Ófrískur liðþófi og þurrt brjósk: 2-1-6-9-4-1-1-1

Furðurleg fyrirsögn....? Ég skal ég útskýra hana betur. Varúð sjúkrasaga fyrir þá sem finnst svoleiðis leiðinlegt :)

Fyrir þá sem hafa fylgst með í meira en 2 ár vita að vinstra hnéð hefur verið að plaga mig í þennan tíma. Eftir aðgerðina frægu í London (þar sem ég var búsett) á spítalanum sem var svo gamall að hann lokaði vikuna eftir mína aðgerð (það var ekkert búið að þrífa í langan tíma á spítalanum þegar ég fór í aðgerðina og hvernig ég slapp við sýkingu er kraftaverk) þá tóku við samtals 10 læknar (það er enginn einn sérfræðingur sem maður fær, heldur fær maður alltaf nýjan og nýjan lækni sem er óþolandi) yfir 2ja ára tímabil. Útskýring á tölunum er sem hér segir:

  • 2 daga tók að fá MRI skann (segulómun) á Íslandi (hnéð fór illa eftir langa göngu á fjöllum þegar ég var hér í fríi 2005)
  • 1 dag tók að fá niðurstöðuna á Íslandi
  • Svo fórum við út aftur og 6 mánuði tók fyrir mig að fá tíma í aðgerð í London
  • 9 mánuði tók að fá MRI skann í London (því augljóst var að aðgerðin hefði misheppnast)
  • 4 mánuði tók að fá niðurstöðuna úr MRI skanni. Læknirinn þar sagði að hann gæti ekki meira gert en líklega væru þetta taugaskemmdir (eftir aðgerðina)....great.
  • Ég gafst upp...eftir sprautur, sjúkraþjálfun og 10 lækna og var að drepast í hnénu og búin að vera síðan.

Svo flytjum við heim í mars síðastliðnum og þurftum að bíða í 6 mánuði eftir að komast inn í kerfið....(var þakklát fyrir að vera ekki mikið veik á meðan svo var!). Fékk reyndar E-104 skírteini sem þýðir að ég þurfti að bíða skemur.

Nú ég hringi glöð í bragði með E-104 skírteinið mitt og panta tíma í Orkuhúsinu (hef heyrt margt gott um læknana þar)

  • Ég fæ tíma eftir 1 viku
  • Ég fæ MRI skann vikunni seinna
  • Læknirinn hringir í mig vikunni þar á eftir og segir mér niðurstöðurnar!!!!! Þetta er ÓTRÚLEGT. Það fattar enginn hvað við erum heppin að búa við svona þjónustu fyrr en maður hefur prófað t.d. Bretland sem virkar alls ekki.

Nú læknirinn yndislegi (sem hlustaði, skoðaði, SKILDI vandamálið og hversu mikið þetta háir mér og VILDI laga það) fékk mig til að trúa því aftur að læknar fái ekki skírteinið í bréfaskóla (svona eins og sumir læknar í Bretlandi virðast fá). Ég sagði honum líka að hann væri búinn að gera meira fyrir mig á 10 mínútum en 10 læknar á 2 árum. Ég hefði getað faðmað hann. Loksins, loksins, loksins er eitthvað að gerast. Nýjustu niðurstöður eru sem sagt þær að liðþófinn er "ekki frískur" og það er ekki nóg "vatn í brjóskinu" (ef ég skildi rétt) og það "lítur ekki eðlilega út". Það er samt ekki rifa í liðþófanum (það var lagað með síðustu aðgerð).

Það sem skiptir mig mestu máli er að fá staðfestingu á því að ég sé ekki galin...ég er viss um að margir halda að ég hafi verið bara klikk í hausnum því ég get gert flest..ég get labbað upp og niður stiga, farið í ræktina (ekki hlaupið reyndar), ég get farið í léttar göngur með göngustafi en mér er alltaf, alltaf, alltaf illt....mismikið en alltaf finn ég til og hnéð er enn þá ótrúlega viðkvæmt fyrir snertingu sem er ástæðan fyrir því að ég get t.d. ekki farið á hestbak. 

Læknirinn yndislegi vill sem sagt prófa að sprauta (og sprauta á réttum stöðum, ekki bara út í loftið eins og tyrkneska konan gerði í London) og ef það lagast þá er það fínt en ef það lagast ekki þá vill hann gera aðra aðgerð. Þetta ætlum við að prófa eftir að ég kem frá Kenya.

Góðu fréttirnar eru sem sagt þær að líklega eru þetta ekki taugaskemmdir en það er eitthvað ekki eins og það á að vera og það þarf að laga. Ég er bara hamingjusöm af því loksins er eitthvað að gerast!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigríður Guðnadóttir
25. jún. 2008

Sæl Sigrún!

Ég rakst á skrif þín um hnévandamálið þitt fyrir tilviljun, en ég á við svipað vandamál að stríða og er að fara til læknis. Ég er svo forvitin að vita hvað þessi yndislegi læknir í Orkhúsinu heitir, sem þú fórst til. Myndir þú vilja segja mér nafnið.

Kveðja,

Sigríður