Quasimodo í plastfilmu

Jæja..ekki margt að frétta síðan síðast. Og þó. Á veggjum stofunnar eru 5 naglar sem ekki eru í notkun (og eru allir á furðulegum stöðum) og ég er með 9 ör á vinstri hönd. Það er að segja á handarbakinu og inni í lófanum. Jóhannes spurði hvort það væri fyrir utan brunasárin (mjög lítil) sem eru alltaf á handarbakinu á mér (hvernig þekkir maður sérdeilis góðar húsmæður? Jú þær eru með brunasár á handarbökunum…heyrði ég einhvers staðar). Ég er alltaf að rekast utan í eitthvað sem er heitt og alltaf að gleyma mér. Þessar mikilvægu uppgötvanir hef ég gert á síðustu dögum. Mér er nú ekki að leiðast allan tímann samt, ég er að reyna að gera eitthvað af viti fyrir vefinn minn (mikil vinna í gangi á bak við sem mun skila sér síðar til ykkar). :)

Hnéð er á sínum stað og einhverjir verkir líka. Ég er farin að geta tyllt aðeins í fótinn en labba þó um eins og Quasimodo (Hringjarinn frá Notre Dame). Ég er líka svolítið eins og hann í framan núna, öll í þurrkublettum og hárin af hægri augabrún (neðri parturinn) ákváðu að láta sig hverfa…veit ekki hvers vegna. Kannski er það svæfingin eða verkjalyf sem leggjast alltaf illa í mig. Það er svo sem allt í lagi á meðan ég ligg bara upp í sófa. Eina spenna dagsins er hvort að umbúðirnar blotna eftir sturtu eða ekki. Hingað til hafa þær haldist þurrar og ég pakka hnénu vandlega inn í plastfilmu og teipa svo allt fram og til baka. Virkar fínt. Saumarnir virðast vera að gróa fínt (reyndar mun ljótari saumar en síðast…minnir á innbakaðar kjúklingabringur) og ég er með eitthvað ofnæmi undan stungum eftir sprautur held ég en skiptir engu máli..ég veit að hnéð er ákaflega fallegt að innan. Það er líka dofið svæði á hnénu, vinstra megin, algjörlega tilfinningalaust en ég veit ekki hvers vegna. Verð að spyrja lækninn út í það, varlega samt og eins gott að ég verði ekki reið. Hann er svolítið hræddur við mig nefnilega. Sem er fyndið. Ég næ honum rétt upp í mitti. Í biðstofunni um daginn kom hann fram og kallaði “Sigrún“…ég kinkaði kolli og stóð upp. Eins og venjulega eru biðstofur þannig að allir eru niðursokknir í að láta sér leiðast eða eru að lesa blöðin en þessi biðstofa vaknaði heldur betur þegar læknirinn spurði “….Ertu nokkuð með byssu?“….og það í alvarlegum tón. Hann var nefnilega búinn að lofa að hringja í mig nokkrum sinnum og var ekki búinn að því. Það er mjög fyndið að finna um 39 (einn var með lepp) augu í hnakkanum á sér.

Ég vona að ég verði komin á ról fljótlega…það er orðið hættulega lítið eftir í CafeSigrun frystihólfinu. Ég veit að Jóhannes myndi bjarga sér með cheerios í alla kvöldmata og væri meira að segja sáttur við það en ég get ekki verið þekkt fyrir að vera ekki með nokkur brunasár á handarbökunum ;) Svo sakna ég eldhússins míns. Finnst ég vera ókunnug. Ég hökti fram hjá því á leið á salernið og gjóa augunum á krukkur og potta. Svona eins og þegar ég kem úr löngu fríi, þá verð ég svolítið feimin við eldhúsið og finnst ég ekki þekkja það vel. Svo bondum við yfirleitt yfir einni súpu eða svo. :)

Jæja..best að halda áfram að liggja í sófanum. Ég þarf svo við tækifæri að segja ykkur hryllingssögu sem Svanur bróðir minn sagði mér í gær frá Bretlandi. Kannski á morgun. Hann kom annars með mjög fína hugmynd ….Hann vantar nefnilega krómstangir á Harley Davidson mótorhjólið sem hann er að smíða sér (…ekki margir með svoleiðis hobbí) og datt í hug Elektra? Hmmmm….get borið fyrir mig stundarbrjálæði (dansandi í rigningunni eins og Quasimodo, hlægjandi geðveikislegum hlátri, að rétta Elektru upp til himins og eldglæringar í bakgrunni)…..Ég hef ALLT of mikinn tíma til að hugsa.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Jóhannes
21. maí. 2008

Ég verð bara að vona að þér sé enn of illt í hnénu til að vera að dansa, hvað þá í rigningu með Elektru upp fyrir haus!

Hrundski
21. maí. 2008

Ég er enn dofin í kringum stórt frankenstein-ör á lærinu. Var sko skorin uhhhh vá þarf að rifja upp.... 1988 minnir mig og það er víst alveg normal.

Þú gætir líka gert þér rosalega fallegar króm hækjur úr kaffivélinni......

plís komdu svo með hryllingssöguna sem fyrst svo ég geti forðast það hvað sem það er. Góða nótt !

CafeSigrun.com
21. maí. 2008

Hrund þú ert full af góðum hugmyndum.....nema Jóhannes finnst þú hafa slæm áhrif ;)

Ok ég anda rólegra með dofann....er reyndar með svona á kálfanum eftir að hafa rifið vöðva og í kinninni líka eftir að hafa rifið vöðva þar....og er enn á lífi :)

Hryllingssagan....mvúaahahaaaaa