Stofufangelsi

Jæja nú er vika liðin síðan ég fór í aðgerðina og þó að ég sé mun frískari en fyrir viku síðan þá tekur þetta aðeins lengri tíma en síðast. Sennilega vegna þess að þetta var stærri aðgerð. Ég er enn þá bólgin og klægjar (taugaendar að gróa skilst mér) en ég er farin að stíga í fótinn. Ég labba þó eins og ég sé með staurfót og get ekki staðið lengi. Þetta kemur allt saman og er held ég allt eðlilegt.

En já ég er búin að vera föst hérna í íbúðinni í heila viku. Það er eins gott að mér líður vel inni í henni, annars væri ég búin að fríka út. Mér leið líka vel á meðan ég var að jafna mig eftir aðgerðina í London, góður andi í báðum húsum og mér fannst ég ekki vera "innilokuð". Þetta er þó að verða komið gott og ég væri alveg til í að fara að anda að mér fersku lofti. Ég er að verða samlit sófanum (sem er með hvítri ábreiðu) og ég man ekki lengur hvað búðir eru á Laugaveginum (það er svo sem ekkert að marka því að meðaltali held ég að hætti og byrji ein verslun hvern dag). Ég er mest hissa á að afgreiðslufólkið á Te og Kaffi og Kaffitár sé ekki byrjað að auglýsa eftir mér....kannski að sé mynd af mér á öllum kaffibollum svona eins og af týndu fólki á mjólkurfernum í Ameríku.

Það er svo skrítið að þegar líkaminn er ekki alveg 100% (t.d. búin að vera lasin, þreytt, vinna of mikið) þá langar mig í grænt og brakandi ferskt salat. Mig langar svo mikið í það að ég fer að hugsa um það stanslaust, frá því ég vakna og þangað til í ég sofna. Svona líður mér líka alltaf þegar ég kem frá Afríku...þetta er það EINA sem mig langar í þegar ég kem frá Afríku eða öðrum stöðum þar sem við höfum verið í lengri tíma. Það er eins og með reglulegu millibili kalli líkaminn á þessi grænu vítamín. Jóhannes er svona líka. Eftir fyrstu ferðina okkar til Afríku var það fyrsta verkefni hjá okkur að gera gott salat þegar við komum heim. Ég er að vonast til þess að ég get skakklappast í búð á laugardaginn og keypt inn eitthvað gott og þá ætla ég að gera salat dauðans þó ég þurfi að útbúa það í náttbuxum á sófanum.

Ég "skil" (legg áherslu á gæsalappirnar) annars fólk sem leggst í skyndibita þegar það liggur í sófanum heima eða er að jafna sig eftir veikindi. Það er svo auðvelt að grípa í eitthvað óhollt þegar maður nennir ekki eða hefur ekki orku til að dútla í eldhúsinu. Þess vegna er líka mikilvægt að bjóða sjálfum sér ekki upp á það og hafa ekki rusl á boðstólum. Minn "veikleiki" er hrískökur og þurrkaðir ávextir. Ég nenni heldur ekki að borða neitt annað og það er ekkert annað til (því ég nenni ómögulega að hita upp mat eða vera með eitthvað vesen). Ég gæti sent Jóhannes út í búð en hann horfir aldrei á verðmiða (ansi klókt bragð hjá karlmönnum) og er því afsakaður frá þeim störfum (fyrir lífstíð). Hann er með verðmiðablindu eins og hann er með umferðaskiltablindu. Hann sér hvorugt. Hann er reyndar með lesblindu líka en það er engin afsökun. Ég hef lært helling um lesblindu (m.a. eru 50 afbrigði til af henni) en umferðarskilta- og verðmiðablinda fellur ekki undir neina tegund lesblindu. Ég hef því enga samúð.

Í svona stofufangelsum er sem sagt ótrúlega mikilvægt að vera búinn að skipuleggja hollan mat fyrirfram ef hægt er, eiga líka hollan mat í frystinum og það besta af öllu er að eiga heilan helling af hollu konfekti ef löngun í eitthvað sætt hellist yfir mann. Ég geri yfirleitt gríðarlega mikið magn af konfekti í einu sem ég svo geymi í ísskápnum í alveg mánuð. Það er óviðjafnanlegt að geta stungið mola upp í sig af og til sem og með kaffinu.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elísabet í Kína
24. maí. 2008

ÚFF hvað það er gott að heyra að þú sért að staulast á lappir og þetta líti út fyrir að vera í lagi. Arg hvað ég þarf að fara að koma mér út úr þessarri óhullustu sem ég er alltaf í og hreinlega elska., en hef samt lagast bilað mikið. Það voru ófá skiptin þar sem pipp var kvöldmaturinn minn, er ekki að djóka sko.,,,og ef það var séð fram á stofufangelsi þá var sko skápurinn fylltur af pippi,, umm elska pipp,,, oh ég sakna pipps, það er ekki til pipp í kína,,pipp pipp pipp

Alma María
02. jún. 2008

Skil vel veikleikann í hrískökurnar og þurrkuðu ávextina. Sama upp á teningnum hjá mér, namm.

Öfunda þig ekki vera svona veik í hnénu, veit ekki hvar ég væri ef ég gæti ekki farið út að hlaupa. Vona svo sannarlega að aðgerðin hafi verið "success" hjá þér. Láttu þér batna.