Frosin

Nú er kominn sá tími sem ég verð frosin í nokkra mánuði. Mér er alltaf kalt, hendurnar stífar, skjálfti í beinunum og ég drekka fleiri, fleiri lítra af heitu tei á dag. Ég er kappklædd og er samt skjálfandi. Líkaminn virðist stöðva blóðrásina yfir vetrartímann og ég verð blá á vörunum í nokkra mánuði. Óþolandi. Ég man núna hvers vegna við vildum ekki flytja heim frá London fyrr en við nauðsynlega þurftum. Það er þessi goddamm kuldi og þetta endalausa rok á Íslandi. Þó að lífsgæðin séu mikil hér þá felast líka lífsgæði í því að geta verið á stuttermabol 9 mánuði ársins. Reyndar í löndum eins og Bretlandi þá getur verið ógeðskuldi í nokkra mánuði en svo kemur vorið og allt verður grænt á augabragði. Ég sakna London....alveg rosalega. Við eigum reyndar hlý hús á Íslandi en mér fannst líka kósí að vera kappklædd með tebolla í hlýjum dúnskóm í íbúðinni okkar í London... En það er ekki á allt kosið og London bíður betri tíma...þangað til næst :) Fyndið að hugsa til þess að árið 2004 fluttum við heim til Íslands en eftir 9 mánuði fluttum við aftur til London. Við gáfumst upp á að því að búa hérna.... Okkur fannst þrengt að okkur á einhvern hátt...það er allt svo ótrúlega lítið og oft óþægilega mikil nánd við fólk. Það er líka fyndið að hugsa til þess að við erum búin að vera hérna í 6 mánuði eftir að við fluttum í mars síðastliðnum og á þessum tíma fyrir 3 árum vorum við búin að ákveða að flytja aftur til London og fluttum 3 mánuðum seinna.

Það eru núna 3 vikur síðan við komum frá London á leið okkar frá Zanzibar, gegnum Nairobi. Við stoppuðum í einn dag í London og ég verð svo yfirþyrmandi reið Íslandi í hvert skipti sem ég kem þangað. HVERNIG stendur á því að við borgum helmingi til þrisvar sinnum meira fyrir allt, nákvæmlega ALLT? Sjampó, sami framleiðandi, sami brúsi, sama magn....3var sinnum dýrari hér en í London, meira að segja tannþráður (sami framleiðandi), uppþvottalögur (vistvænn) og svo ég tali ekki um lífrænar, hollar vörur. Ég fer í algjört þunglyndi við að upplifa þennan dónaskap við okkur Íslendinga og get ekki einu sinni bloggað í nokkrar vikur á eftir. Ég verð svo, svo, innilega reið. Maður getur verið reiður yfir mörgu (og glaður auðvitað) og ég er ekki að tala um að ég verði reið svona eins og fólk verður þegar það uppgötvar að það er veikt eða á veikt barn eða svoleiðis. Það er allt, allt annar handleggur. Þetta flokka ég sem "neytendareiði"..... róóóóóóóleeeeg Sigrúúúnnnn.

Eins og ég sagði áður er ég búin að vera á milljón í vinnunni en hef verið að dútla við að gera alls konar uppskriftir sem ég get fljótlega sent á póstlistann. Það er meðal annars súpa, ofnréttur, óvenjulegt ristað brauð, sítrónugraste frá Zanzibar og margt fleira....Það er eins gott að ég á ekki sjónvarp því annars væri vefurinn ekki til.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It