Innri fegurð

Jæja þá er ég komin heim og ligg upp í sófa, hress en svolítið lemstruð og lúin. Ég bryð verkjalyf eins og hollt konfekt (ekki eins og smartís) og reyni að vera ekki mjög skapvond við Jóhannes greyið sem ætti að fá hjúkkuverðlaun ársins.

Ég er fegin því að vera heima á Íslandi að þess sinni að stússa í þessu. Skurðstofurnar voru tandurhreinar, koddarnir mjallahvítir og brakandi, hjúkrunarfólkið almennilegt, ég fékk hlýja og þykka sæng (ekki götótt teppi eins og úti í London) og best af öllu var að það var MINN læknir sem var að krukka í mér..ekki einhver Muhammed (hann hét Muhammed) sem ég sá 5 mínútum fyrir aðgerð og 5 mínútum eftir aðgerð svo ekkert meir. Það er líka fyndið að hugsa til þess að hérna heima er maður ekki spurður mörgum sinnum fyrir aðgerð og eftir HVORT einhver sæki mann ekki örugglega heldur er maður látinn vita ÞEGAR maður má láta sækja sig, það er gert ráð fyrir því að maður eigi einhvern góðan að...sem maður á. Ég veit líka að læknirinn minn tekur á móti mér í endurkomu, ekki einhver annar sem ég veit ekkert hver er (maður fær aldrei sama lækni í endurkomum og svoleiðis þarna í almenna heilbrigðiskerfinu í Bretland). Ég elska London og allt við London....nema heilbrigðiskerfið. Það er rotið.

Þetta gekk vel í gær og ég var víst sérstaklega „skemmtilegur“ (ekki „fyndin- skemmtileg“ heldur „áhugavert keis- skemmtileg“) sjúklingur því ég er óvenju ung (og með ekki svo mikið aukahold) og því skemmtilegt að skoða mig að innan....“óvenjulegt að fá svona fitt fólk í aðgerð“ að sögn svæfó (svæfingarlæknisins) sem er nú alltaf gaman að heyra. Ég rumskaði eftir aðgerðina þegar verið var að bardúsa með mig og einhver sagði „nei nei við lyftum henni bara.... hún er svo létt“. Eins gott að enginn sagði neitt ljótt hehe.

Að sögn læknisins var hnéð óvenju „fallegt“ að innan (kannski af því þeir eru vanari að fást við eldri og slitnari hné) en samt sá hann eitthvað sem hann lagaði m.a. var einhver himna fjarlægð, eitthvað var klippt, eitthvað hreinsað, eittvað slípað, eitthvað skafið og eitthvað borað ef ég hef skilið rétt. Verkurinn í hnénu (og upp eftir öllu) var í samræmi við það sem hann sagði: „Ég var nokkuð aggressívur“...og þegar þetta er sagt af 150 kg manni sem er 2 metrar á hæð...er ekki nema von að maður hugsi „ahhh einmitt nú skil ég....áiiiiiii“. Þetta er þó svipað og síðast en það sem er þægilegra núna er að ég veit við hverju var að búast og ég get treyst spítalanum (hann lokar eflaust ekki vikunni eftir aðgerð eins og spítalinn sem ég var á í London) og öllu fólkinu. Þvílíkur munur. Það kom mér á óvart að krossböndin væru löskuð eftir, að mati læknisins áverka, þau væru heil efst og enduðu víst í tægjum neðst ef ég skyldi rétt en ég skil ekki að það hafi ekki sést áður á myndum, hnéð hefur farið í fleiri myndatökur en Victoria Beckham...Ég þarf að spyrja hann nánar út í þetta... Ég var annars svakalega heppin að hafa ekki farið í aðgerðina 29. apríl eins og til stóð. Þegar svæfó kom að yfirheyra mig bað hann mig um að opna munninn. Ég var svona 10% læst hægra megin í kjálkanum og það þyngdist brúnin á svæfó. „Geturðu ekki opnað meira en þetta“? Ég varð móðguð inn í mér því fyrir mig var þetta stórkostlegur árangur miðað við síðustu 3 mánuði. Þann 29. apríl gat ég í mesta lagið opnað 1cm en gat opnað svona 2,5cm núna. Það er MJÖG gott. Svæfó gat auðvitað ekki vitað það svo ég útskýrði fyrir honum hvernig á þessu stóð. Hann sagði mér að ef ég hefði komið á meðan ég gat bara opnað 1 cm hefði hann sent mig heim, umsvifalaust. Engin aðgerð takk fyrir. Aðspurður sagði hann þetta vera vegna þess að hann þarf að koma einhverjum slöngum og drasli þarna fyrir. Það er víst mjög óvinsælt að vera svona sjúklingur í aðgerð í bráðamóttöku...Ég er enn þá að skilja þessa heppni að hafa losnað svona vel fyrir aðgerðina...fátt er svo með öllu illt sko... Ég er líka arfaslök núna og kjálkinn bara næstum því ok því ég bryð jú verkjalyf...ég hata verkjalyf því þau rugla magann sem fær aldrei neitt nema hollt og gott og þess vegna fer þessi vítahringur af stað sem ég þoli ekki verkjalyf-sýrustillandi-verkjalyf o.s.frv.

Ég er örugglega eini sjúklingurinn sem hefur vaknað upp eftir aðgerð og tekið upp lífrænt spelt-rúsínukex og lífrænan appelsínusafa. Allir hinir fá súkkulaðikex og venjulega appelsínusafa. Hjúkrunarkonurnar blikkuðu þó ekki auga og buðu mér meira að segja kaffi. Ég afþakkaði pent og hugsaði til Elektru hans Jóhannesar sem eflaust hugsaði sér gott til glóðarinnar að hafa Jóhannes svona út af fyrir sig.... Það er engin afsökun fyrir því að borða óhollt þó maður lendi á skurðstofu í nokkra klukkutíma, maður tekur bara með sér hollt nesti. Ég vorkenni bara fólkinu sem liggur á stofnunum og þarf að borða ógeðsmat...og aumingja stofnanirnar ef ég skyldi lenda í því að þurfa að borða þann mat...uss uss. Það verður kannski seinna..í ellinni he he!

Nú þarf ég bara að taka því rólega og vera stillt og gera eins og Jóhannes segir. Ég hitti lækninn eftir 10 daga og svo tekur við sjúkraþjálfun og eitthvað svoleiðis brölt...það er gott að byrja á núllinu.....

Takk fyrir allar batakveðjurnar og hlýju straumana! Og takk Elva mín fyrir heimsendinguna....þvílík himnasending....þú ert engill...nú veit ég alveg hvað vantaði í London forðum daga ...... batnaðar sushi! :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It