Hryllingssagan....

....eins og ég lofaði í gær og eins gott að ég standi við það svo að sumir fríki ekki út (Hrund nefni engin nöfn...af tilletsemi við þig he he).

Þannig er mál með vexti að Svanur bróðir minn býr í Suður-Englandi. Hann vinnur í fyrirtæki sem hefur (held ég) um 50 manns í vinnu. Fyrirtækið er á nokkrum hæðum. Um daginn stífluðust öll niðurföll og það fór að flæða upp úr þeim með tilheyrandi ólykt. Kalla þurfti til sérfræðing í skólpmálum. Brjóta þurfti leið niður á skólpið til að komast að vandamálinu. Skólpmaðurinn braut sér leið og kíkti inn. Lyktin var víst ekki sérlega geðfelld. "Er mötuneyti hér?". Bróðir minn jánkaði því.."á efstu hæð". "Þetta er fita". Jebb. F.I.T.A. úr mötuneytinu. Ekki nóg með að þetta sé fita úr mötuneytinu heldur er þetta AFGANGS fitan sem fer í uppþvottavélina. Þetta er ekki a) fitan sem fer ofan í maga eða b) fita sem skolast í vaskinn því mest af fitunni fer víst í ruslatunnuna. Rúsínan í breska pylsuendanum er svo að mötuneytið er aðeins 2ja ára. Þetta er víst mjög algengt að sögn skólpsérfræðingsins (og örugglega víða um heim svo sem). Samkvæmt bróður mínum er maturinn viðbjóður og kemur ekki á óvart miðað við þetta. Á hverjum morgni eru steiktar pylsur, egg, beikon og allt heila klabbið. Óskir um léttan mat og salöt duga víst bara í viku en þá er allt farið í sama farið aftur. Það er nákvæmlega þessi kúltúr sem Jamie Oliver er að berjast gegn. Það er nefnilega hægt að elda góðan, hollan og ódýran mat. Gott hráefni er lykilatriði, ekki þetta pylsu,hakks,kjöts,pakkamatar- mataræði sem er að drepa alla. Það er ekki skrýtið unglingspjakkar í Bretlandi séu sendir í brjóstaminnkun (alvöru) eins og ég las á vef Daily Mail um daginn. Stórar búbbur á unglingspjökkum eru þvílíkt vandamál með tilheyrandi stríðni og vanlíðan að svona minnkunaraðgerðum hefur víst fjölgað gríðarlega og mikillar fjölgunar er að vænta á næstu árum (datt einhverjum í hug að henda þeim út í fótbolta, taka af þeim snakkpokann, sykraða gosið, nammið og playstation?).

En að öðru...Það kemur mér ekki á óvart það sem ég las á mbl í dag að íslenskt grænmeti væri í raun ekki íslenskt....heldur væri það skolað og því umpakkað. Þetta var reyndar í fréttum fyrir um ári síðan. Það tók um hálfan dag að gleymast aftur. Við erum svo aftarlega á merinni og svo vitlausir neytendur að það er eiginlega bæði fyndið og broslegt. Við látum vaða yfir okkur, aftur og aftur og aftur. Það yrði allt VITLAUST í Bretlandi ef þetta kæmist upp. Staða neytendar er svo miklu, miklu sterkari. Skolað grænmeti er þó skárra en stíflaðar æðar.

Hrund þú getur andað léttar...:)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It