Hárfínt

Ég: Jóhannes þú þarft að fara í klippingu...

Jóhannes: Já ég veit..hef bara aldrei tíma...

Jóhannes: Kannski að þú getir.......

Ég: Ég veit hvað þú ert að hugsa og svarið er NEI...

Jóhannes: En....

Ég: NEI. Þú veist hvernig það getur endað.....

Ég fór í klippingu og strípur um daginn (ég veit...ekki merkilegt). Eitthvað sem ég geri mjög reglulega því hárið á mér vex á ofurhraða (eins og neglurnar) og ef ég hressi ekki upp á hárið á mér lít ég út eins og skúringarmoppa á hvolfi. Í hvert skipti sem ég fer í klippingu til hennar Auðar hugsa ég alltaf um það þegar ég sit í stólnum hvað hárgreiðslufólk er upp til hópa flinkt í höndunum. Sérstaklega íslenskt.

Eins og þið vitið eflaust, þið sem hafið fylgst með hér á blogginu þá mæri ég London út í eitt. Það er samt eitt sem er algjörlega vonlaust við að búa þar....það eru hárgreiðslustofurnar. Þannig var nefnilega mál með vexti að við bjuggum eitt sinn í Harrow á meðan við vorum í Mastersnáminu okkar. Úthverfi sem við myndum aldrei búa í nema af því skólinn okkar var á næsta leiti. Við vorum þó svo heppin að Elva vinkona og Óli maðurinn hennar bjuggu í rúmt ár við hliðina á okkur sem gerði dvölina skemmtilegri. En nóg um það. Harrow hverfið er m.a. þekkt fyrir drengjaskólann fræga (Harrow Boy School) þar sem a.m.k. 7 af forsætisráðherrum Bretlands hafa numið (og árið kostar um 4-5 milljónir). Þar ganga kennarar um í svörtum skikkjum og strákpjakkarnir á heimavistinni ganga um í jakkafötum, með stráhatta á hausnum og spila krikket. Harrow Boy School var líka notaður í eitthvað af Potter myndunum (held þeirri fyrstu). Þetta var sem sé Harrow-on-the-Hill og þar bjó fullt af ríku og frægu fólki. Þar var líka hæsti punktur Londonsvæðisins og gott útsýni. Við bjuggum í South-Harrow sem var plebbalegra hverfi enda neðar í brekkunni. Þar bjuggu álíka margir og allir Íslendingar, sem sagt smábær. Í South-Harrow var alveg hellingur af Indverjum og voru þeir í meirihluta. Skýrir það afskaplega góða indverska veitingastaði sem við vorum dugleg að heimsækja. Eftir þetta þýðir ekki að draga okkur inn á hvaða indverska veitingastað sem er....Þarna voru líka indverskir markaðir og líkamsræktin sem ég fór í angaði öll af karrí og öðru kryddi því þangað fóru indversku konurnar í ræktina.

En aftur að hárgreiðslustofum. Þegar við fluttum út í nám 2001 hafði ég einna mestar áhyggjur af því hvernig ég ætti að hugsa um hárið á mér því ég VERÐ að komast í strípur og klippingu á 4-6 vikna fresti. Það er eitthvað sem ég leyfi mér í staðinn fyrir t.d. áfengi og sígarettur og skammast mín ekki baun fyrir. Hárið segir nefnilega margt um okkur......En þarna voru góð ráð dýr því það voru afar fáar hárgreiðslustofur í kringum okkur og standardinn afleitur. Hann var þó bara eins og á öllum breskum, venjulegum hárgreiðslustofum. Þessir staðir skiptast í tvennt eftir gæðum. Við erum með plebbastofur sem kosta samt formúgu með lítið reyndu hárgreiðslufólki og við erum á hinn bóginn með Paul Mitchel, Toni and Guy stofur eða álíka sem kosta um 20 þúsund krónur. Ekki alveg það sem námsmenn þola. Eftir langa leit fann ég eina hárgreiðslustofu sem ég var svona allt í lagi ánægð með þrátt fyrir okurverð. Ekki nóg með að maður borgi háa fjárhæð fyrir klippingu og strípur heldur er gefið mál að það eru 3 konur sem þurfa að setja strípurnar í, ein sem þarf að þvo og 2 sem þurrka og klippa. Samtals um 5-6 konur að vesenast í manni í um 3-4 tíma...eitthvað sem ein íslensk hárgreiðslukona/maður fer létt með á 1,5 tíma. Menntun hárgreiðslufólks er lítil og oft engin og hver sem er af götunni getur fengið skæri í hendurnar eftir smá "þjálfun". Eigandi þessarar hárgreiðslustofu var ferlega lummulegur karl með svona svart, krullað, blásið hár og gekk um í þröngum gallabuxum þó hann væri um 60 ára. Allar konurnar reyndu við hann og hann svaraði í sömu mynt. Þetta var óskiljanlegt scenario. Ein hárgreiðslukonan var eins og dragdrottning (með það mikið af farða), með aflitað hár niður á bak, appelsínugul af ljósum, þykkar, teiknaðar varir og alltaf í magabol þó hún væri um 45 ára. Heimsóknirnar voru alltaf eins og senur úr breskri sápuóperu.

Jóhannes aftur á móti getur nokkurn veginn látið klippa sig hvar sem er en er samt kreðsinn á hver klippir og hvernig. Hann er þó ekki með strípur sem gerir málið aðeins einfaldara.

Þá kemur að kjarna sögunnar (loksins). Jóhannes bað mig eitt sinn um að klippa sig. Við vorum alveg staurblönk svo ég sagði bara já já. Ég tók mér skæri í hönd og hugsaði með mér að þetta væri nú líklega ekki mikið mál (þetta virkar alltaf svo auðvelt hjá hárgreiðslufólki). Ég byrjaði....og klippti fullt. Það var hörmulega illa gert og mér fannst ég vera með garðklippur í höndunum, svo klaufsk var ég. Ég held áfram og eftir að hafa klippt Jóhannes í eyrun 2var-3var og stungið sjálfa mig nokkrum sinnum bað ég hann um að líta í spegil. "Hmmmm" sagði hann. "Ok kannski það lagist með litnum sem við keyptum" (ætlaði að lýsa það aðeins). Ég set litinn í og bíð í tilsettan tíma. Við skoluðum litinn úr og hann var ALLS ekki eins og á skælbrosandi, skandinavísku dömunni á pakkanum. Jóhannes var rauðhærður....illa rauðhærður. Nú voru góð ráð dýr...ekki gat maðurinn farið svona í vinnuna? Þó hann væri að vinna hjá Walt Disney, innan um allar teiknimyndafígúrurnar þá var þetta samt ekki málið. Hvað áttum við að gera eiginlega?..það var kvöld...engin hárgreiðslustofa opin og Jóhannes að fljúga á fund daginn eftir. "Hey Indverjabúðirnar eru opnar" sagði ég......Já góð hugmynd sagði Jóhannes...og við trítluðum niður löngu götuna. Í Indverjabúðinni voru alls kyns hárlitir en enginn ljós (sem við hefðum svo sem átt að vita fyrir...ekki margir ljóshærðir Indverjar). Við ákváðum þá að prófa að dekkja hárið aðeins...hafa það ljósbrúnt og þá væri dökkur hárlitur fínn ef við hefðum hann bara stutt í (jebb svona lítið vissum við um hárlitanir). Ok, og við keyptum pakka með indverskri, skælbrosandi, dansandi konu í sarí (litríku klæði) utan á. Við trítluðum heim og hófumst handa. Liturinn fór í og liturinn fór úr....næstum því. Við skoluðum og við þvoðum hárið vandlega en allt kom fyrir ekki...hárið var ljósgrænt með appelsínugulum/ljósbrúnum blettum í. Þegar við skoðuðum hárlitinn reyndist þetta vera Henna skol sem indverskar konur nota gjarnan í svart hárið á sér til að fá glans....Jebb....

Jóhannes horfði í spegilinn (alltaf jafn rólegur en var farinn að bíta fast í varirnar)....og sagði: "Held að sé best að við krúnrökum það bara". Þar fór það...ég hafði augljóslega ekki hæfileika á þessu sviði og ákvað að játa mig sigraða. Ég tók upp rakvélina (sem var sérsniðin fyrir hár) og byrjaði...ég gat ekki einu sinni rakað hárið almennilega af því ég er klaufi....ég hefði treyst mér til að mála hvert hár með pensli en þetta er bara alveg fyrir utan mitt hæfileikasvið. Jóhannes endaði því á að fljúga á mikilvægan fund með missítt, grænt hár með appelsínugulum blettum í, útklippt eyru....og derhúfu. Derhúfuna tók hann ekki af í nokkrar vikur.

Ég lærði margt á þessu....en eitt situr fast í mér. 1) Íslenskt hárgreiðslufólk er eitt það besta í heiminum (t.d. mjög eftirsótt í London) og er á sanngjörnu verði miðað við menntun og gæði. 2) Ég hef 0% hæfileika til að klippa hár....sem gerir spurninguna frá Jóhannesi í upphafi enn þá furðulegri miðað við það trauma sem átti sér stað.....sumt greinilega gleymist og fyrirgefst.....

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
05. sep. 2008

hahahha frábær lýsing. Fór einu sinni á Headmasters stofu í Chiswick og bað um Senior klippara. Hún klippti 2var í puttann á sér og þurfti að plástra sig. Og svo þarf að gefa þjórfé á öllum svona stofum í London, óþolandi alveg :p

Sigrún
05. sep. 2008

Ohhh já helvítis þjórféð...Þessar aumingjans stelpur sem þvoðu hárið þurftu alltaf að fá 1 pund eða meira (fyrir að þvo hár?)...einu launin þeirra held ég.

Það besta var að ég var alltaf spurð "Viltu hárnæringu?"...uuuu hvernig ætla þær annars að greiða 50 cm langt, blautt hár eiginlega? Ái...

Jóhanna
06. sep. 2008

Hahahahaha... æðisleg saga :-D

Elísabet
08. sep. 2008

ha ha snilld,, þegar ég bjó í Noregi var ekki að ræða að maður tímdi að fara á hárgreiðslustofu þar,, svo maður sá bara um þetta sjálfur, litaði mig sjálf og klippti sjálf að framan og svo klippti vinur minn mig að aftan,,, var svo spurð að því þegar ég komst loksins á hárgreiðslustofu hér heima hvort ég hefði farið í klippingu hjá blindrafélaginu :-)