Bráðum koma blessuð jólin

Mikið líður tíminn hratt. Það eru bara alveg að verða komin jól...svona hér um bil. Það er ekki margt í gangi hér á bæ nema vinna og aftur vinna, bakstur inn á milli (og afraksturinn borðaður jafnóðum með góðri hjálp Jóhannesar). Við skötuhjúin erum annars að fara til London um helgina...aðeins að tsjilla, kaupa nokkrar jólagjafir og svoleiðis. Ég er haldin það mikilli Kringlu-Smáralindarfóbíu að ég fer frekar til London hmm....

Ég er annars í óskynsama pakkanum þessa dagana (en hey, í ykkar þágu!). Ég keypti nefnilega flash á myndavélina mína sem kostar álíka mikið og 1 heilsársdekk undir stóran jeppa...Ég var búin að nefna að okkur vantar dekk á bílinn og að ég hefði keypt þrífót sem kostaði álíka mikið og annað dekk undir bílinn. Núna naga ég handarbökin ef fer að snjóa og held niðri í mér andanum. Ekki sniðugt...ég veit en í svona myrkri eins og er hérna á Íslandi veitir ekki af smá hjálp í birtunni.

Talandi um ljósmyndun...munið þið eftir ljósmyndaranum franska sem sendi mér póst um daginn? Við erum búin að vera í email sambandi og hann er búinn að senda mér nokkrar skemmtilegar myndir til að velja úr fyrir heimasíðuna sína, mjög gaman. Hann er nýkominn frá Búlgaríu og er að fara rúnt um Evrópu og taka myndir af fólki og stöðunum. Skemmtilegt verkefni og gaman að fá að fylgjast með því. Svona er nú heimurinn stundum voðalega lítill með tilkomu Internetsins.

Ég hlakka svo til að fara í heilsubúðirnar mínar og versla svolítið. Við ætlum líka að hitta Mariu og Pete, grísk-áströlsku vini okkar sem reka kaffihús í London. Svo ætlum við í Covent Garden því þar er skemmtilegast að vera og ekki eins leiðinlegt að versla og annars staðar. Þar er líka nóg af útivistarbúðum fyrir Jóhannes. Við förum að sjálfsögðu á Neal's Yard, uppáhalds grænmetisstaðinn okkar og svo er kaffi á Vergniano ofarlega á listanum. Það "sorglega"? Þetta lýsir hefðbundnum laugardegi á meðan við bjuggum í London. Það er ekki öll von úti enn...kannski að við verðum bara þar yfir jólin he he.

Nú verður töluvert auðveldara að elda jólamatinn en síðustu jól. Þá var ég með ónýtan ofn (eins og yfirleitt þegar við vorum að koma heim svona um jól og vorum á hinum og þessum stöðum), við vorum ekki með nein áhöld, ekki neina diska, áttum 1 garð-plastborð, 2 plaststóla og jólatrénu stal ég úr vinnunni yfir hátíðarnar (pínulítið spónaplötujólatré með ljósum). Það var nákvæmlega ekkert annað í íbúðinni nema 2 dýnur sem við sváfum á. Við vorum nefnilega búin að kaupa íbúðina okkar en vorum ennþá búsett í London. Það skipti engu máli þó vantaði upp á eitthvað drasl..við gátum borðað góðan mat, opnað jólapakka, drukkið gott kaffi, spjallað og slappað af í góðum félagsskap. Jólin snúast líka einmitt um það.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Hrundski
04. des. 2007

Held við ætlum að kaupa allar gjafirnar á netinu í ár. Jólabrjálæðið er sko byrjað og sérstaklega um helgar niðrí bæ!!! Fór um daginn og Kringlan er eins og heilsuhæli miðað við þessa bilun, var fljót að koma mér aftur heim.

Góða skemmtun og passið ykkur að troðast ekki undir í búðunum :D

Auðvitað er ykkur velkomið að pannta bara á netinu heim til mín og sækja það svo á starbucks i Raynes Park ;)

CafeSigrun.com
04. des. 2007

He he, kannast við það. Við bjuggum jú í 5 mín göngufjarlægð frá Oxford Street og 30 sek göngufjarlægð frá Regent Street. Við þurftum að krossa mannmergðina á Oxford Street til að komast inn í Soho. Það er ekki oft sem ég fæ innilokunarkennd en á Oxf Street gerist það alltaf. Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna fólk verslar þar, eða yfir höfuð er á götunni. Það er trilljón sinnum betra að versla í Covent Garden, snemma að morgni, á Carnaby Street o.fl. svoleiðis sætum götum...En já...jólagjafir á netinu...mikið rosalega sakna ég Ebay og Amazon..buhu