Frá dýri til disks

Ég hef verið grænmetisæta í 10 ár. Áður en þið segið "ohh ein af þeim sem er alltaf að auglýsa það" þá er ég akkúrat andstæðan. Ég er grænmetisæta fyrir mig en ekki aðra. Ég minnist aldrei á það af fyrra bragði og er aldrei með yfirlýsingar um hvað brokkolí sé dásamleg fæða o.s.frv. Stundum get ég þó ekki annað en hrist hausinn og nöldrað.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég er grænmetisæta. Fyrst og fremst er um velferðarsjónarmið dýra að ræða. Ég þverneita að kaupa eða meðhöndla kjöt sem ekki kemur af dýrum sem átt hafa góða ævi. Margir hlægja að mér þegar þeir segja "ha...hænur...þurfa þær að vera hamingjusamar, djö...... vitleysa". Mér stekkur hins vegar ekki bros. Það hlýtur að vera siðferðisleg skylda allra foreldra að kynna fyrir börnum sínum hvaðan afurðin/maturinn sem borin er á borð, kemur? Eða mér finnst það skylda hvers foreldris.......dæmi hver fyrir sig. Önnur ástæða fyrir því að ég er grænmetisæta er sú að mér finnst kjöt ekki gott (enda orðin afhuga því), þriðja ástæðan er svo sú að kjötneysla meikar engan sens fyrir umhverfið. Á eftir bílum menga landdýr og þá helst beljur mest af öllu. Áður en þið segið mér að kjöt sé nauðsynlegt fyrir okkur þá getur vel verið að sumum finnist það (og ég nenni ekki að rífast yfir því) en það er þá krafa á móti að neytt sé dýra sem ekki hafa þolað illa meðhöndlum.

Eftirfarandi myndband "farm to fridge" sem Hrund vinkona mín sendi mér í morgun er ágætis kynning á meðhöndlun dýra til neyslu. Þeir sem séð hafa myndbandið verða flestir alveg miður sín (þ.m.t. Jóhannes). Myndbandið er ekki fyrir viðkvæma (og ég meina það). Ég er búin að rífast yfir nákvæmlega þessu í 10 ár hér á Íslandi en fáir hlusta, margir hlægja og enn aðrir fussa. Ég hef hringt í framleiðendur, ég hef bloggað óteljandi skipti um þetta, ég hef hvatt kjúklingabændur til að selja hamingjusamar hænur...en ég er bara lítil, mjóróma rödd.

Ég bið ykkur um að taka 10 mínútur og horfa á myndbandið. Ég er ekki með því að hamra á að fólk gerist grænmetisætur eða hætti að borða kjöt. Það eina sem ég bið um er að þið kannski íhugið hvaðan varan sem þið eruð að neyta kemur. Vitið þið í raun eitthvað um upprunann? Meðhöndlun á henni? Ég veit að fjöldaframleiðslan er töluvert meiri í USA en hér en ekki láta ykkur detta til hugar að t.d. kjúklingar (í stórum búum) lifi góðu lífi hér. Fyrir utan það að í hvert skipti sem þið kaupið t.d. matvöru í búðinni sem framleidd er í Bandaríkjunum sem inniheldur egg, mjólk, gelatín o.s.frv...megið þið vera viss um að dýrin sem þið eruð að borða afurðir af hafa hlotið svipuð eða sömu örlög og dýrin í myndbandinu. Ég bendi ykkur líka á bókina Fast Food Nation í því samhengi. Íslendingar hafa einhverja rómantíska hugmynd um að öll framleiðsla á kjöti hér á landi sé með hamingjusömum lífrænt ræktuðum dýrum án rotvarnarefna, án stera, án sýklalyfja, með fullt af plássi, nægri hreyfingu o.s.frv. Think again. Annað sem ég vil benda á líka er að samkvæmt þróuninni í landbúnaði hér á landi færist framleiðsla á kjöti í átt að magni en ekki gæðum. Það er töluvert áhyggjuefni.

Það eina sem ég vil er þetta (nú er ég ekki að tala beint til ykkar heldur allra Íslendinga):

  • Hugsið um afurðina sem þið eruð að fara að neyta. Vitið þið hvaðan dýrið kemur?
  • Hugsið um hvort þið viljið að börnin ykkar borði dýr sem hlotið hefur slæma meðferð. Hafið þið samvisku í ykkur til að segja þeim frá því?
  • Hvetjið þá sem selja kjöt (t.d. með því að senda tölvupóst) að bjóða upp á "hamingjusöm dýr" t.d. kjúklinga.
  • Ekki vera alveg sama.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Eva Dögg
25. ágú. 2008

Jesús, tetta er alveg hrædilegt!! og ég er svo sammála tér!! ...tessu er einmitt lýst vel í skinny bitch bókunum sem ad ég benti tér á!! Takk fyrir gott blogg, ísland tarf á fleirra fólki eins og tér ad halda :) ...tad fólk virdist bara oft flytja úr landi ;) hehehe

Jóhanna
25. ágú. 2008

OMG! Ég fór nú bara að gráta! Þetta er alveg hræðilegt! :-( Grimmdin... ég á bara ekki orð :-(

...

Ég heyrði eina fróðlega kenningu um helgina. Kanar eru þekktir fyrir að vera háskælandi yfir öllu (sbr. í spjallþáttum) - það er kannski ekkert skrítið þar sem kjötafurðirnar sem þeir borða eru stútfullar af hormónum og ógeði! Það hlýtur að valda einhverri hormónabrenglun hjá neytandanum!

Sigrún
25. ágú. 2008

Snilldarkenning Jóhanna...:)

Eva ég þarf að fara að kaupa bókina Skinny Bitch bókina...er alltaf á leiðinni.

elísabet
25. ágú. 2008

mér finnst þetta hræðinlegt. ég ætla að vona að meðferðin á dýrum hér i þýskalandi þar sem ég bý er ekki svona.

það er þó ekki farið svona með dýrin sem eru lífræn ræktuð, eða hvað?

CafeSigrun.com
25. ágú. 2008

Elísabet: Almennt er aðbúnaður dýra mun betri ef um er að ræða lífræna ræktun en það þarf þó ekki að vera samasemmerki á milli lífrænnar ræktunar og dýra sem eru 'hamingjusöm' (free range). Það er allt betra en hefðbundin 'verksmiðjuframleiðsla' á dýrum en til að vera alveg örugg er best að kaupa bæði "free range" og organic. Stundum eru afurðir með stimpil eins og "animal welfare standard" eða álíka og það kemur í staðinn fyrir "free range" þar sem það á við.

gestur
25. ágú. 2008

'Eg á ekki til orð yfir myndinni. Kv. M.

Asa
26. ágú. 2008

Úff - skelfilegt að sjá meðferðina á dýrunum. Las mjög svipaðar sögur í Skinny bitch bókinni. En ef við hugsum um verksmiðjuframleidda kjötvöru þá ætti þetta ekki að koma á óvart og hér innanlands eru sláturdýr flutt langar leiðir. Takk fyrir frábæra síðu Sigrún og að taka upp svona umræðu. Fer alltaf og skoða uppskriftirnar þínar og hugleiðingar þegar mig vantar innblástur. Kveðja, Ása

Lena
26. ágú. 2008

Er maður grænmetisæta ef maður borðar fisk? Ég sjálf borða nefnilega ekki kjöt en borða fisk. Og vil því ekki kalla mig grænmetisætu því fiskur er jú dýr, og því miður þá eru fiskar líka að fá hrottalega meðferð.. :( Langar alltaf ad gerast vegan, en það er bara meira en að segja það... :/

Sigrún
26. ágú. 2008

Lena:

Það er algengur misskilningur að til sé ein "tegund" af grænmetisætum (við erum bara ekki komin lengra á Íslandi en það að flokka alla sem borða ekki kjöt í einn flokk".

Erlendis er talað um:

Vegetarian=Grænmetisætur

LactoVegetarian=Grænmetisætur sem borða mjólkurvörur

OctoVegetarian=Grænmetisætur sem borða egg en ekki kjöt né fisk

Pescetarian=Grænmetisætur sem borða fisk.

Semi-vegetarian=Grænmetisætur sem borða aðallega grænmeti en stundum kjúkling og fisk (ekki rautt kjöt)

Vegan=Jurtaætur sem borða ekki neinar dýraafurðir (ekki heldur gelatin eða hunang) og nota engar dýraafurðir t.d. í húsgögn, fatnað o.fl.

Þú myndir flokkast sem pescitarian miðað við þetta. Erlendis má kaupa fisk sem er organic og free range en eins og með allt annað eru Íslendingar langt á eftir. Auðvitað er alltaf best að fara út með veiðistöng og fiska í soðið en það er því miður ekki alltaf hægt. Þá er betra að kaupa viðurkenndar vörur af þeim sem fara vel með dýrin. Til dæmis er bleikjan frá Fagradal þannig (skilst mér).

Korinna
02. sep. 2008

mér finnst svo flott að þú ert aldrei að gefast upp! mig langar mikið í hamingjusamar hænur þar sem til eru hamingjusöm egg ættu einnig að vera til þannig hænur. Ég borða stundum kjöt en helst lambakjöt og einnig borða ég fisk. Ég var lengi grænmetisæta og einnig vegan en ég á að viðurkenna að það fór frekar illa í mig.

Ég var að spá hvort gagnlegt væri að stofna samtök eða grúbbu á facebook til að ræða þessu mál þar en ekki endilega á einkablogginu þínu. Ef við gerum þetta saman og fáum fleiri til liðs við okkur gætum við kannski náð markmiðum okkur um betra meðferð búfés hér á landi.

CafeSigrun.com
02. sep. 2008

Já góð hugmynd...það er reyndar einn hópur sem heitir íslenskar grænmetisætur sem þú getur skráð þig á, á Facebook, ég setti einmitt tengilinn að myndbandinu þangað.

Ég spjallaði við Júlíus bónda á Tjörnesi um hamingjusamar hænur og það er ekkert því til fyrirstöðu að rækta þær (t.d. hjá honum) en það getur enginn slátrað þeim því það þarf einhverja sérstaka vottun (sem sláturhúsin hafa engan metnað í að fá sér)....glatað.