Af göngutúrum og heilum páfagauk af parasetamoli
- Góðu fréttirnar eru þær að ég fór í göngutúr í gær.
- Slæmu fréttirnar eru þær að ég er með magasár.
- Góðu/slæmu fréttirnar eru þær að mér er svo illt í maganum að ég næstum því tek ekki eftir því ef mér er illt í hnénu.
Göngutúrinn var kannski ekki merkilegur en samt skipti mig miklu máli því ég hef ekki farið sjálf út fyrir hússins dyr nema upp í bíl síðan 15. maí síðastliðinn. Það er LANGUR tími fyrir aktíva manneskju. Ég labbaði ekki langt, bara um 500 metra eða svo en fékk samt harðsperrur sem er fáránlegt. Ég fór í bankann en hékk fram á afgreiðsluborð, gretti mig rosalega og hélt um magann. Ég var sveitt í framan og föl og strákgreyið fyrir aftan glerið spurði hvort að væri allt í lagi með mig. "Já já bara magasár". "Uuuuuuuu ok". Ekki mikið hægt að segja við því svo sem.
Ég hef minnkað mikið verkjalyfin því þau eru algjörlega að ganga frá maganum, búin að reyna allt til að stilla og róa magann en hann heldur áfram að vekja mig á nóttunni. Ég held um magann í svitabaði og trúi ekki að maginn geti látið svona við mig....ég sem er alltaf svo tillitsöm við hann. Nema þegar ég er að dæla í hann svona ógeði eins og sterk verkjalyf eru.
Ég reiknaði um daginn að ég væri búin að klára heilan páfagauk af parasetamoli. Hmmmm. Heilan páfagauk? Það var þannig að í gamla daga átti bróðir minn páfagauk (gára). Hann var gulur með rauð augu. Lítill og sætur. Hann sat gjarnan á öxlunum á manni og fiktaði í eyrnalokkum og hálsmenum, afskaplega glysgjarn eins og páfagaukar eru gjarnan. Hann var svolítið sérstakur því hann gat ekki flogið. Veit ekki hvers vegna. Hann bjó með bróður mínum í kjallaranum og búrið var yfirleitt opið því hann fór ekki neitt. Hann átti þó til að klífa ofan úr kjallara, alla leið upp stigann (gat krækt gogginum í teppið og híft sig upp) og upp á 1. hæð. Þar stóð hann másandi og pásandi fyrir framan tærnar á manni og mændi upp buxnaskálmina og að sjálfsögðu gat maður ekki annað en tekið hann upp á öxlina því annars endaði hann á því að klífa upp buxurnar og peysuna með litla gogginum sínum og alla leið upp á öxl. Sem er svolítið erfitt þegar maður er lítill fugl. Svo sat hann móður á öxlinni og breiddi út vængina. Þegar hann gerði það hlupum við með hann um alla stofu þannig að honum fyndist hann vera að fljúga. Við kölluðum hann Göngu Hrólf eða bara Hrólf. Parasetamolið kemur svo inn í hér (mjög óbeint samt) því eitt skiptið ákvað ég að vigta páfagaukinn. Ég er mjög forvitin um ýmsa skrítna hluti og varð að vita hvað hann var þungur. Hrólfur reyndist vera 50 grömm. Eftir það....ef eitthvað er 50 grömm segi ég gjarnan "já...páfagaukaþyngd" og enginn skilur mig (nema Jóhannes sem hristir samt hausinn). Dagar Hrólfs enduðu svo dálítið undarlega því hann labbaði í burtu og enginn sá hann aftur. Það sást ekki einu sinni fjöður eftir hann. Hann bara hvarf.
En já....ég er sem sagt búin að hvolfa í mig meira en 50 gr af parasetamoli á 2 vikum og öðru eins af mun sterkari verkjalyfjum og maginn er í uppreisn. Nú drekk ég ógeðsmeðal sem ég reyni að kyngja á meðan ég held um nefið. Það er vont að borða nánast allt. Ég er svona eins og í grínmyndunum, held grettin um magann og held svo næstu sekúndu um hnéð og koll af kolli.
Ég er samt mjög glöð að hafa farið í göngutúr og ég ætla að reyna að fara í fleiri næstu daga. Ég reyndi að fara í göngutúr síðasta laugardag....sléttaði á mér hárið, setti á mig gloss og sólgleraugu og hélt af stað með Jóhannesi út í sólina bjartsýn og jákvæð þrátt fyrir norðanáttina sem smaug innan um sumarfötinn (þannig að ég bölvaði hástöfum). Ég komst aðeins lengra en út götuna en þurfti þá að snúa við og ekki vegna kulda, þá var hnéð að stríða mér.
Úr einu í annað.......Ég er mjög spennt að tilkynna ykkur að nýr vefur Afríku Ævintýraferða sem við Jóhannes erum búin að vera að vinna að síðustu mánuði fer að verða tilbúinn. Við opnum hann vonandi mjög fljótlega. Læt ykkur vita.
Ummæli
22. júl. 2008
Ég er orðin svo meðvirk í þessu bataferli þínu að ég sjálf gríp bara um magann og engist þegar ég les svona lýsingar. Ætlar þetta engan endi að taka?!!
Baráttukveðjur úr austri.
23. júl. 2008
You go girl !!! Ein ferð út í dag þýðir fleiri næstu daga, það er á hreinu. Þú ferð sko ekki að leggjast í feld yfir svona, komin þetta langt.
Hlakka til að fylgjast með nýja vefnum, verður geggjað flottur
Vika, vika, vika, vika
23. júl. 2008
Þú stendur þig vel Sigrún. Veit að þetta er þrautaganga. Þú ert svo dugleg að þetta hlýtur að fara á besta hugsanlega veg. Og flott hjá þér að nýta tímann í eitthvað skemmtilegt og uppbyggilegt eins og þennan nýja vef.