Íslenska Indverjaheilsubúðin

Ég get seint talist fordómafull manneskja. Þó er ég með „jákvæða fordóma“ gagnvart Indverjum og þeirra verslunum í London. Þannig t.d. var Indverjabúð á horninu okkar sem átti alltaf til allt sem vantaði svona í neyð. Þetta eru svona kaupmenn á horninu og í litlu búðunum þeirra troða þeir öllu frá gólfi upp í loft. Veit ekki hversu oft ég þurfti að biðja afgreiðslumanninn um að teygja sig eftir klósettpappír alveg upp við loftið. Ég sakna þessarra búða alveg gríðarlega. Alltaf var mér heilsað hlýlega eins og t.d. „hello darling“, „hi sunshine“ o.s.frv. Ég fór alltaf brosandi út úr Indverjabúðunum. Svona voru þær eiginlega allar í London í þær trilljón sem ég fór í á þessum 6 árum sem við vorum búsett þar. Nú koma fordómar mínar berlega í ljós því margar af þessum búðum voru ekkert reknar af Indverjum heldur Pakistönum...við bara köllum þær Indverjabúðir því mér finnst jafn erfitt að greina á milli Indverja og Pakistana eins og þeim finnst erfitt að greina á milli Breta og Svía.

Sem sagt þar sem við búum hér í miðbænum er ein svona lítil búð og hún er eina búðin á Íslandi þar sem mér líður næstum því eins og í litlu heilsu-Indverjabúðinni á Charlotte Street í London. Þangað fór ég stundum ef ég var í hádeginu að þvælast eitthvað því hún var rétt hjá vinnunni (og rétt hjá heimili okkar reyndar líka). Hún heitir Peppercorn. Búðin sem ég er að tala um á Íslandi heitir Heilsubúðin og er á horni Klapparstígs og Njálsgötu...hef áður bloggað um hana minnir mig. Ef ég loka augunum inni í búðinni og dreg andann þá finn ég sömu lykt. Hún er líka dásemlega troðin. Verðlagið er líka óvenjulega lágt miðað við samkeppnisaðila því það munar allt að 30-50 krónum á hverja vöru hjá þeim eða heilsubúðunum tveimur aðeins neðar í götunni. Það skil ég ekki. Aðspurður sagði afgreiðslumaðurinn að hugsjónin ræki þá áfram og þeir hefðu ekki áhuga á að féfletta fólk. Hið besta mál fyrir budduna mína. Ég er farin að versla þarna töluvert mikið ef ég mögulega finn það sem ég leita að...sem er yfirleitt alltaf. Svo er ég líka alltaf kvödd með: "Hafðu það gott í dag" alveg eins og í Indverjabúðunum úti (nema ekki á indverskri ensku.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It