Bloggið
Þar keyrði dekk nærri hælum
Jeminn eini hvað hefði getað farið illa í gær. Leigubílstjórar í London geta verið stórhættulegir ef þeir eru í vondu skapi (oft). Við vorum að labba yfir Oxford Street á leið okkar inn í Soho til að fara að borða (á thailenska staðnum) og við vorum að labba yfir götuna (samt fyrir vegfarendur sko) og ég sé útundan mér leigubíl koma á fleygiferð í áttina að okkur og segi við Jóhannes "heyrðu við þurfum að flýta okkur yfir svo hann keyri ekki á okkur". Jóhannes sagði "Nei nei, það er strætó fyrir framan okkur, hann fer ekkert að keyra á hann". Ég ákvað að láta þetta sem vind um eyru þjóta, sé leigubílinn stefna á okkur á engu minni ferð og stekk af stað og hélt að Jóhannes kæmi á eftir mér. Jóhannes er nú ekkert að stressa sig á hlutunum yfirleitt og ætlar bara að rölta þetta í rólegheitum. Nei nei, leigubíllinn var ekkert að hægja á sér og haldið að hann hafi ekki KEYRT á skóinn hans Jóhannesar!!! Það eina sem ég heyrði var gúmmíhljóð og einhverjar konur sögðu "Jesus Christ" eða álíka. Hællinn á skónum rifnaði (nýlegir götu/gönguskór, mjög vandaðir) og það munaði bara 1 cm eða 1 sekúndu að hann hefði keyrt yfir fótinn á honum eða annað og stórslasað Jóhannes. Ef Jóhannes hefði hreyft sig til eða snúið upp á fótinn þá hefði getað farið mjög illa. Vitið þið hvað leigubílsstjórinn gerði. Hann tautaði "fucking idiots" og leit ekki einu sinni við heldur gaf allt í botn. Já alltaf jafn kurteisir og fágaðir eða þannig.
Nú á Jóhannes sem sagt skó sem hefur verið keyrt yfir af breskum leigubíl.
Mennirnir og hálsrígurinn
Já þetta er ekki gott afspurnar. Eftir síðustu tvær flugferðir mínar hafa menn labbað út úr flugvélinni með hálsríg eftir að hafa verið nálægt mér :) Hljómar kannski verr en það er í raun sko. Málið er að síðustu tvö skiptin (annars vegar á leiðinni út til London síðast) og núna heim til Íslands sátu þessir menn við hliðina á mér og blöðruðu allan tímann. Annar þeirra, sá fyrri átti sæti við hliðina á mér og hann blaðraði allan tímann um heima og geima, mjög skemmtilegt að heyra álit hans á Íslandi sem hann dýrkar. Við Jóhannes hittum hann svo í síðustu viku og hann gaf okkur ljósmyndir sem á síðar að selja í mjög takmörkuðu upplagi fyrir fúlgur fjár eins og hann sagði sjálfur. En ég var búin að segja ykkur frá þessu öllu saman.
Á Heathrow núna síðast gaf sig á tal við mig ungur maður sem spurði mig hvort ég væri íslensk (ég var á kafi ofan í bókinni minni) og játti ég því. Af minni alkunnu félagslyndi sagði ég ekki meir og hélt áfram að lesa, fannst reyndar skrítið að hann hefði vitað að ég væri íslensk (sá það á bókinni minni). Svo kom í ljós að hann átti sæti í 19F og ég í 19A og þar sem sætið var hinu meginn við ganginn, ákvað hann að færa sig og setjast við hliðina á mér. Ég er hætt að fá frið til að lesa bækur lengur :( Hann rabbaði líka um heima og geima og var að koma til Íslands í fyrsta skipti eftir að hafa langað í mörg ár. Hann var Ástrali og fannst ægilega spennandi að fá að vita allt um land og þjóð, búinn að ferðast út um allan heim nánast. Í annað skipti á mánuði þurfti ég því að þylja upp allt sem ég vissi um Klakann. Í lok ferðarinnar sagði hann alveg eins og Bretinn sagði "Úff ég er kominn með hálsríg af því að tala svona lengi við þig" (vorkenni þeim ekki neitt, þeim er nær að tala svona mikið). Þetta var svo sem skemmtilegur strákur og við hittumst á Kaffitár daginn eftir þar sem ég þurfti að sjálfsögðu að fá að vita svarið við "Há dú jú læk æsland). Það var fínt og "hí læks æsland verí möts" nema finnst Íslendingar helst til brjálaðir á skemmtistöðunum.
Það er gaman að kynnast fólki auðvitað en ég hef ekki verið dugleg við að gera mikið af því, vil yfirleitt vera látin í friði með bókina mína, mér leiðist yfirleitt fólk svona almennt eins og flestir vita sem mig þekkja og finnst yfirleitt tímaeyðsla að tala við fólk sem ég þekki ekki mikið. Ég hef samt tekið þá afstöðu að vera ekki eins brjálæðislega afundin ef ég er spurð út í land og þjóð eins og ég hef hingað til verið og reyna að vera landi og þjóð ekki til skammar :) Það virðist vera skilti á mér þessa dagana sem segir eitthvað varðandi þessa nýju stefnu mína, a.m.k. eru tveir menn með hálsríg eftir mig og ein stúlka fékk fyrirlestur um Ísland, hvað ætti að varast, hvað væri skemmtilegt að gera o.s.frv. síðast þegar ég var á Heathrow.
Kannski að maður kynnist einhverjum milljarðarmæringi sem vill endilega arfleiða mann að öllu sínu (bara svona af því maður er svo skemmtilegur). Þá má maður náttúrulega ekki vera eitthvað fúll sko.
Besta tárið
Verð að segja ykkur. Ég fékk besta kaffibolla sem ég hef á ævinni fengið í gær. Það vildi svo til að ég var á bíl (fékk lánaðan vinnubílinn hans Smára bróður) og ég ákvað að kíkja í Kringluna til að kaupa cheerios og svoleiðis handa Jóhannesi. Ég þurfti að sjálfsögðu að fá mér kaffi líka. Ég fór sem sagt á Kaffitár og fékk mér mildan, koffeinlausan (Jóhannes segir að ég eigi frekar að biðja um vatn eða mjólkurbland he he) da vinci með 1/2 skammti af English Toffee. Það var HRIKALEGA gott. Þetta er það sem ég fæ mér alltaf sko en þessi bolli var bara fullkominn. Það var allt eins og best verður á kosið. Kaffið var mátulega heitt, það var dásamleg micro froða sem blandaðist fullkomlega við kaffið (lá ekki bara ofan á), latte-listin (mynstrið í froðunni) var fullkomin líka. Verst að ég sá ekki hver gerði kaffið, kannski ágætt, hefði annars kysst viðkomandi.
Ljósmyndarinn sem var reyndar arkitekt
Já munið þið eftir ljósmyndaranum (og pabba hans, orustuflugmanninum) sem tók mig tali í flugvélinni á leiðinni til London frá Íslandi síðast? Hann hefur sem sagt haldið sambandi síðan hann kom til London og við hittumst í gær. Ég, Jóhannes og ljósmyndarinn hittumst á kaffihúsi og spjölluðum, aðallega um ljósmyndun og Ísland. Hann tók margar ofsalega fallegar myndir af Íslandi og ætlar meira að segja gefa okkur "limited edition" mynd sem hann ætlar að selja í framtíðinni. Hann ætlar að vera með heimasíðu þar sem hann selur þessar myndir. Hann var með hana í bílnum en gleymdi að láta okkur fá hana (ætlar að senda hana). Það verður gaman því við erum búin að sjá myndina sem hann ætlar að gefa okkur. Myndin er af Eyjarfjarðará og er eins og hún sé tekin í svart hvítu en er samt í lit.
En já ég sem sagt hélt að maðurinn væri ljósmyndari enda sagði hann í flugvélinni að hann væri að taka ljósmyndir á Íslandi og það hefði verið aðalástæðan fyrir þessari ferð sem og fleirum. Svo kemur í ljós að maðurinn er ekkert ljósmyndari að atvinnu heldur er hann arkitekt og hönnuður og er með fyrirtæki sem hefur skrifstofur m.a. á Indlandi, í London, Ástralíu, Nýja Sjálandi og á fleiri stöðum. Hann hefur hannað byggingar og innvols út um allan heim. Hann hlýtur að vera ágætlega efnaður því hann á íbúð í Ástralíu, við strönd sem hann notar í fríinu sínu, sem og íbúð á Englandi. Hann á líka nýjustu týpuna af Porsche Boxter sportbíl sem er ekki ókeypis. Tímann í fríunum sínum notar hann til að taka ljósmyndir neðansjávar, sem og landslagsmyndir og svo selur hann þær. Hann sem sagt er að lifa lífinu okkar, bastarður :)
Nei nei það er alltaf gaman að hitta nýtt fólk, sérstaklega fólk sem talar fallega um Ísland :) Við ætlum að reyna að hitta hann aftur til að taka myndir með honum, fá svona tips eins og hann gaf okkur í gær varðandi ljósmyndun og svoleiðis, alltaf gagnlegt þar sem við höfum áhuga á því að þramma um fleiri fjöll í framtíðinni og mættum alveg bæta við þekkinguna okkar sko. Hann hefur líka áhuga á að fara til Afríku og ætlar að reyna að koma til Íslands um jólin til að taka vetrarmyndir. Við ætlum líka að skiptast á íbúðum í framtíðinni, í fríunum okkar, við getum verið á ströndinni í Ástralíu og hann getur verið í íbúðinni okkar á Íslandi á meðan (eigum reyndar ekki íbúð eins og er). Hann veit það reyndar ekki enn þá að ég er að plana þetta he he.
Sírennsli á kránni
Mér fannst þessi grein í Mogganum í dag alveg hrikalega brilliant
MARGIR ölvinir eiga að sögn danska dagblaðsins Jyllandsposten við þann vanda að stríða að þegar setan á kránni er orðin löng er oft erfitt, vegna verkfalla í raddböndum og fleiri líffærum, að panta meira þegar kollan er tóm. En þýskir uppfinningamenn hafa fundið lausn. Þeir Andreas Butz við háskólann í München og Michael Schmitz við háskólann í Saar hafa hannað glasamottu sem gerð er úr málmplötu og er hún klædd pappír að ofanverðu. Á milli laga er skynjari sem mælir þyngdina á bjórglasinu og innihaldinu. Þegar ákveðinni lágmarksþyngd er náð sendir búnaðurinn frá sér rafeindaboð í borðtölvu á barnum. Fær barþjónninn þar boð um að fylla undireins kolluna hjá umræddum gesti áður en neyðarástand skapast.Ef vandi heimsins væri nú bara þessi!!!
Sykursætt morgunkorn
Í frétt Morgunblaðsins segir í morgun:
Það eru allt að sjö sykurmolar í einni meðalstórri skál af algengu morgunkorni sem er fyrsta máltíð dagsins hjá mörgum íslenskum börnum. Sykurmagnið er það mikið að það jafnast á við að þau séu að borða sælgæti í morgunmat með mjólk útá, segir Anna Sigríður Ólafsdóttir næringarfræðingur á Rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítalann. Það er hollara að borða sem mest af lítið unnum vörum. Grautar úr höfrum, hirsi, byggi eða öðru korni eru góður kostur í morgunsárið sem og lýsi, ávextir og grænmeti.ööööööö JÁÁ. HALLÓ. Þessi viðbjóður á að vera í nammideildinni, ekki með morgunmatnum, ég er búin að vera að rífast (í öllum sem vilja heyra) yfir þessu í mörg ár. Voða er fólk eitthvað seint á sér.
Það sem alvarlega vantar í grunnskóla landsins er næringarfræði og kennsla í lestri og skilningi á innihalds matvöru. Afhverju ætti fólk að hafa áhyggjur af því sem það borðar ef það hefur hvort eð er ekki hugmynd um það sem það er að láta ofan í sig? Fyrir þá sem eru vanir að skoða innihald matvöru ef hún er í pökkum, sjá t.d. að sykur er í efstu sætum morgunkorns, ekki hafrar, rúsínur, bygg, maís o.s.frv. Það er sykur og hann kallast alls kyns nöfnum eins og "sugar", "clucose syrop", "clucose", "sucrose", "dextrose" o.s.frv. Þetta var ástæðan fyrir því að ég gafst upp á morgunkorni á Íslandi (annað hvort smakkaðist það eins og pappi því það átti að vera svona "heilsumuesli" (my ass), það var hlaðið sírópi eða hunangi eða það var innfluttur viðbjóður. Ég bjó því til mitt eigið (uppskrift á vefnum mínum ef þið hafið áhuga) og var mjög sátt við að borða ekki mikið unna matvöru og hún bragðaðist bara fínt að auki. Það er afar mikilvægt að mínu mati að fólk sé læst á innihald matvöru, hvort sem það er á ensku, íslensku eða öðru tungumáli Það sem veitir mér samt mestu gleðina er að ég VEIT hvað ég er að láta ofan í mig (svona eins nálægt því og ég kemst a.m.k.). En það að kunna að lesa innihald, hjálpar mikið til við að ákvarða hvort varan sé holl eða ekki og það skiptir máli finnst mér að krökkum sé kennt þetta snemma. Fyrir utan það, afhverju ætti maður ekki að vita hvað maður er að láta ofan í mallakútinn sinn? Upp með næringarfræði í skólum.
Heitt súkkulaði
Ég er sem sagt heitt súkkulaði
En áhugaverð niðurstaða, heitt súkkulaði. Kom mér mest á óvart að ég væri ekki flóuð mjólk eða álíka :(
Hot Chocolate:
Ever-comforting, ever a blessing. Nobody knows what it is about you, but people are drawn to you like ants to a picnic. You're what people think of when they hear the word "home"Segið mér endilega hvaða drykkir þið eruð!
Ostakaka dauðans
Já ég bakaði ostaköku í gær. Svo sem ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að hún var svo grátlega góð (þó ég segi sjálf frá) að við horfðum bæði á eftir afgagngnum af henni í ísskápinn með trega og söknuði. Ég segi "afgangnum" svona eins og það sé bara kasjúal thing en heldur betur ekki. Við vorum búin að sitja í kringum hana dáldið lengi eftir fyrstu sneiðARNAR og sátum svo með skeið og "snyrtum hana aðeins". Við vorum svona eins og Chandler og Rachel í Friends í einum þættinum þar sem þau eru að hreinsa ostakökunasem datt í gólfið, með gaffli.
Málið er að Jóhannes spottaði Curd ost í búðinni síðasta laugardag, eitthvað sem ég hef ekki séð lengi. Curd cheese er ystingur eða hleypiostur (eina þýðingin sem ég fann) og er svona eins og blanda af fitusnauður rjómaostur (aðeins 12% fita í 100 grömmum). Úr þessu ásamt kvargi (Quark) eða skyri má búa til GEÐVEIKAR ostakökur. Því miður fæst Curd ostur ekki heima á Íslandi svo ég viti, þyrfti að finna eitthvað í staðinn.
Ostakakan er annars fitusnauð og ef maður finnur hollt hafrakex þá er hún aldeilis fín og holl. Það er enginn rjómi í henni né rjómaostur og ekkert smjör, enginn viðbættur sykur og aðeins 2,5 mtsk af ólífuolíu! Það eina óholla í henni er hafrakexið (hægt að finna hollt hafrakex) og svo 3 egg en þau drepa mann nú varla svona nokkur.
Ég er búin að bíða í allan dag eftir að komast heim og fá mér meiri ostaköku. Mmmmmm, bara vona að Jóhannes sé ekki búinn með hana. Hann ætti þá ekki langa lífdaga fyrir höndum :)
Já uppskriftin er hér fyrir þá sem vilja skoða Uppskriftina að Ostakökunni
Vitlaus dagur, vitlaust númer og vitlaus spítali
Já það er langt síðan ég hef öpdeitað áhugasama um yndislegu bresku (minnst traustvekjandi í heimi) heilbrigðisþjónustuna. Fyrst ég hef ekkert annað að skrifa um, þá blogga ég bara um þetta.
Þegar síðast var komið við sögu í hnémálum þá var ég með bréf í höndunum upp á viðtal?/uppskurð? (engar upplýsingar í bréfinu) þann 7. október. Svo átti ég að fylla út spurningarlista og senda. Það var enginn spurningarlisti með bréfinu. Ok gott og vel.
Ég sem sagt þurfti að færa tímann minn því ég verð á Íslandi þann 7. október. Ég hringi því í símanúmer sem gefið er upp á bréfinu. Símanúmerið er sérstaklega ætlað til að staðfesta/breyta tímum o.s.frv. Það stendur á bréfinu að MJÖG mikilvægt sé að hringja og staðfesta o.s.frv. En já ég hringi og vitlaust númer. Ég reyndi aftur og aftur var það vitlaust númer. Ég hringdi og hringdi og hringdi í þetta númer en alltaf var það jafn vitlaust. Svo á endanum ákvað ég að fara og tékka á þessu sjálf (enda munið þið að það er betra að fara sjálfur heldur en að faxa á milli stofnanna eins og ein afgreiðslukonan benti mér á-kæmi mér ekki á óvart þó þeir notuðu dúfur). En já ég finn hvar spítalinn er til húsa og trítla þangað og reyndist hann vera bara á endanum á okkar götu, spáið í þægilegheitum. Nú ég tala við konuna þar í móttökunni, svona svört "Tomma og Jenna kona" (Thooooooooomas, come HERE). Anyway hún segir mér að númerið sé rétt og það var svona "næsti gjörðu svo vel" svipur á henni. Ég sagði "Nei", númerið ER ekki rétt, prófaðu bara sjálf. Hún horfði á mig svona eins og ég væri að biðja hana um nýrun úr börnunum hennar en tók loksins bréfið mitt og prófaði númerið sjálf. Þá loksins fékk ég viðbrögð. Hún fölnaði (þó hún væri svört), það komu svitaperlur á ennið á henni og hún tók smá andköf. "wheywatybebcoohhmj" sagði hún (held að það hafi átt að þýða "oh my god"). Hún áttaði sig sem sagt á því að hún hefði sent út um 1000 bréf með vitlausu símanúmeri. Hún gaf mér upp símanúmer sem var rétt og ég ætlaði bara að trítla út með það nema mér datt í hug að spyrja hvort að heimilisfangið væri ekki örugglega rétt. Hún skoðaði það og sagði "Nei nei, við erum búin að flytja deildina á annan spítala". Einmitt. Maður er ekkert látinn vita. Ég hefði mætt á kolvitlausan stað þann 14. október.
En jæja ég hringi og bóka annan tíma og nokkrum dögum seinna hringi ég til að staðfesta (treysti nefnilega engu). Samtalið var svona
"Já góðan daginn, ég ætla að staðfesta tímann sem ég á hjá ykkur" -Já gefðu mér nafn og tilvísunarnúmer "Thorsteinsdottir, Sigrun, xxxxxx" -Ok þú átt að mæta 10. október kl 13 á Foley Street "Er það ekki 14. október" -Öööö jú reyndar "Klukkan 13.30 er það ekki þ.e. ekki kl 13?" -Öööö jú reyndar "Á nýja spítalann á Euston Road er það ekki örugglega þ.e. ekki Foley Street" -Hmm jú "Er eitthvað annað sem ég þarf að vita" -Veit það ekki, held ekki
Það var sem sagt EKKERT rétt hjá þessum blessaða starfsmanni (þetta er samt svona þjónustu við fólk sem þarf að fara á spítalann (sjúklinga o.fl.) til að hafa allt á hreinu.
Ég er dáldið svekkt með að fara ekki á Foley Street því ég var 5 mínútur að labba þangað frá íbúðinni okkar en í staðinn reyndar þá fer ég á splunkunýjan spítala. Hinn var nefnilega þannig að þegar maður kom inn þá var það fyrsta sem maður sá, skilti sem á stóð: "Vinsamlegast athugið að ekkert hefur verið gert fyrir þennan spítala síðustu árin (viðhald, þrif, málning o.fl.) og verður ekki gert þar sem við erum að flytja í nýjan spítala". Ekki beint traustvekjandi :(
En já 14. október kl 13.30 er sem sagt nýi tíminn og þá kemur vonandi í ljós hvað þarf að gera og hvenær.
RoverAfrica opnaður
Jæja þá erum við búin að opna enska hlutann á afrika.is vefnum. Við erum búin að vera að vinna í vefnum í dálítinn tíma. Endilega kíkið á roverafrica.com