Hitamál

Við fórum í ræktina í morgun og mér hlýnaði um hjartarætur...eða allavega á fótunum því búningsklefinn er orðinn hlýr veiiiiiiiii. Það er ekkert skrýtið þó ég hafi skolfið eins og hrísla og kviðið því að fara í sturtu eftir ræktina því hitakerfið í gólfinu var bilað. Jóhannes skildi ekkert í þessu og fannst ég kuldaskræfa (meiri en venjulega). Eins og ég sagði áður sendi ég bréf á World Class og rakti raunasögu mína. Þessu var kippt í liðinn og ég er ótrúlega þakklát. Ekki bara það að mér hafi verið svarað strax heldur var þetta lagað líka. Mér finnst það vel af sér vikið. Það er líka greinilegt að þau "fatta" út á hvað þetta gengur. Til að halda viðskiptavinum ánægðum þarf þetta þjónustustig...það er ekkert öðruvísi.

En já, aftur að kuldanum....það er ekkert grín að vera svona...svona er dagurinn minn (þegar hitastigið er fyrir neðan 10°C):

  • Að kvöldi kveiki ég á hitateppinu í rúminu mínu.
  • Ég fer í náttfötin sem ég er búin að hita á ofninum og skríð svo undir heita sængina í náttfötum, sokkum o.fl. Hef oft spáð í að sofa með nátthúfu.
  • Ég vakna að morgni (bölva því hvað er kalt úti) og fer í fötin sem ég er búin að hita á ofninum.
  • Ég horfi á hitamælinn og bölva því hvað ER kalt úti.
  • Ég klæði mig í mörg lög af fötum (ull næst mér).
  • Ég hita vatn fyrir hitapoka til að taka með í bílinn ef ég er t.d. að fara í ræktina.
  • Ég sit í bílnum (hiti í sætum) með hitapoka ofan á mér og teppi yfir mér.
  • Í ræktinni dugar ekki að svitna því ég hef verið skjálfandi í sturtunni í 10 mínútur (en ég skelf ekki eins mikið núna þó). Ég kveið alltaf fyrir.
  • Ég fæ mér að borða (langar að fá mér heitan hafragraut en er of löt á morgnana).
  • Jóhannes gefur mér svo heitt kaffi í bolla sem ég held utan um. Ég sit með bakið upp við ofninn í eldhúsinu.
  • Mér er kalt í vinnunni svona yfirleitt og hita mér marga tebolla yfir daginn.
  • Kem heim úr vinnunni eins og grýlukerti (eftir 2ja mínútna labb) og fer í þægileg föt sem hafa verið á ofninum allan daginn. Einu skiptin sem ég er glöð að búa á Íslandi en ekki London (og það er líka þau einu) er þegar ég kem heim í heita íbúðina en ekki kuldann og rakann í breskum íbúðum.
  • Reyni yfirleitt að borða eitthvað heitt í kvöldmat, helst súpu.

Já ég tek inn lýsi og já ég borða nægilega mikla fitu. og ég er nógu vel klædd (ég get bara ekki labbað um í kuldagalla þó mig langi það). Pípulögnin hefur bara alltaf verið svona :) Mitt banamein verður kuldi...í einhverju formi. Það er ég viss um!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

gestur
12. nóv. 2007

Fáðu þér bara smjör að borða til að fá hita. En án gríns, hvernig gastu farið í hesthúsið hér áður fyrr, í öllum veðrum og riðið út og sofið allavega 2 eða 3 nætur í jötunni hjá Garra þegar hann veiktist. Þá var þér ekki svo kalt? Eða hvað? Kv mamma.