Draumur í dós
Ég er ekkert smávegis ánægð með mig þessa dagana því kjálkinn er LOKSINS laus. Hins vegar fylgir sá böggull skammrifi að sársaukinn er það mikill að ég vil frekar hafa hann læstan. Vinstra megin er ég búin að vera laus í um viku en hægra megin losnaði ég sem sagt á föstudaginn. Eftir rúma 3 MÁNAÐA læsingu. Bara svo þið áttið ykkur á því hvernig upplifun það er...ímyndið ykkur að vera t.d. með olnbogann 99% krepptan í 3 mánuði (aldrei pása) og reynið svo að rétta úr honum. Sársaukinn er þannig að þið viljið halda honum krepptum, ég get lofað ykkur því. Það er nánast ómögulegt að borða nokkuð þar sem meira að segja er sárt að kyngja vatni. Veit ekki hvenær þessi ósköp taka enda en þetta er orðið gríðarlega þreytandi. Ef ég læsist tekur það greinilega um 3 mánuði að opna alveg aftur svo ég er ekki að hlakka til næsta skiptis (hvenær svo sem það verður).
Það versta (fyrir utan að meiða sig þegar maður borðar) er að sársaukinn er svo mikill á nóttunni að ég fæ endalausar martraðir. Ég efast um að það séu margir sem geta upplifað t.d. stríðsástand, pyntingar, morð o.fl., o.fl. með jafnmiklum raunveruleikablæ og ég (sko án þess að vera sjálfur á staðnum sem ég veit að væri auðvitað trilljón sinnum verra). Martraðirnar eru algjörlega kristalskýrar og ég er "á staðnum" að upplifa allt, hlaupa undan byssuskotum, forðast yfirheyrslur, fela mig í rústum, bjarga dýrum sem verið er að misþyrma svona eins og að skera loppur af ljónum (í fyrrinótt) og vandamálið er að ég sef svo fast að ég vakna ekki eins og flestir gera. Flestir vakna af sársauka en ekki ég. Samt vakna ég við hroturnar í elskulega eiginmanninum...hmmm. Ég þoli ekki hrotur enda er Jóhannes greyið allur marinn og blár eftir nóttina því ég sparka í hann. Ég ætti að vera kát við að vakna upp við hrotur þegar það á alveg að fara að "skjóta mig" en ég bölva hástöfum og hóta Jóhannesi sömu meðferð.
Martraðirnar fylgja mér svolítið fram eftir degi og oft er ég þung á brún á meðan ég hlusta á fólk tala um drauma sína (sem eru yfirleitt um hesta, hvolpa og blóm). Það væri eins og að fara í sumarfrí á nóttunni..svei mér þá. Oft á kvöldin hugsa ég um hvolpa, Indlandshaf, hvítan sand á ströndinni, pálmatré en matröðin endar þá oftar en ekki á að hvolpur drukknar í sjónum eða honum er drekkt og ég reyni að bjarga honum o.s.frv. Ég er löngu hætt að tala um matraðirnar mínar því fólk horfir á mig eins og ég sé klikkuð. Þetta er ágætur mood killer í samkvæmum.... Og nei þetta hefur ekkert með geðveilu, þunglyndi eða neitt slíkt að gera heldur svefnmynstur og sársauka (trúið mér...ég er útskrifuð úr sálfræði og er búin að grafa djúpt ofan í málið). Það er hægt að breyta svefnmynstri fólks með lyfjum en slík lyf fara ekki inn fyrir mínar varir. Ever.
Ég er að reyna að gleyma matröðum um leið og ég vakna en það getur verið erfitt. Í vinnunni minni um daginn vorum við samstarfskona mín að horfa út um gluggann á hrúgu af spýtnadrasli og braki. Verið er að rífa hús í portinu og því allt í drasli. Ofan á hrúgunni var kisa að spássera. Það lýsti ástandinu ágætlega þegar samstarfskona mín sagði "æi sjáðu, kisan er að leika sér ofan á hrúgunni" á meðan ég hugsaði á sama augnabliki "æi kisan er búin að týna kettlingunum sínum sem hafa örugglega grafist undir í draslinu og dáið".....hmmm.....Samstarfskona mín benti mér á að kisan væri með ól svo líklega væri hún nú ekki villikisa. Ég andaði aðeins rólegra.
Um daginn dreymdi mig næstum eðlilega en ég grenjaði samt allan drauminn/martröðina. Ég var á gangi í London og ég hugsaði með mér hvað ég saknaði London gríðarlega. Þannig að nísti inn að hjarta. Ég gekk um götur London alein og orgaði. Mér leið hrikalega. Ég vaknaði um morguninn og mér leið alveg eins (en grenjaði svo sem ekki). Þetta er svolítið svona eins og í bíómyndunum þegar fólk hættir saman sko...því seinna um daginn tók ég til sumarjakkann minn og fann lestarmiða frá London. Ég var næstum því farin að grenja (vantaði bara tónlistana og myndskeið af fallegum minningarmyndum úr fortíðinni).
Jæja ég ætla að hætta að vorkenna mér...gæti verið verra. Það eru bara svo fáir sem skilja mig því ég þekki engan annan sem er svona :)