Komin frá London í útópíuna Ísland

Jæja..þá er ég lent á Íslandi í þessu blíðskaparveðri sem búið er að vera síðustu daga. Verðlagið hefur batnað umtalsvert og hafa heilsubúðir lækkað verð á vörum sínum. Einnig er orðið ódýrt að kaupa í matinn og hefur verð á lífrænum matvælum lækkað og verð á ruslmat hækkað.....Verð á bensíni er einnig komið niður fyrir 100 krónur eins og í flestum nágrannalöndum. Og svo framvegis.........

Glætan....

Það var yndislega yndislegt eins og venjulega í London og gaman að koma "heim". Heim á eiginlega ekki að vera í gæsalöppum því þetta er raunverulegt heimili okkar...svona í hjartanu að minnsta kosti og það urðu engin stór óhöpp 7. desember.

Við gerðum þetta venjulega, versluðum jólagjafir (þegar fáir voru á ferli og búðirnar tómar...borgar sig að vita hvar og hvenær maður á að versla til að missa ekki vitið í búðunum..þarf afskaplega lítið til hjá mér), fengum okkur sushi, hittum helling af vinum og kunningum m.a. fyrrverandi samstarfsfélaga Jóhannesar úr Disney, Marie og Pete vini okkar sem reka kaffihús þarna í London, keyptum BigIssue (sem allir ættu að kaupa, enda stórsniðugt dæmi), smá jólaskraut, fengum okkur kaffi...og svo hnerraði Jóhannes líklega 6458 sinnum (á klukkutíma)....alveg ferlega kvefaður. Hann er þó að hressast.

Ég hef aldrei verið eins tímalega í jólaundirbúningi (fyrir utan kannski hvað ég er sein að kaupa jólapakkana). Málið er að yfirleitt erum við búin að kaupa jólagjafirnar frekar snemma því við höfum verið búsett í London síðustu 6 jól eða svo en alltaf haldið jólin heima á Íslandi. Ég hef alltaf farið með troðfullar ferðatöskur heim um jólin, í kringum 20. des, pakkað gjöfunum inn á síðustu stundu, eldað jólamatinn (við lélegar aðstæður t.d. með ónýtan ofn), bakað, undirbúið Þorláksmessuboð fyrir 50 manns o.fl., o.fl. Núna get ég gert þetta í rólegheitum...

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It