Að storka örlögunum?

Það er ekki nema von að ég spái í það hvort við séum ekki að storka örlögunum með því að fara til London í fyrramálið...7. desember hefur hingað til ekki verið neinn sérstakur happadagur hjá okkur í London eins og lesendur bloggsins kannski muna. 7. desember 2005 var það innbrot (daginn fyrir hnéaðgerðina) og 7. desember 2006 var það hvirfilbylur og eldsvoði. Hvað ætli það verði 7. desember 2007? Fylgist vel með fréttum á morgun um flug til London he he. London er kannski sá staður sem ég ætti að forðast svona miðað við að fyrrnefndu atburðir gerðust báðir í London :) En svo sem á þeim tæpu 6 árum sem við bjuggum þar...þá lentum við aldrei í neinu alvarlegu (fyrir utan fyrsta daginn þegar við fluttum og öllu verðmæti var stolið frá okkur því við sofnuðum í strætó örþreytt).

Annars munaði litlu að illa færi í gærmorgun (og ég velti fyrir mér hvort að væri nokkuð 7. desember en ekki 5. Við vorum nefnilega að fara í ræktina kl 5.45 um morguninn og vorum að labba niður gamla stigann í átt að útidyrahurðinni þegar ég dett niður síðustu þrepin, beint á gólfið. Ég lá í hláturskasti (hver gleymir að stíga í neðstu þrepin???) á meðan Jóhannes hélt ég væri stórslösuð (hef beinbrotnað svo oft (m.a. þrisvar handleggsbrotnað) að ég hefði hlegið frekar en að segja ái). Ég stóð upp ósködduð og það sem bjargaði mér var að ég er alltaf svo mikið klædd...sérstaklega þegar ég fer í ræktina svo ég rúllaði svona eins og Michelin man á gólfinu. Ég var einmitt að hugsa að það var eins gott að ég hélt ekki á hitapoka eins og þegar er rosa kalt...þá hefði ég lent ofan á hitapokanum...hann hefði líklega sprungið og ég hefði fengið sjóðandi vatn framan í mig. Það hefði ekki verið gott.

En annars var górilluferðarkynning í gær með nokkrum útvöldum sem hafa öll farið í ferðir með Borgari eða Elínu áður...við erum rosa spennt. Við erum ekki að fara sem fararstjórar í þessa ferð svona beinlínis (bara ef þarf að hjálpa eitthvað) svo við getum slappað meira af en venjulega (maður er aldrei slakur með hóp af túristum í Afríku og þá er ég ekki að meina að Afríka sé ekki örugg...það getur bara svo margt klikkað í löndum Afríku þar sem flest virkar svona "yfirleitt"). Það verður æði. Við förum líklega inn til Rwanda að skoða górillur en verðum samt mest í Uganda. Ég hlakka svoooo til. Svo er Jóhannes að fara á Kilimanjaro með hóp strax á eftir górillum (annar hópur) og ég er að hugsa um að tsjilla með Elínu mágkonu á meðan...líklega í Uganda en gætum farið yfir til Kenya. Er ekki viss.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It