Hitt og þetta

Það er ekki mikið um að vera hjá okkur.... svo sem ef frá er talin 150% vinna hjá okkur báðum. Við verðum að fara að hætta þessu. Mér var ráðlagt af nuddkonu í gær að fá mér sjónvarp..svona eins og eðlilegt fólk gerir. Ég hugsaði með mér að ég gæti svo sem fengið mér sjónvarp en þá hefði ég aldrei tíma til að elda eða gera neitt skemmtilegt í vefnum mínum. Ég skil ekki hvernig fólk hefur tíma til að horfa á sjónvarp OG elda OG gera eitthvað með börnunum sínum OG fleira. Kannski ef maður fer ekki snemma að sofa til að vakna í ræktina eða er nátthrafn. Ég er syfjuð á kvöldin eftir vinnu dagsins sem heldur svo áfram fram eftir kvöldi. Ég er líka syfjuð á morgnana. Nuddkonan sagði mér að það væri ekki skrítið því líkaminn væri að segja stopp. Nuddkonan potaði aðeins í mig fyrst og ég öskraði "ái!!". "En ég er ekki byrjuð...ég rétt kom við þig" sagði konugreyið? Ég er með hnúta í bakinu, hálsinum, herðunum, herðablöðunum og surprise, surprise, er miklu verri hægra megin (músarmegin). En þetta er mér að kenna, mér er nær að vinna eins og fábjáni. Ég ætla samt ekki að fá mér sjónvarp...vil ekki kveikja á því bara til að kveikja. Málið er bara að það er svo allt of auðvelt að setjast og byrja að horfa á eitthvað. Það er svo mikið rusl í sjónvarpinu og ég hef engan áhuga á að borga afnotagjöld RUV, glætan. Sjónvarp er hinn argasti tímaþjófur en mig vantar eitthvað álíka heiladautt til að dunda mér við. Það er afslappandi að elda en maður getur ekki eldað út í eitt...ég hef enga þolinmæði í að prjóna eða hekla eða álíka þannig að hvað er eftir? Lesa kannski..sem mér finnst gaman en fæ alltaf samviskubit ef ég tek upp bók því að lesa er eitthvað sem maður gerir í flugvélum. Það hafa fáir tíma til að lesa í dag..allavega fólk af okkar kynslóð.

Það er allt of kalt úti og ég labba út með samanbitnar varir og kalda kjálka (útskýrir vöðvabólguna á bak við eyrun) og af því að kjálkinn er alltaf bólginn vegna kjálkabrotsins forðum daga þá er það gríðarlega sárt þegar kuldinn er mikill því verkurinn leiðir upp í eyra. En allavega. Ég er alveg svakalega slæm á morgnana þegar er kalt og dimmt úti en ekki endilega vegna sársauka heldur leti. Ég er að drepast úr leti þegar er svona kalt og svona dimmt og sængin er SVONA hlý og mjúk og dásamleg. En eru ekki flestir slappir á þessum árstíma. Ég þarf að beita öllum ráðum til að vakna og fara fram úr, sérstaklega ef ég er að fara í ræktina kl 6. Samt er ég dúðuð undir sæng, fötin eru öll hlý á ofninum og svo er ég búin að finna eitt gott ráð. Fylla hitapoka af sjóðandi vatni og halda á honum á leiðina í ræktina. Það er stórsniðugt fyrir svona kuldastrá eins og mig.

Annars er það af fransmanninum að frétta að ég sendi honum svar og sagði að það hefði verið gaman að fá þennan tölvupóst frá honum. Hann sendi til baka, var mjög hissa á að fá svar og vildi jafnframt fá að vita við hvað ég starfaði og að hann hafi hreinlega ORÐIÐ að senda mér póstinn þarna um daginn því honum brá við hvað við værum líkar. Hann sagði mér líka að hann væri ljósmyndari sem var gaman því ég hef gaman af ljósmyndun. Allt hið besta mál bara. Hann er að vinna í skemmtilegu evrópsku verkefni, og er að taka myndir hér og þar í Evrópu. Fæ að vita meira um það síðar. því hann var staddur í Búlgaríu!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigga Þorsteins
07. nóv. 2007

Blessuð.

Ég virkilega mæli með orkupunktanuddi sem krefst lágmarks snertingar en svínvirkar á vöðvabólgu, eyrnabólgu, magaverk ofl ofl. (þetta heldur bakinu á mér í góðu standi í dag)

Kv. Sigga