Leiðinlegu grænmetisæturnar
Það er ekki oft sem ég hef tíma til að lesa blöðin en ég var slöpp í gær og ákvað að skoða blöðin á Netinu þegar ég kom heim úr vinnunni. Ég skoðaði 24 stundir og mig rak í rogastans á blaðsíðu 36. Þar er Kolbrún Bergþórsdóttir að tala um hollustu og óhollustu, að það sé hættulegt samkvæmt nýjustu fréttum að borða franskar, drekka kók o.s.frv. og að hún þurfi að taka sig saman í andlitinu ble ble.
Einnig stóð þetta orðrétt:
...Sjálfsagt er hægt að snúa vondri þróun við og snúa sér að gulrætum [innslag frá mér...ætti það ekki að vera gulrótum?] og spínati. Meinið er að grænmeti er ákaflega "óinteressant" fæða. Enda eru grænmetisætur með leiðinlegra fólki sem maður hittir.
Nokkur atriði:
- Þekkir hún allar grænmetisætur í heiminum?
- Er allur matur úr grænmeti "óeinteressant"?
- Hefur hún prófað allan matinn á þeim frábæru stöðum Grænum kosti og Á næstu grösum svo dæmi sé tekið.
- Er hún að rugla saman hráum gulrótum og gulrótarbuffi með girnilegri sósu? Ekki sami hluturinn.
- Fólk gerist ekki alltaf grænmetisætur að eigin vali þ.e. stundum þarf fólk að borða bara grænmeti vegna þess að það hefur óþol fyrir kjöti, þarf að missa þyngd, hefur verið ráðlagt slíkt af læknum o.s.frv.
- Sumir borða grænmeti hreinlega af því þeir hafa ekki lyst á kjöti og finnst aðbúnaður dýra hreint út sagt ömurlegur (ég er í þeim flokki).
- Það kemur engum við hver borðar hvað og hvernig. Ég blammera ekki kjötætur í fjölmiðlum (ég blammera aðbúnað dýra hins vegar) og mér myndi aldrei detta það til hugar.
- Það er óþolandi að fólk sem er að byrja að stíga sín fyrstu skref í átt til hollara fæðis þurfi að lenda í svona óþolandi yfirlýsingu.
Ég þoli ekki fordóma af neinu tagi. Þessi "ummæli" eru í besta falli fáfræði og heimska, í versta falli fordómar og dónaskapur við þá sem kjósa ekki sama lífstíl og hinir eða þurfa einhverra hluta vegna að vera grænmetisætur. Það geta verið milljón ástæður.
Ef þessi kona (sem er þetta þekkt) hefði viðhaft sömu ummæli t.d. í breskum fjölmiðlum hefði hún verið krossfest af hinum ýmsu samtökum. Hún hefði verið knúin til að biðjast afsökunar yfir einstaklega heimskulegum ummælum með skottið á milli fótanna. Það hefðu verið umræður í sjónvarpi, umræður í blöðum. Í hvert skipti sem talað væri um grænmetisætur og aðför að þeim hefði birst mynd af henni. Ég þoli ekki að hér á landi komist fólk upp með að segja allan fjandann. Hvernig DIRFIST hún að ráðast á heilan hóp fólks (sem telur milljónir manna) og dæma það í einu lagi. Ég þekki hundleiðinlegar kjötætur og hundleiðinlegar grænmetisætur. Ég þekki líka skemmtilegar kjötætur og skemmtilegar grænmetisætur. Í guðanna bænum kona hugsaðu áður en þú setur eitthvað svona á blað.
Ummæli
09. nóv. 2007
Ég myndi ekki hafa áhyggjur af þessum ummælum. Þetta er bókakona. Hún eldar lítið. Sá gamli sveppur
10. nóv. 2007
hehehe.. þetta er nú samt frekar fyndið að lesa :)
auðvitað hefði verið betra fyrir hana að segja "Enda eru þær grænmetisætur sem ég hef hitt og þekkt með...." en hún er eflaust að vísa til ákveðins hóps af fólki sem hún hefur umgengist eða þekkir til :)
Annars finnst mér reyndar allt í lagi að henni finnist grænmetisætur leiðinlegar. Ef hún hefði sagt "Enda er fólk með offituvanamál með ..." þá hefði ég einmitt hlegið í stað þess að verða pirruð því ég veit að ég er stórskemmtileg og einhver kona út í bæ getur ekki breytt því :)
Hugsaðu þetta frekar að hún eigi bágt, ekki allar grænmetisæturnar :)
Það er nú samt jákvætt að henni þykir grænmetisætur vera fólk hihihihih....
10. nóv. 2007
Emm, punktur nr. 6 þar sem stendur "Sumir borða ekki grænmeti hreinlega af því þeir hafa ekki lyst á kjöti" hljómar eitthvað vitlaus.. Ætti þetta ekki frekar að vera "Sumir borða bara grænmeti ..."?
Annars finnst mér alveg frááábært að þú skulir halda þessum vef úti og get ekki þakkað þér nóg fyrir það. Ég er nefnilega nýlega greind með alvarlegan sjúkdóm og rannsóknir hafa sýnt að hverskonar dýrafita hafi slæm áhrif á köstin sem fylgja þessum sjúkdómi. Ég er þessvegna að fara að gerast grænmetisæta hvað úr hverju og ég efast ekki um að vefurinn þinn muni koma mér að góðum notum. Svo þúsund þakkir kæra grænmetisæta :)
10. nóv. 2007
Æ jú takk Súsi...ég hef verið annars hugar þegar ég las þetta yfir enda klukkan rúmlega miðnætti :)
Gangi þér vel með mataræðið....
15. nóv. 2007
Ég er mjög sammála, vel sagt. Sjálfur er ég grænmetisæta, og þoli illa þá fordóma sem fólk hefur gagnvart mér og öðrum sem kjósa að borða ekki sama mat og það.
09. des. 2007
Þetta komment kemur kannski frekar seint en ákvað að láta vaða.
Þessi pistlar þarna aftast í 24 Stundum einkennast af gálgahúmor þannig að ég myndi ekki taka þessu neitt alvarlega. Þessir pistlar hafa verið svona frá upphafi (áður Blaðið) og þau eru nokkur sem skiptast á að skrifa þá.
Kolbrún er frábær karakter sem gerir óspart grín að sjálfri sér. Hún hefur t.d. líst því yfir í þónokkrum viðtölum að hún sé alger herfa og það finnst mér mjög fyndið.
Kveðja að austan