Leikföng og afmæli

Vá...það var bara reglulega heitt í dag þegar ég fór í labbitúr. Það heitt að ég gat lokað augunum og þóst vera í London, alveg þangað til eitthvað barn öskraði "Mamma mig langar í ÍÍÍÍÍSSSSSS"..... Það er alltaf gaman þegar ég held að ég sé í London, þó ekki sé nema nokkrar mínútur...og þá meira að segja læðist bros fram á varirnar.

Ég er ansi ánægð með að hafa farið í ræktina síðasta sunnudag...í fyrsta skipti reyndar síðan 14. maí. Það voru nú engin stórkostleg afrek framin svo sem en ég gat hjólað aðeins og labbað og þó ég þurfi að skakklappast aðeins upp og niður stigana þá er það í lagi. Ég er ánægð með að komast í ræktina loksins. Þarf bara að hlýða sjúkraþjálfararanum í einu og öllu og gera allt rétt frá byrjun. Vandamálið núna er að ég veit ekki hvort sársaukinn sem ég finn í hnénu er vegna fyrri aðgerðarinnar (15. maí) eða seinni (2. júlí).....svo ég þarf að fara varlega. Hnéð hitnar og bólgnar svo það er að sögn sjúkraþjálfarans greinilega ekki allt gróið  sem á að vera gróið. Það er vont að standa lengi (t.d. í eldhússtússi) og ég þarf að vera dugleg að gera æfingar til að halda liðleikanum. Það kemur mér svo sem ekki í gröfina svo ekki get ég kvartað.

Ég er líka ánægð með að komast í göngutúra og í svona hita (þegar liðirnir eru heitir og fínir) gera þeir mér gott. Þó að gamlar konur og karlar með göngustafi taki fram úr mér...það er allt í lagi. Mér liggur ekkert á. Ég hitti Jóhannes áðan á kaffihúsi...í afmæliskaffi (hann á afmæli í dag).....Mér er samt skapi næst að gefa honum enga afmælisgjöf því um leið og hann á afmæli tönnlast hann á því að nú sé ég ekki lengur með Toy Boy....Okkar ástríka samtal í gærkvöldi var svona:

Hey þú átt afmæli á morgun..... Jebb.....þú veist hvað það þýðir? Uuuuu þú verður eldri? Já...og þú ert ekki lengur með Boy Toy...og fram í apríl verðurðu ekki með yngri manni (leikfangi) heldur kalli. (Hann segir þetta á hverju einasta ári...veit ekki hvað hann heldur að hann sé). Asshole. Góða nótt Svít Sjíks.... smúch smúch.

Ef sumir halda að þeir fái afmælisgjöf er það misskilningur. Ég sem gerði afmælisköku......hrmffff.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
30. júl. 2008

Maður verður bara smeykur að lesa þetta því ef KARLINN fær ekki afmælisgjöf þá gæti hann tekið upp á því að setja rjóma og hvítan sykur í allar uppskriftir á vefnum. Er það ekki einmitt hann sem er með vefstjórnina?!!

Vona að hann hafi nú fengið eitthvað fallegt og að kakan hafi bragðast vel ;)

CafeSigrun.com
30. júl. 2008

He he nákvæmlega...verð að halda mig á mottunni...

Kakan kláraðist :)