðsla reyndist vera rétt þegar á hólminn var komið. Við.áttum.ekki.krónu.

Við fluttum ekki inn til London til að byrja með heldur bjuggum við aðeins fyrir utan. Bærinn tilheyrði samt stór-London (Greater London Area). Samt ekki nóg til að ég skammaðist mín ekki fyrir póstkóðann....ég þurfti nefnilega að skrifa Middlesex en ekki London og ég grenjaði næstum því við tilhugsunina. Ástæðan fyrir því að við fluttum þangað fyrst var að skólinn okkar var nálægt og af því að í heilt ár þurftum við að vera límd við skólann, var þetta góður kostur. Við enduðum svo á því að búa þarna í tæp 3 ár í um 70 fm 3ja herbergja íbúð. Ekki hægt að kvarta yfir miklu svo sem en svona úthverfafílingur er ekki alveg okkar stemmning enda leið okkur grilljón sinnum betur í ys og þys London síðar meir.

Anyways...aftur í blankheitin. Við fluttum út í júlí 2001 og vorum búin að vinna eins og geðsjúklingar. Við höfum aldrei tekið námslán í gegnum allan okkar skólaferil og þurftum því að vinna mikið, sérstaklega þar sem við vorum í námi að kaupa íbúð (2), áttum bíl, hesthús, hesta og þurftum jú að borða. Á þessum tíma borðaði ég reyndar ekki samkvæmt "CafeSigrun fræðunum" (he he) því mér var alveg sama þó ég borðaði þurrt pasta (ósoðið). Matur var bara næring og ekkert annað fyrir mér. Ég var líka ALLTAF veik, fékk flensur hvað eftir annað, alltaf með hálsbólgu og endalaust með kvefpestir. Veislumáltíðir samanstóðu af soðnu pasta og pestói úr krukku. Við vorum jú skítblönk og það átti bara eftir að versna.

Við flugum sem sagt út og það byrjaði ekki vel. Við fórum með GO flugfélaginu sem var í gangi þá og komum ansi snemma morguns út til London. Við vorum búin að vera svefnlaus síðustu dagana fyrir flutninga og ákváðum að leggja okkur á hótelherberginu sem við áttum pantað. Herbergið var ekki tilbúið og við ákváðum því að eyða tímanum inni í London. Við tökum strætó en vorum svo þreytt að við steinsofnuðum bæði. Við vöknuðum loks upp, og vorum farin fram hjá stoppinu okkar. Við stukkum út úr strætó og glöð í bragði gengum við um í sólinni. Okkur fannst við alveg gorgous...að vera flutt til London. Þangað til ég ég snarstoppaði úti á miðri götu (þannig að fólk labbaði aftan á mig)...."Jóhannes....TASKAN". Jóhannes fölnaði upp og ekki að ástæðulausu. Í töskunni var: Öll kreditkort og debitkort okkar beggja, farsímar okkar beggja, vegabréf okkar beggja, ipod, lófatölva, gleraugu, glæný sólgleraugu, reiðufé (afmælispeningar) o.fl., o.fl. Sem betur fer er Jóhannes ekki þannig að hann æsi sig yfir hlutunum (ég hefði lagst í jörðina og farið að grenja ef hann hefði farið að skammast) og hann tók djúpt andann og byrjaði að hugsa. Í einfeldni minni hélt ég að ég myndi bara geta hringt í tapað fundið og að þeir myndu hafa samband við strætóbílstjórann sem myndi skila góssinu. Je ræt. Það var ekki alveg svo einfalt í 8 milljón manna borg. Dótið sáum við aldrei aftur og þetta var ansi mikill skellur fyrsta daginn í útlöndunum. Við áttum sem betur fer góða að heima á Íslandi sem ráðlögðu okkur varðandi tryggingamál, greiðslukort o.fl. Sumt var bætt en annað ekki. Við stóðum sem sé nánast allslaus í nýju landi. Við fórum heldur niðurlút upp á hótel og konan þar hlustaði á raunasögu okkar. Hún bauð okkur upp á tebolla (ráð Breta við öllu) og aldrei hefur tebolli smakkast eins vel og þá (fyrr en 6 árum seinna þegar nágranni bauð okkur upp á tebolla eftir innbrot í íbúðina okkar).

Eftir margra vikna redding og þvæling vorum við orðin ansi slæpt og þreytt. Við bjuggum hjá Svani bróður í Suður-Englandi í 10 daga, fórum til systur Jóhannesar í nokkra daga sem bjó í Danmörku og það var bara VISA, VISA, VISA enda áttum við ekkert annað. Við áttum sem sé hvergi heima og það er skrítin tilfinning. Loksins fundum við íbúð eftir mikla leit (og aftur reddingar frá fjölskyldu og fyrrverandi vinnuveitanda sem gat vottað fyrir okkur) og við fluttum inn. Við vorum í stórum mínus, dótið okkar ókomið og við vorum skííítblönk. Á sama tíma fengum við líka áætlun frá skattinum upp á rúma milljón sem gladdi okkur lítið (en var leiðrétt síðar). Það var sem sagt allt ómögulegt. Við gengum um götur London og horfðum inn á veitingastaði þar sem brosandi fólk var að borða dýrindis máltíðir. Við horfðum inn í búðargluggana á rúm, sængur og dýnur sem okkur langaði gjarnan að kaupa. Í þrjá mánuði áttum við 2 diska, 2 gaffla, 2 skeiðar, 2 bolla, pappakassa fyrir skrifborð og 2 garðstóla. Í rúman mánuð sváfum við á þunnum tjalddýnum (ég á loftsæng) með handklæði og föt yfir okkur. Hamingjan sem braust út þegar við keyptum okkur sængur var ólýsanleg. Mér fannst ég sofa með ský yfir mér. Hamingjan breyttist í tryllingslegan fögnuð við kaup á svefnbeddum (sem við notuðum síðar fyrir gestarúm). Að þurfa ekki að sofa á gólfinu var álíka mikil hamingja og að vinna stóran vinning í happdrætti. Ég veit að þetta hljómar svolítið eins og við höfum verið við dauðans dyr úr fátækt en það var nú ekki þannig. Við tímdum bara ekki að setja t.d. máltíðir á VISA og leyfðum okkur því ekki neitt slíkt. Við vorum skítblönk en ekki fátæk, mikill munur þar á.

Maturinn þessa daga samanstóð af því sem hægt var að fá í dós en reyndar aldrei neitt sem gat talist "óhollt" á venjulegan mælikvarða...meira svona eins og baunir í tómatsósu og svoleiðis, brauð, pasta o.fl. Brauð er nefnilega ódýrt og fyllandi (en ekki sérlega hollt eintómt og til lengdar). Nú svo vænkaðist hagur strympu og Jóhannes fékk vinnu (hann vann með skólanum og tók námið á 2 árum) og ég fékk vinnu eftir skólann. Úr þessu öllu saman rættist, ég fór að elda almennilegan mat loksins því úrvalið af góðu hráefni var stórkostlegt (það var þá sem ég opnaði CafeSigrun) og að lokum kom dótið okkar með gámi. Ég lofaði sjálfri mér því að taka út allt drasl (hafði svo sem ekki borðað sælgæti eða sykur síðan ég var 12 ára) og að maturinn yrði héðan í frá sem hollastur. Það var við eins og við manninn mælt, heilsan gjörbreyttist og við losnuðum við það sem flestir eru að berjast við á haustin og veturna.

Það sem fékk mig til að hugsa um þetta allt saman er sá fjöldi námsmanna (og þeirra sem búa tímabundið erlendis) sem er algjörlega að hengjast í þessu erfiða ástandi sem nú ríkir þegar fólk er að treysta á greiðslur í krónum til útlanda. Alveg hrikalegt. Mánuði eftir að við fluttum út í nám veiktist nefnilega krónan þannig að hún stóð í 155 en ekki 122 eins og hún hafði verið í langan tíma. Það var erfitt því við tókum út pening frá Íslandi og skerðingin var mikil. Ég veit ekki hvernig námsmenn eiga að fara að núna, sérstaklega ekki þeir sem eru með fjölskyldur...það er sama hvað þeir gera því staðan er slæm...hvernig sem á það er litið og hvað sem þeir gera. Vonandi fer ástandið að batna því þetta er ekki hægt...pundið komið í 200 krónur og krónan orðin verðlaus. Nú er að herða sultarólina, elda súpur til að frysta, nota grænmetisafganga í ofnrétti, kaupa grænmeti og ávexti á tilboði, nota frystikistuna, smyrja nesti o.fl., o.fl. Pointið er sem sagt. Þó að námsmenn séu að hengjast þurfa þeir ekki að lifa á núðlusúpum, ef ég hefði kunnað að elda þá eins og ég kann í dag og ef einhver hefði haft t.d. vefsíðu til að fylgja þá hefði þetta verið minna mál, ég bara kunni ekki að elda ódýrt, hollt og gott. Það er hægt að gera góðan mat úr nánast engu. Fyrir ykkur sem ekki hafið rekið augun í Ódýrt flokkinn þá er kannski rétt að benda ykkur á hann núna....kannski er einhver sem áður borðaði þurrt pasta sem núna getur eldað góðan pastarétt (og jafnvel slegið í gegn á stúdentagarðinum!).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
06. okt. 2008

Flott grein. Við lentum í svipuðu 2001 þegar við fluttum út. Vinnumissir eftir turnahrunið og vesen. Held að margir eigi eftir að kíkja í ódýra flokkinn þinn - ef þeir eru ekki á kafi að taka slátur :)

gestur
07. okt. 2008

'Eg kannast við svona, ég hef selt olflöskur til að eiga fyrir mat, handa 4 manna fjöldskyldu. að hafa trúlega nargir sögu að segja, en það er baera nuna eins og allir þurfi allt ekki láta neitt á móti sér.KV. M

gunnhildur
08. okt. 2008

takk fyrir hressandi lestur ! þið eruð dugnaðarfólk ! ég kannaðist líka við sumt frá mér -ferlega holllt fyrir mann að hafa þurft að klóra sig úr ýmsu - en eitt sem mig langaði að spyrja þig um - þannig er að eldri dóttir mín , 14 ára er hér í kuala lumpur í alþjóðaskóla og eitt fag kallast health - í næstu viku eiga þau að koma með einn hollan rétt og koma með uppskriftina - þar sem þú ert svona heilsugúru hjá mér , langaði mig að spyrja þig hvort ég mætti snara einni uppskriftinni yfir á ensku og dóttir mín léti krakkana fá ??

bestu kveðjur héðan ,

gunnhildur

Elisabet
08. okt. 2008

hmmm þar sem ég er nú ekki mikil eldabuska,, ætli ég verið farin að borða hrátt rússneskt pasta bráðum ??

CafeSigrun.com
08. okt. 2008

Gunnhildur: Alveg sjálfsagt mál :)

Elísabet: Nú er bara að bretta upp ermarnar, smyrja nesti, gera súpur og algjör óþarfi að borða bara þurrt pasta..lærðu af mínum mistökum svo þú verðir ekki alltaf lasin og kvefuð :)