Við fjallsræturnar

Þá eru liðnar 2 vikur frá seinni aðgerðinni og 2 mánuðir frá þeirri fyrri. Tíminn er fljótur að líða a.m.k. á dagatalinu. Verkjalega séð hefur hann ekki verið svo fljótur að líða. Maginn er búinn að vera á hvolfi, stanslausir verkir í hnénu og að vakna á hverri nóttu með sár í maganum sem lætur alveg vita af sér er ekkert grín.

EN nóg af kvarti. Ég hef síðustu svona 2-3 daga fundið mun á mér og það er mjög jákvætt. Ég get staulast um, farið upp og niður stiga (svolítið eins og útskeif belja) og get ekki lengur stillt klukkuna eftir verkjunum. Ég vissi alltaf nákvæmlega hvenær verkjalyfin voru hætt að virka en tek ekki eins mikið eftir því núna. Mestu munar þó um að geta unnið heima og gert æfingarnar sem eru sársaukafullar en algjörlega nauðsynlegar. Sjúkraþjálfunin setur svo punktinn yfir á-ið en er líka nauðsynleg enda eru sjúkraþjálfarar snillingar upp til hópa.

Margir hafa sagt við mig "jæja þá er það versta yfirstaðið" og "jæja nú er leiðin bara upp á við" eða "jæja nú er þetta búið". Ég vildi að málið væri svo einfalt. Þetta er búið að taka meira en 3 ár. Ég veit t.d. ekki hvort að aðgerð 2 af 3 (fyrir 2 mánuðum) hafi heppnast því það hefur ekki reynt á það enn þá. Ég veit ekki hvort ég á eftir að geta gengið á fjöll svo vel sé, hvort ég eigi eftir að geta hlaupið eða gert allt sem mig langar til almennilega. Kannski er ég ekki betur sett en áður en tíminn mun leiða það í ljós. Læknirinn sagði mjög skýrt í upphafi að það væri ekki víst að þessi aðgerð myndi laga neitt en að hann vildi taka sénsinn á því og ég var sammála enda búin að prófa allt annað. Mín tilfinning er sú að ég sé á sama stað en við sjáum til.

Það sem mér finnst samt alveg ótrúlegt er að þrátt fyrir innrás í líkamann m.a. uppskurðir og 2 svæfingar með stuttu millibili, spítalavist, ekki besta mataræðið (töflur og uppköst), almennan slappleika, litla hreyfingu, enga sól, nánast 100% inniveru o.s.frv. hef ég ekki einu sinni fengið kvef á þessu tímabili (ok viðurkenni að þetta hljómar dálítið eins og einangrun he he).

Ég man ekki einu sinni hvenær ég fékk kvef síðast. Það er a.m.k. orðið meira en 1,5 ár síðan. Fyrir svona 10 árum síðan var ég ALLTAF með kvef og hálsbólgu og á tímabili merkti ég inn á dagatalið á 2ja mánaða fresti "kvef og hálsbólga". Ég fékk líka 2 mjög slæmar flensur í röð og ég hélt ég myndi drepast. Ég var í meira en ár að jafna mig almennilega og þær algjörlega rústuðu heilsunni. Þá tók ég mataræðið algjörlega í gegn (tók út allar unnar vörur, aukaefni (eins og MSG og önnur E efni), mikið af mjólkurmat, allt kjöt sem var reyndar lítið fyrir, bætti inn gagngert meira af fersku grænmeti, ávöxtum o.s.frv.). Það var sem sagt ekki nóg að taka bara út hvítt hveiti og sykur. Síðan þá fæ ég varla kvef eða annan krankleika. Takið eftir því að ég tek aldrei inn vítamín (í töfluformi) enda hata ég töflur. Hins vegar verð ég að viðurkenna að þegar ég fæ kvef eða hálsbólgu þá verð ég rosalega slöpp og fæ þá jafnvel hita líka. Ég þarf líka að passa járn og þess vegna er mikið af þannig uppskriftum á vefnum. Hérna áður fyrr var það nánast gefið að ég væri með kvef og hálsbólgu og kippti mér ekkert upp við það enda orðin vön ástandinu. Svona miklu máli skiptir rétt mataræði að mínu mati.

Ég veit að ég er orðin hressari því ég er farin að skoða matreiðslubækur og plana næstu uppskriftir (og ekki kúgast yfir þeim), það veit á gott. Það er samt löng leið fyrir höndum og ég er rétt við fjallsræturnar.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elísabet
17. júl. 2008

Hmmm ég er búin að vera með kvef í bráðum 5 ár, fólk er farið að halda að mín venjulega rödd sé svona nefmælt:-)

Gott að heyra að þú sért "aðeins" að koma til úff þó að það sé greinilega langt í land... þetta ætlar greinilega að vera hnéið endalausa.

Lisa Hjalt
17. júl. 2008

Karlinn minn segir alltaf að fjöll eru bara til þess að horfa á þau. Njóttu bara útsýnisins við fjallsræturnar ;)

Hlakka til að sjá nýjar uppskriftir.