Hvernig klósettpappír í Tanzaníu varð að málsverði á fínum veitingastað í Reykjavík

Það er smá saga á bak við þetta allt saman.

Við fórum til Tanzaníu síðasta febrúar (og reyndar Kenya, Uganda og Rwanda líka). Ég er yfirleitt sú eina sem er vakandi allan tímann þegar verið er að keyra langar leiðir (oft marga klukkutíma) á meðan hinir dotta eða jafnvel lesa. Það er nú gott og blessað en ég get ómögulega sofnað og tími ekki að missa af einni mínútu á ferðalögum. Ég horfi á allt í kringum mig, fólkið, skiltin, dýrin, landslagið, bílana, trén, ruslið...mér finnst ALLT merkilegt og tek myndir í gríð og erg. Þó ég sé úrvinda, tími ég ekki að loka augunum. Þó ég hafi komið til þessara landa (Kenya a.m.k.) töluvert oft síðustu árin þá finnst mér ég alltaf vera að koma í fyrsta skiptið og myndirnar í samræmi við það he he...þ.e. allt of margar. Jóhannes sagði mér svo í dag að athyglisgáfan hefði borgað sig...reyndar sagði hann þetta á msn: "klósettpappírinn þinn kom okkur út að borða (á fínum veitingastað hér í Reykjavík)". Eins og gefur að skilja var ég ENGAN veginn að fatta hvað elskulegur eiginmaður minn var að reyna að tjá sig um (stundum er hann svolítið abstrakt, enda heimspekingur og tölvunarfræðingur að mennt...sem flækir nú málið heldur betur)...svo stökk hann í burtu frá tölvunni á meðan ég var að reyna að skilja setninguna. Sem gekk ekki vel.

Eftir mikið hárlos (búin að reyta af mér hárið) kom Jóhannes til baka og útskýrði málið. Þegar við vorum í Rwanda síðast tók ég eftir skilti á húsi einu í Kigali (höfuðborg Rwanda). Á skiltinu stóð nafn fyrirtækisins sem Jóhannes vinnur hjá. Mér fannst það frekar fyndið og tók mynd. Nú við fórum um Uganda, Kenya eins og áður sagði og enduðum í Tanzaníu þar sem við vorum við rætur Kilimanjaro með Borgari bróður og Elínu að skoða hótel og fleira fyrir næstu ferðir. Hótelin voru reglulega fín og alltaf þegar ég sé góð salerni þá nota ég tækifærið...vatnsklósett eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér (og fleirum) í þessum löndum enda ekki alltaf fáanleg. Ég stekk á salernið og utan á klósettrúllunni sé ég nafn fyrirtækisins sem Jóhannes vinnur hjá....Ég var að fara að stinga rúllunni ofan í pokann minn en hugsaði mig svo um, kunni ekki við að stela heilli rúllu (enda í þriðja heims landi). Ég tek því pappírinn (glanspappír með nafnið í vondum bleikum og bláum litum) og sting honum samankrumpuðum í vasann. Ég kem út af salerninu og tek pappírinn upp úr vasanum. Jóhannes rekur upp stór augu og beinlínis orgar úr hlátri. Það var sem sagt þá sem Jóhannes sagði mér að sá sem gæti komið með mest absúrd mynd eða hlut sem á væri nafn fyrirtækisins myndi vinna verðlaun (held þau hafi ekkert að gera þarna í vinnunni hans). Pappírinn var því vel geymdur. Jóhannes sagði svo eftir að hafa farið með pappírinn að þetta væri sterkur kandidat í keppninni en ég steingleymdi þessu alveg. Í dag var tilkynnt um að vinningshafinn væri hvorki meira né minna klósettpappírinn frá Tanzaníu! Sem þýðir að við fáum fínt út að borða fyrir okkur tvö :) Það borgar sig að vera með athyglina í lagi :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
13. sep. 2008

Til hamingju! Frábær saga.

En ein spurning: Er nokkuð verið að bjóða ykkur á Argentína steikhús? ha ha ha

Ég veit, ég er búin að lesa yfir mig!

Sigrún
13. sep. 2008

Ha ha ha góð...nei nei, gjafabréfið er á Vox :) Þar er hægt að fá súpur og sushi a.m.k. (ekki eins gott sushi og mitt samt he he en allt sushi er gott í neyð)....Við erum samt alltaf í vandræðum með svona gjafabréf því oft er gert ráð fyrir víni og við verðum því að borða þangað til við fáum offituasma (því við drekkum ekki)...eða gera eins og við hugsum alltaf að sé sniðugt...að bjóða einhverjum með okkur til að dreifa 'álaginu' ;)

Elísabet
13. sep. 2008

ha ha ha !!! skemmtileg saga...

Takk fyrir mig, var virkilega gaman að hitta ykkur!!

Sigrún
13. sep. 2008

Sömuleiðis Elísabet, það var reglulega gaman að fá þig í heimsókn :)